Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


238. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



     Þar sem fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1992 er nú tekið til 2. umr. undir mjög óvenjulegum kringumstæðum vill minni hluti fjárlaganefndar láta eftirfarandi koma fram varðandi undirbúningsvinnu fjárlaganefndar við frumvarpið:
     Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti 2. umr. fjárlaga að fara fram 3. desember, enda á 3. umr. samkvæmt lögum að fara fram eigi síðar en 15. desember ár hvert. Þrátt fyrir þetta fer 2. umr. ekki fram nú fyrr en 11. desember við kringumstæður sem minni hluti fjárlaganefndar gerir alvarlegar athugasemdir við.
     Undirbúningsvinna að afgreiðslu fjárlaga hófst í september síðastliðnum og þegar í upphafi þings var ljóst að róttækar breytingar þyrfti að gera á frumvarpinu þar sem forsendur þess gátu engan veginn staðist. Þetta var rækilega undirstrikað af fulltrúum minni hlutans í fjárlaganefnd við 1. umr. fjárlaga.
     Viðtöl í fjárlaganefnd við fulltrúa sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana voru með hefðbundnum hætti, en eftir að frekari úrvinnsla hófst var samráði við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni í ýmsu ábótavant.
     Minni hlutinn hefur gagnrýnt þessi vinnubrögð, en telur þó ekki að öllu leyti við meiri hluta nefndarinnar að sakast, heldur öllu fremur við ríkisstjórnina og vinnubrögð hennar.
     Þó tók fyrst steininn úr þegar ríkisstjórnin tilkynnti uppskurð bæði á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins daginn áður en 2. umr. átti að fara fram. Það hefur vissulega komið fyrir áður að ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa lagt til breytingar á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins með stuttum fyrirvara. Slíkar tillögur hafa þó hingað til snert einstaka og afmarkaða þætti fjárlagafrumvarpsins. Sá uppskurður, sem hér um ræðir, svo seint framkominn, er eins dæmi. Hér er um mjög víðtækar aðgerðir að ræða og skal hér aðeins drepið á nokkur atriði:
     Ætlunin er að lækka launaliði um 6,7% og rekstrarliði frumvarpsins um 1,3%, og nemur lækkunin samtals um 2.455 milljónum króna. Til móts við þennan niðurskurð er varið til yfirstjórnar ráðuneytanna 955 milljónum króna til þess að greiða fyrir framkvæmd niðurskurðarins. Alla nánari útfærslu á þessum áformum vantar, en ljóst er að með þessu er ráðstöfunarfé ráðuneyta aukið og fjárveitingavaldið tekið af Alþingi sem því nemur.
     Um 700 milljónum króna er velt yfir á sveitarfélögin auk þess sem áður var komið fram í frumvarpinu og er m.a. ætlunin að þau standi undir 400 milljóna króna útgjöldum til málefna fatlaðra. Þetta er breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem ekkert samráð hefur verið haft um við sveitarfélögin. Einnig er gert ráð fyrir að landsútsvar, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins greiðir og nemur um 300 milljónum króna, renni í ríkissjóð. Í stað þess hluta landsútsvarsins, sem átti að renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, eiga sveitarfélögin að leggja fram sem nemur 0,1% af útsvarstekjum sínum. Þetta er bein tekjuskerðing hjá sveitarfélögum og rýrir möguleika þeirra til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð.
     Auk þeirrar miklu kjaraskerðingar sem áætlaður niðurskurður á launalið getur haft í för með sér og þeirrar almennu launastefnu sem boðuð er í frumvarpinu gera nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar ráð fyrir breytingu á greiðslum barnabóta. Hún á að gefa ríkissjóði 500 milljóna króna sparnað. Til viðbótar er sérstaklega vegið að tveimur atvinnustéttum í landinu. Gert er ráð fyrir að fresta beinum greiðslum til bænda tvo síðustu mánuði ársins 1992 og velta þeim yfir á árið 1993. Upplýst er að forustumönnum Stéttarsambands bænda var tilkynnt um þessa ákvörðun, en ekkert samráð haft við þá að öðru leyti. Þá er ætlunin að „skerpa reglur“ um sjómannafrádrátt og miða hann við úthaldsdaga. Hér er um skerðingu á réttindum að ræða sem sjómenn hafa náð í kjarasamningum. Viðbrögð þeirra hafa verið mjög hörð, enda ekkert samráð við þá haft.
     Þá er áætlað að framkvæmdum við hluta Vestfjarðaganga verði frestað. Sú aðgerð á að spara ríkissjóði 250 milljónir króna. Með frestuninni er rift samningsbundnu verki sem leiða mun til fjárútláta fyrir ríkissjóð.
     Hér er aðeins drepið á stærstu breytingarnar sem tillögur þær, sem ríkisstjórnin kynnti fjárlaganefnd 9. desember, fela í sér.
     Beiðni minni hluta nefndarinnar um að fá fulltrúa þeirra aðila, sem þessi mál varða, til viðtals við nefndina var hafnað, en þó munu þau atriði, sem varða tekjuhlið, svo og nokkrir aðrir þættir, verða rædd milli 2. og 3. umr. frumvarpsins.
     Af þessu má ljóst vera að minni hluti fjárlaganefndar hefur enga aðstöðu haft til þess að fá heildarsýn yfir fjárlagagerðina eða gera sér grein fyrir áhrifum breytinga, hvorki á tekju- né gjaldahlið. Því telur minni hlutinn þessa umræðu í raun ótímabæra og mun af þessum ástæðum ekki standa að breytingartillögum meiri hlutans, né flytja breytingartillögur við frumvarpið við 2. umr. Hins vegar mun minni hlutinn gefa út framhaldsnefndarálit fyrir 3. umr. og áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur við lokaumræðu málsins.
     Í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að framan mun minni hluti fjárlaganefndar sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins við 2. umr.
    Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins í nefndinni.

Alþingi, 11. des. 1991.



Guðmundur Bjarnason,

Margrét Frímannsdóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


frsm.



Jón Kristjánsson.