Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 113 . mál.


116. Frumvarp til laga



um breytingar á lagaákvæðum er varða stöðlun o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


     Lög um Landmælingar Íslands, nr. 31 7. júní 1985.
     1. tölul. 5. gr. laganna hljóði svo: Frumkvæði að samráði við Staðlaráð Íslands hf. um gerð staðla fyrir landmælingar og kortagerð og gerð landfræðilegra og staðfræðilegra grundvallarmælinga til kortlagningar á Íslandi og umsjón með þeim. Mælingar skulu gerðar eftir skipulögðu mælingakerfi.

2. gr.


     Lög um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, nr. 53 16. maí 1978.
    2. málsl. 7. gr. laganna hljóði svo: ED setur fram kröfur, sem eftirlitsskyldar vörutegundir skulu fullnægja, í samráði við sérfræðinga Rala og Búnaðarfélags Íslands þar sem því verður við komið og getur landbúnaðarráðuneytið bannað framleiðslu og verslun með vörutegundir sem ekki fullnægja settum kröfum.
    15. gr. laganna hljóði svo:
                  FR setur fram kröfur sem einstakar fóðurblöndur ætlaðar einstökum búfjártegundum skulu fullnægja og getur bannað framleiðslu og sölu á fóðurblöndum sem ekki fullnægja settum kröfum.
    1. mgr. 17. gr. laganna hljóði svo:
                  ÁR hefur eftirlit með því að tilbúinn áburður innihaldi þau efni og það magn sem framleiðandi gefur til kynna og ábyrgist í samræmi við settar kröfur um hverja áburðartegund.
    1. mgr. 20. gr. laganna hljóði svo:
                  SR hefur eftirlit með spírunarhæfni, hreinleika og öðrum eiginleikum sáðvöru sem ástæða þykir til, setur fram kröfur um samsetningu fræblandna og hefur eftirlit með að blöndunarhlutföll séu í samræmi við þær.

3. gr.


     Byggingarlög, nr. 54 16. maí 1978.
     1. mgr. 4. gr. laganna hljóði svo:
     Umhverfisráðherra setur almenna byggingarreglugerð, svo og sérreglugerðir með ákvæðum um notkun staðla á ýmsum sviðum byggingariðnaðarins.

4. gr.


     Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81 3. ágúst 1988.
     26. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna hljóði svo: Viðmiðunarreglur og kröfur um efna- og gerlainnihald matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara.

5. gr.


     Lyfjalög, nr. 108 14. nóvember 1984.
    2. mgr. 3. gr. laganna hljóði svo:
                  Ráðherra skal, að fengnum tillögum landlæknis, kveðja til nefnd sérfróðra manna til þess að skilgreina nánar og gera tillögur um staðallýsingar þess varnings er greinir í 1. mgr.
    2. mgr. 6. gr. laganna hljóði svo:
                  Lyfjanefnd gerir tillögur til ráðherra um staðallýsingar fyrir lyfjaform, gæði og hreinleika lyfjaefna og hjálparefna við lyfjagerð, svo og fyrir aðgerðir til greiningar og ákvörðunar á þessum efnum.
    3. mgr. 6. gr. laganna hljóði svo:
                  Ráðherra hefur á hendi auglýsingar og útgáfustarfsemi er að staðallýsingum lýtur.
    7. mgr. 14. gr. laganna hljóði svo:
                  Framleiðandi lyfja skal í hvívetna hlíta ákvæðum gildandi lyfjaskrár og staðallýsinga, svo og reglugerða þar að lútandi og góðum framleiðsluháttum í lyfjagerð.
    3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna hljóði svo: Skulu framangreindar upplýsingar ætíð vera í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrá, staðallýsingum, sérlyfjaskrá eða skrá um stöðluð lyf, sbr. 13. gr.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta er flutt sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Staðlaráð Íslands.
     Breytingar þessa frumvarps miða allar að því að samtímis gildistöku frumvarps til laga um Staðlaráð Íslands breytist orðalag um staðla og stöðlun í þeim lögum og lagagreinum sem í frumvarpinu er getið. Þessar breytingar eru nauðsynlegar þar sem orðin staðall og stöðlun eru notuð í merkingu sem ekki er í samræmi við alþjóðaskilgreiningar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að eitt af verkefnum Landmælinga Íslands sé setning staðla fyrir landmælingar og kortagerð. Með breytingunni er hins vegar aðeins ætlast til þess að Landmælingar Íslands hafi frumkvæði að samráði við Staðlaráð Íslands hf. um gerð slíkra staðla enda verður það Staðlaráð sem gefur alla staðla út.

Um 2. gr.


    Í lögum nr. 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, er skv. 7. gr. ætlast til þess að eftirlitsdeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (ED) gefi út staðla um eftirlitsskyldar vörutegundir, að Fóðureftirlit ríkisins (FR) skv. 15. gr. gefi út staðla sem einstakar fóðurblöndur ætlaðar einstökum búfjártegundum skulu fullnægja, Áburðarverksmiðja ríkisins (ÁR) skv. 17. gr. hafi eftirlit með því að tilskilinn áburður innihaldi þau efni og það magn sem framleiðandi gefur til kynna og ábyrgist í samræmi við stöðlun hverrar áburðartegundar og loks að Sáðvörueftirlit ríkisins (SR) skv. 1. mgr. 20. gr. gefi út staðla um samsetningu fræblandna.
     Með breytingunni er lagt til að ED, FR og SR setji fram kröfur í stað þess að gefa út staðla, enda er ætlunin að Staðlaráð Íslands hf. gefi út alla staðla og að ÁR hafi eftirlit með að fylgt sé settum kröfum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að umhverfisráðherra setji í byggingarreglugerð aðeins ákvæði um notkun staðla en ekki ákvæði um staðla á ýmsum sviðum byggingariðnaðarins eins og nú er.

Um 4. gr.


    Í 26. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er lagt til að orðið: kröfur komi í stað orðsins „staðla“.

Um 5. gr.


    Í lyfjalögum, nr. 108/1984, verði orðið: staðallýsing notað í stað orðsins „stöðlun“ í 2. mgr. 3. gr., í stað „staðla“ í 2. mgr. 6. gr., í stað „lyfjastaðla“ í 7. mgr. 14. gr. og í stað orðsins „lyfjastöðlun“ í 3. málsl. 2. mgr. 18. gr.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa.



Umsögn um frumvarp til laga um


breytingar á lagaákvæðum er varða stöðlun o.fl.



     Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkisssjóð.