Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 30 . mál.


380. Framhaldsnefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar gat ekki mælt með afgreiðslu frumvarps til lánsfjárlaga í desember sl. eins og fram kemur í nefndaráliti hans. Þótt afgreiðsla fjárlaga hafi nú farið fram er enn veruleg óvissa um tekju- og gjaldahlið fjárlaga fyrir árið 1992. Minni hlutinn gerði grein fyrir afstöðu sinni að því er varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í sérstöku nefndaráliti, þskj. 226. Ríkisstjórnin er enn að fjalla um ýmsa þætti í útgjaldahlið fjárlaga og því ríkir veruleg óvissa um niðurstöðu fjárlaga ársins 1992.
    Fyrirætlanir um niðurskurð byggjast að verulegu leyti á flötum niðurskurði sem almennt hefur tekist illa. Önnur atriði hafa valdið miklum deilum á Alþingi og við þá þjóðfélagshópa sem verða fyrir samdrætti í útgjöldum.
    Samkvæmt þeim samtölum, sem nefndin hefur átt við ýmsa aðila í þjóðfélaginu, hefur komið fram að frumvarp til lánsfjárlaga skapar ekki forsendur til almennra vaxtalækkana. Aðilar vinnumarkaðarins eru þeirrar skoðunar að veruleg vaxtalækkun sé bæði forsenda skynsamlegra kjarasamninga og meira atvinnuöryggis launþega. Það er almennt mat að ekkert fyrirtæki í landinu þoli þá háu vexti sem nú eru á fjármagnsmarkaði. Af þessum sökum heldur atvinnureksturinn að sér höndum og því ríkir almenn kyrrstaða í þjóðfélaginu. Mikill fjármagnskostnaður hefur einnig fjölgað gjaldþrotum en lítið kemur í stað þeirra fyrirtækja sem hætta rekstri af þeim sökum. Í samtölum við fulltrúa viðskiptabankanna hefur komið fram að þeir telja sig ekki geta staðið fyrir raunvaxtalækkun; eini aðilinn, sem gæti beitt sér fyrir því, sé ríkissjóður. Í yfirlýsingum fjármálaráðherra að undanförnu kemur fram að ekkert slíkt stendur til. Aðilar vinnumarkaðarins telja að helsta leiðin til að lækka vexti sé að ríkissjóður ákveði raunvaxtalækkun á spariskírteinum og húsbréfum; skuldabréf verði ekki seld af hálfu ríkisins nema lægri vextir fáist.
    Frumvarp til lánsfjárlaga skapar enga kjölfestu í þessum efnum. Ríkisstjórnin hefur með sundurlausum yfirlýsingum valdið slíkri óvissu á fjármálamarkaði og vinnumarkaði að af því stafar mikil hætta. Fulltrúar verkalýðsfélaganna eru staðráðnir í því að knýja á um breytingar á ýmsum ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Ekkert samráð hefur verið haft við fulltrúa vinnumarkaðarins um þessar breytingar. Allri samvinnu hefur verið hafnað og með því verið kvatt til átaka. Við þessar aðstæður er ekki skynsamlegt að Alþingi ljúki umfjöllun um frumvarp til lánsfjárlaga. Það er eðlilegt að bíða með afgreiðslu frumvarpsins þar til línur hafa skýrst á vinnumarkaðinum. Viðskiptabankarnir munu ekki breyta sínum vöxtum fyrr en meiri vissa ríkir um hvað gerist á vinnumarkaði og áform ríkisstjórnarinnar í lækkun á raunvöxtum. Auk þess er engin niðurstaða komin um afgreiðslu frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Margt af því sem þar kemur fram er óvissu háð og sumt óframkvæmanlegt.
    Minni hluti nefndarinnar hefur því ekki breytt um skoðun frá því að nefndarálitið var samið 9. desember 1991 og vísar allri ábyrgð á afgreiðslu málsins frá sér og mun ekki greiða því atkvæði.
    Minni hlutinn mun gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við umræðu um málið.

Alþingi, 10. jan. 1992.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.