Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 32 . mál.


32. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, nr.6 63 31. maí 1979.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    4. gr. laganna orðist svo:
     Um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris, sem innlendir aðilar, þar með taldir þeir aðilar sem heimild hafa til að versla með erlendan gjaldeyri, eiga eða eignast fyrir seldar vörur, þjónustu eða á annan hátt, fer eftir reglum sem ráðuneytið setur.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Einn af hornsteinum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og meginatriðið í stefnu hennar í gengismálum, sem kynnt var 3. október 1991, er stöðugt gengi. Tenging íslensku krónunnar við ECU er hins vegar ekki talin tímabær að sinni. Til að skapa nauðsynlegar forsendur fyrir því á fjármagns- og gjaldeyrismarkaði að unnt sé að tengja gengi krónunnar við ECU með trúverðugum hætti þurfa að koma til veigamiklar skipulagsbreytingar. Þar er um að ræða nauðsyn þess að rýmka reglur um skilaskyldu á erlendum gjaldeyri til að unnt sé að byrja að þróa gjaldeyrismarkað, styrkja stjórntæki Seðlabankans í peningamálum og afla lagaheimilda til að gengi krónunnar geti ráðist af framboði og eftirspurn á markaði. Jafnframt þessu er mikilvægt að aflétta enn frekar hömlum á gjaldeyrisviðskiptum þannig að þau verði óheft innan nokkurra missira.
     Frumvarp þetta er flutt til að strax sé unnt að byrja að þróa hér á landi gjaldeyrismarkað. Í því er lögð til breyting á ákvæðum um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris í lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála frá 1979. Í viðskiptaráðuneytinu og Seðlabankanum er nú unnið að heildarendurskoðun á lögunum frá 1979 í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa í gjaldeyrismálum á síðustu árum og stefnu ríkisstjórnarinnar um afnám flestra gjaldeyrishafta á næstu missirum.
     Núgildandi lagaákvæði um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris er í meginatriðum þannig að erlendur gjaldeyrir er sölu- eða skilaskyldur. Í lagaákvæðinu eru heimilaðar nokkrar undanþágur: Í fyrsta lagi er innlendum aðilum heimilað að leggja erlendan gjaldeyri, sem þeir hafa eignast, inn á gjaldeyrisreikninga í innlendum bönkum eða sparisjóðum. Í öðru lagi er bönkum og sparisjóðum heimilað að varðveita erlendan gjaldeyri sem þeim er seldur. Þó skulu þeir selja Seðlabankanum þann erlenda gjaldeyri sem er umfram eðlilegar viðskiptaþarfir þeirra ef Seðlabankinn telur nauðsyn bera til. Í þriðja lagi getur svo gjaldeyriseftirlit Seðlabankans veitt undanþágu frá sölu- og skilaskyldunni, svo og leyft tilteknum aðilum að eiga reikninga í erlendum gjaldeyri utan lands og nota gjaldeyristekjur sínar til að inna sérstakar greiðslur af hendi samkvæmt nánari reglum sem ráðuneytið setur.
     Á grundvelli þessa lagaákvæðis hefur útgerðum fiskiskipa, sem sigla með og selja fisk eða fiskafurðir á erlendum markaði, verið heimilað í reglugerð að draga frá skilaskyldunni kostnað við söluferðina og kaup á nauðsynjum erlendis, þar með töldum veiðarfærum. Jafnframt hefur verið heimilað í reglugerð að innlendir aðilar megi innan ákveðinna marka leggja erlendan gjaldeyri, sem þeir hafa eignast, inn á reikninga í erlendum bönkum rétt eins og þeir mega leggja hann inn á innlenda gjaldeyrisreikninga.
     Til að unnt sé að þróa gjaldeyrismarkað er nauðsynlegt að aflétta sölu- og skilaskyldu á erlendum gjaldeyri enn frekar en þegar hefur verið gert. Það mun ugglaust taka nokkurn tíma að byggja upp gjaldeyrismarkað og engin ástæða til að sölu- og skilaskyldu verði aflétt að fullu í einni svipan. Eðlilegt er að fyrstu skrefin í þróun gjaldeyrismarkaðar felist í því að skapa millibankamarkað þar sem bankar og fjármálastofnanir versla með þann erlenda gjaldeyri sem þær hafa undir höndum. Næstu skref gætu falist í því að stærstu kaupendum og seljendum erlends gjaldeyris yrði veittur aðgangur að markaðnum og síðan öðrum aðilum. Í ljósi þessa má telja eðlilegt að lagaákvæði um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris séu þannig úr garði gerð að auðvelt sé að rýmka þau eftir því sem markaðurinn þróast.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að sölu- og skilaskylda erlends gjaldeyris verði ekki fastákveðin í lögum heldur verði viðskiptaráðherra heimilað að ákveða hvaða reglur skuli gilda á þessu sviði. Með þessu er í rauninni afnumin lögbundin sölu- og skilaskylda á erlendum gjaldeyri. Er þetta í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið hér á landi á síðustu missirum að afnema hömlur á gjaldeyrisviðskiptum. Sveigjanleiki af þessu tagi gerir það einnig að verkum að unnt er með auðveldum hætti að rýmka reglur um sölu- og skilaskyldu smátt og smátt eftir því sem gjaldeyrismarkaður byggist upp hér á landi.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.