Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 186 . mál.


205. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.

    3. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna skv. 17. og 18. gr., sbr. 2. mgr. 24. gr., skulu til ársloka 1996 borin af ríkissjóði, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Lífeyrissjóði bænda. Skal Lífeyrissjóður bænda greiða þann hluta lífeyris sem bóndi hefur áunnið sér með greiðslu iðgjalds skv. I. kafla til sjóðsins. Að öðru leyti skal ríkissjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins standa undir greiðslum þannig að ríkissjóður greiði 62,5% og Stofnlánadeild landbúnaðarins 37,5%. Frá 1. janúar 1997 skal Lífeyrissjóður bænda standa undir lífeyrisgreiðslum þessum.

3. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Árin 1992 til 1996 skal lífeyrir skv. I. kafla hvert ár miðast við viðmiðunarlaun undanfarandi fimm almanaksára.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. skal lífeyrir skv. II. kafla frá 1. janúar 1992 miðast við 80,1% af þágildandi viðmiðunarlaunum. Hinn 1. júlí 1992 hækki lífeyrir síðan í hlutfalli við hækkun viðmiðunarlauna frá 1. janúar til 1. júlí og eftir það með sama hætti hvern 1. janúar og 1. júlí til ársloka 1996.
    Elli-, örorku- og makalífeyrir þeirra lífeyrisþega, sem ekki eiga rétt skv. II. kafla, skal reiknaður á sama hátt og segir í 2. mgr., þó þannig að miðist lífeyrir við fleiri stig en 40 verði einungis sá lífeyrir, er svarar til 40 stiga, reiknaður á þennan hátt, en um afganginn fer eftir ákvæðum 1. mgr. og 25. gr. Nú á lífeyrisþegi rétt skv. II. kafla, en mundi engu að síður fá hærri lífeyri ef farið væri eftir reglu 1. málsl. og skal þá sjóðurinn greiða honum mismuninn.

4. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir verulegum breytingum á fjárhagsákvæðum laganna um eftirlaun til aldraðra, þar á meðal að framlag skv. 25. gr. laganna falli niður.
    Í meðfylgjandi frumvarpi er lagt til að tímabundin ákvæði laganna um Lífeyrissjóð bænda verði framlengd nokkuð breytt til ársloka 1996 en samkvæmt núgildandi lögum rennur gildistími þessara ákvæða út í árslok 1991. Miða breytingar þær, sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, að því að ná fram sambærilegri skiptingu ábyrgðar á lífeyrisgreiðslum milli ríkissjóðs og Lífeyrissjóðs bænda og gert er ráð fyrir að verði milli hins opinbera og lífeyrissjóðanna samkvæmt frumvarpinu um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra.
    Þegar samið var um stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða árið 1969 gaf þáverandi ríkisstjórn fyrirheit um sérstök réttindi aldraðra félaga í stéttarfélögum, þ.e. manna sem fæddir voru árið 1914 eða fyrr. Skyldu útgjöld borin af Atvinnuleysistryggingasjóði og ríkissjóði. Voru ráðstafanir þessar lögfestar árið 1970. Sama ár voru sett lög um Lífeyrissjóð bænda en í II. kafla þeirra laga voru ákvæði um réttindi aldraðra bænda, hliðstæð þeim réttindum sem öldruðum launþegum voru veitt með lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Skyldu útgjöld vegna þessara réttinda aldraðra bænda borin af Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóði. I. kafli laganna fjallar hins vegar um lífeyrisgreiðslur þeirra sem greiða iðgjöld til sjóðsins.
    Árið 1976 var verðtrygging lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum stóraukin og útgjöld vegna hinnar auknu verðtryggingar borin af lífeyrissjóðum á samningssviði Alþýðusambands Íslands. Var þá Lífeyrissjóður bænda látinn taka á sig útgjöld vegna hliðstæðrar verðtryggingar lífeyrisgreiðslna skv. II. kafla laga sjóðsins en vegna aldursskiptingar bænda urðu þessi útgjöld sjóðnum afar þungur baggi. Með lögum nr. 97/1979, um eftirlaun til aldraðra, var þeirri skipan komið á að Lífeyrissjóður bænda skyldi eins og aðrir lífeyrissjóðir leggja ákveðinn hundraðshluta iðgjaldatekna sinna til þessa eftirlaunakerfis sem nú var ekki lengur takmarkað við félaga í stéttarfélögum en hins vegar skyldi útgjöldum til hinnar sérstöku uppbótar á lífeyri skv. II. kafla laga sjóðsins af honum létt og þau greidd með framlagi skv. 25. gr. laga nr. 97/1979, nú lög nr. 2/1985.
    Samkvæmt núgildandi lögum greiðir hið opinbera allan grunnlífeyri skv. II. kafla en hann miðast við viðmiðunarlaun undanfarandi fimm almanaksára að frádregnum lífeyrisgreiðslum skv. I. kafla. Uppbót á þennan lífeyri, þ.e. verðtrygging, er greidd með framangreindu framlagi samkvæmt lögum nr. 2/1985.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að greiðsla grunnlífeyris og uppbótar verði sameinaðar í eina greiðslu og að Lífeyrissjóður bænda greiði verðtryggðan lífeyri í hlutfalli við iðgjaldagreiðslur sjóðfélaganna en hið opinbera það sem vantar á full réttindi samkvæmt lögunum. Framlag samkvæmt lögum nr. 2/1985 fellur hins vegar niður og þar af leiðandi hefur það ekki raunhæfa þýðingu að skipta lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum í grunnlífeyri og uppbót.
    Samkvæmt reikningum fyrir Lífeyrissjóð bænda fyrir árið 1990 námu eftirlaunagreiðslur skv. II. kafla það ár 156 millj. kr. og skiptust útgjöld sem hér segir:
     Framlag ríkissjóðs      80 millj. kr.
     Framlag Stofnlánadeildar landbúnaðarins      48 millj. kr.
    Framlag samkvæmt lögum nr. 2/1985      28 millj. kr.
     Lífeyrisgreiðslur til þess hóps, sem II. kafli tekur til, voru þó mun hærri en þessar tölur sýna þar sem hluti hans fékk greiddan lífeyri samkvæmt reglum I. kafla laganna, þ.e. í samræmi við iðgjaldagreiðslur til sjóðsins. Greiddi sjóðurinn á árinu 1990 18 millj. kr. í lífeyri skv. I. kafla til þessa hóps.
    Áætlað er að kostnaður vegna lífeyrisgreiðslna skv. II. kafla á árinu 1991 nemi 157 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðurinn greiði á árinu 1991 20 millj. kr. í lífeyri til þeirra sem II. kafli tekur til. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að þessar lífeyrisgreiðslur sjóðsins verði verðtryggðar munu þær hækka nokkuð eða um 2 millj. kr. sé miðað við árið 1991. Greiðslur hins opinbera hefðu því numið 155 millj. kr. árið 1991 hefði hið breytta fyrirkomulag gilt þá.
     Á næstu árum dregur mjög úr ellilífeyrisgreiðslum skv. II. kafla, mun hægar dregur úr útgjöldum til makalífeyris.
    
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í gildandi lögum er kveðið á um það í 3. mgr. 18. gr. að lífeyrir skv. 9.–11. gr., þ.e. I. kafla, komi til frádráttar greiddum lífeyri skv. 18. gr. og örorkulífeyri skv. 17. gr. Það leiðir af ákvæðum 2. gr. þessa frumvarps, þar sem fram kemur að Lífeyrissjóður bænda greiðir lífeyri í samræmi við réttindatíma en hið opinbera það sem umfram er, að þessi málsgrein fellur niður.          

Um 2. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um skiptingu kostnaðar vegna lífeyrisgreiðslna skv. II. kafla. Gert er ráð fyrir því að Lífeyrissjóður bænda greiði lífeyri í samræmi við réttindatíma hvers og eins sjóðfélaga. Það sem þá vantar á full réttindi samkvæmt lögunum greiðist úr ríkissjóði og af Stofnlánadeild landbúnaðarins en kostnaðarskipting milli þessara tveggja aðila helst óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 3. gr.

    
     Samkvæmt núgildandi lögum er ákvæði um grunnlífeyri í 24. gr. en um verðtryggingu í bráðabirgðaákvæði. Hér er lagt til í 2. mgr. að ákvörðun grunnlífeyris og ákvörðun uppbóta á laun verði sameinaðar þannig að ekki verði lengur gerður greinarmunur á grunnlífeyri og þeirri uppbót sem þarf til að eftirlaun fylgi breytingu viðmiðunarlauna. Þessi breyting mun ekki breyta neinu um lífeyrisgreiðslur til einstakra sjóðfélaga en þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir framlögum skv. 25. gr. laga nr. 2/1985 er eðlilegt að þessar tvær greiðslur verði sameinaðar.
    Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða 3. og 4. málsl. 1. mgr. núgildandi bráðabirgðaákvæðis. Breyting sú, sem hér er lögð til, er gerð til samræmis við þá breytingu sem felst í 2. mgr.
    Í 1. mgr. felst engin efnisbreyting frá núgildandi 24. gr.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.