Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 139 . mál.


203. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnlaugs Stefánssonar um rekstur dagvistarheimila fyrir börn á vegum sjúkrahúsanna í Reykjavík.

     1. Hver er kostnaður Ríkisspítala, Borgarspítala og Landakotsspítala af rekstri dagvistarheimila fyrir börn í Reykjavík og af vistun barna hjá dagmæðrum?
    Á árinu 1990 greiddu Ríkisspítalar 115 milljónir króna fyrir vistun á dagheimilum og 7,9 milljónir króna fyrir vistun hjá dagmæðrum. Borgarspítali greiddi 68,7 milljónir króna fyrir vistun á dagheimilum og 1,2 milljónir króna fyrir vistun hjá dagmæðrum og Landakotsspítali greiddi 32,9 milljónir fyrir vistun á dagheimilum en 371 þús. kr. fyrir vistun hjá dagmæðrum.

     2. Hversu mörg dagvistarheimili rekur hver spítali og hversu mörg börn njóta dagvistarþjónustu á vegum spítalanna í Reykjavík?
    Ríkisspítalar reka 8 leikskóla og skóladagheimili með samtals 250 rými, Borgarspítali rekur 3 leikskóla og 1 skóladagheimili eða 130 rými og Landakotsspítali rekur 3 dagvistarheimili með 85 rými. Börnin, sem vistar njóta, eru nokkru fleiri en plássin segja til um og helgast þetta af því að sum börn mæta 3 daga í viku og önnur 4 eða 5 daga eftir því hversu mikið foreldrið vinnur á spítalanum.

     3. Hver hefur hlutdeild spítalanna verið í stofnkostnaði dagvistarheimilanna?
    Landspítali og Landakotsspítali hafa borgað að fullu stofnkostnað dagvistarheimila sinna, en Borgarspítali hefur ekki tekið þátt í stofnkostnaði dagvistarheimila spítalans.

     4. Hver er hlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstri og stofnkostnaði dagvistarheimilanna?
    Reykjavíkurborg hefur greitt að fullu stofnkostnað heimilanna fyrir Borgarspítalann en ekki tekið þátt í öðrum stofnkostnaði dagvistarheimila spítala í Reykjavík og tekur engan þátt í rekstrarkostnaði.

     5. Samræmist það verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að sjúkrahús, sem rekin eru af ríkissjóði, sjái um rekstur dagvistarheimila fyrir börn?
    Sjúkrahúsin í Reykjavík hafa farið út í rekstur dagvistarstofnana fyrir börn til þess að laða að það starfsfólk sem er torfengið, einkum hjúkrunarfræðinga, og miðað við fjölda starfsmanna á þessum spítölum er fjöldi dagvistarrýmanna lítill. Sjúkrahúsin mundu ekki reka dagvistarheimili ef nægilegt framboð væri af dagvistarrými í Reykjavík fyrir börn.