Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 149 . mál.


219. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um vistunargjöld hjúkrunarsjúklinga á langdvalarstofnunum aldraðra.

    1. Hvaða reglur gilda um vistgjöld fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga á langdvalarstofnunum?
    Í fyrstu lögunum um málefni aldraðra, nr. 91/1982, sem gengu í gildi 1. janúar 1983, var gerð grundvallarbreyting á greiðslu kostnaðar við vistun á dvalarstofnunum fyrir aldraða. Í bráðabirgðaákvæði laganna var ákveðið að breytingin kæmi til framkvæmda í áföngum samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Breytingunum var ekki hrint í framkvæmd fyrr en með gildistöku endurskoðaðra laga um málefni aldraðra, nr. 82/1989. Í framhaldi af gildistöku þeirra laga 1. janúar 1990 var sett reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, nr. 47/1990, þar sem nánar er kveðið á um innheimtu greiðsluhlutdeildar aldraðra vegna vistunar á hjúkrunarstofnunum.
    Með breyttu fyrirkomulagi var samræmd greiðsluhlutdeild aldraðra í kostnaði við vistun á öldrunarstofnunum. Áður voru reglurnar þær að aldraður, sem hafði tekjur umfram bætur almannatrygginga, tók þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á dvalarheimili en hætti þeirri greiðsluþátttöku ef heilsu hans hrakaði svo að hann þurfti á hjúkrunarvist að halda. Það þótti óeðlilegt að greiðsluhlutdeildin hætti algerlega þegar flust væri yfir á dýrara þjónustustig. Þess vegna voru reglurnar samræmdar.
    Samkvæmt reglugerðinni um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, nr. 47/1990, skulu aldraðir vistmenn á stofnunum fyrir aldraða, hvort sem þeir dveljast í þjónustuhúsnæði (dvalarheimilum) eða í hjúkrunarrými, greiða hlutdeild í kostnaði við vistunina enda hafi viðkomandi tekjur umfram tiltekin lágmörk.
    Ef aldraður langlegusjúklingur hefur tekjur umfram 19.000 kr. á mánuði skal hann frá þeim tíma, sem bætur almannatrygginga falla niður, þ.e. eftir fjögurra mánaða dvöl, taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Þó skal hann í hverjum mánuði aldrei greiða hærri fjárhæð en sem nemur mánaðarlegum dvalarkostnaði í þjónustuhúsnæði (dvalarheimili), eða rétt tæplega 70 þús. kr. Eigi langlegusjúklingurinn maka skulu eigin tekjur hans skiptast að jöfnu milli hans og makans. Ef tekjur hans eftir skiptinguna eru hærri en 19.000 kr. skal hann með þeim tekjum, sem umfram eru, taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar.

    2. Hvert renna gjöldin?
    Gjöldin renna til lækkunar á kostnaði sjúkratrygginga af langlegunni.

     3. Hvenær voru reglurnar settar?
    Eins og fyrr segir voru fyrstu ákvæði um greiðsluhlutdeild af þessu tagi lögfestar árið 1982. Þeim var hins vegar ekki hrundið í framkvæmd fyrr en í ársbyrjun 1990.

     4. Hvað er gert ráð fyrir að margir aldraðir hjúkrunarsjúklingar greiði vistgjöld á þessu ári og hve mikið samanlagt?
    Frá 1. mars 1990 til 31. desember sama ár voru greiðendur 132 og greiddu samtals liðlega 21 m.kr. Á tímabilinu 1. janúar til 31. október 1991 voru innheimtar réttar 19 m.kr. hjá tæplega 200 hjúkrunarsjúklingum.
    Fljótlega eftir að reglugerðin gekk í gildi var ákveðið að fresta innheimtu á hjúkrunarstofnunum á föstum fjárlögum, m.a. vegna þess að þessar stofnanir töldu sig vanbúnar til að standa að innheimtu af þessu tagi. Ákveðið hefur verið að frá og með 1. janúar 1992 skuli þessar stofnanir annast innheimtu hjá sínum hjúkrunarsjúklingum eins og daggjaldastofnanir.

     5. Hve mikil upphæð er nú í vanskilum og vegna hve margra sjúklinga?
    Fyrir árið 1990 eru liðlega 3 m.kr. í vanskilum. Ein stofnun hefur ekkert greitt af því sem henni bar að innheimta og önnur skuldar hluta innheimtu. Ákveðið hefur verið að við desembergreiðslu sjúkratrygginga verði þessi skuld dregin frá greiðslu sjúkratrygginga til stofnananna líkt og reglugerðin gerir ráð fyrir. Engar upplýsingar liggja enn fyrir um vanskil á árinu 1991.