Jólakveðjur

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 04:44:00 (2507)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :

     Eftir allmiklar annir undanfarna daga er nú komið að lokum þessarar fyrstu haustannar Alþingis í einni málstofu. Þetta gefur forseta tilefni til að staldra við og íhuga hvernig til hafi tekist í störfum þingsins í ljósi breyttra aðstæðna. Við setningu þingsins nú í haust lét forseti þess getið að mikil tímamót væru á Alþingi. Fyrir okkur lægi að aðlaga okkur breyttu skipulagi og hrinda í framkvæmd nýjum þingsköpum. Öll þyrftum við að leggjast á eitt um að móta heiðarlegar og réttlátar reglur hér á Alþingi. Þar bæri okkur að hafa að leiðarljósi virðingu og heiður þessarar stofnunar.
    Eins og skiljanlegt er þegar nýjar reglur koma til skjalanna eru menn ekki alltaf á einu máli um það hvernig beri að túlka þær. Forseti hefur við ýmis tækifæri tekið fram að kæmu í ljós annmarkar á þingsköpum eða þörf væri á frekari breytingum mundi forseti vilja beita sér fyrir því að þingsköpin væru tekin til endurskoðunar um leið og til þess gæfist ráðrúm. Forseti mun beita sér fyrir að slík endurskoðun hefjist í vor. Forseti telur það brýnt að ekki dragist að sinna þessu mikilvæga verkefni. Það er eðlilegt að starfshættir Alþingis séu í sífelldri þróun í takt við þjóðfélagsbreytingar en líka sjálfsagt að halda í gamlar og grónar hefðir eins lengi og aðstæður segja til um.
    Á þessu hausti hafa orðið snörp orðaskipti milli nýrrar ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokka. Við vitum það öll sem störfum í anda lýðræðis að stjórnarandstaða hefur mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðisþjóðfélagi og að sjálfsögðu á hún ýmislegt vantalað við nýja ríkisstjórn í upphafi kjörtímabils. Hún vill þá gjörla fá að vita hvað ný ríkisstjórn hyggst fyrir og hvernig hún hyggst koma stefnu sinni fram og fá ítarlegar umræður um málin. En sitthvað sýnist í þessum efnum stjórn og stjórnarandstöðu hvar mörkin eigi að liggja.
    Nú er önnum okkar á þingi lokið í bili og friðsemd jólahátíðarinnar veitir okkur kærkomið hlé. Hv. þm. öllum þakka ég góða samvinnu á því ári sem nú er að renna sitt skeið. Sérstaklega færi ég varaforsetum þakkir mínar fyrir gott samstarf. Ég færi skrifstofustjóra Alþingis og starfsfólki öllu hugheilar óskir og þakka því vel unnin störf undir miklu álagi í erli daganna. Þeim er um langan veg eiga að fara óska ég góðrar heimkomu og bið þá fyrir kveðjur til fjölskyldna þeirra. Sjáumst heil á nýju ári.