Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 231 . mál.


408. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ólafs Þ. Þórðarsonar um Marshall-aðstoðina.

     Hvaða skuldbindingar tóku Íslendingar á sig vegna Marshall-aðstoðarinnar?
    Þær skuldbindingar voru mjög óverulegar. Þó fylgdu aðstoðinni almenn skilyrði sem allir, er aðstoðar nutu, þurftu að uppfylla. Marshall-aðstoðin var kennd við George C. Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hún var veitt til viðreisnar og eflingar atvinnulífi Evrópulanda eftir síðari heimsstyrjöldina. Aðalskilyrðið, sem Bandaríkin settu fyrir aðstoðinni, var að Evrópuríkin tækju upp með sér samvinnu um viðreisn efnahagslífsins og notkun Marshall-aðstoðarinnar. Löndin, sem tóku boði Bandaríkjanna um aðstoð, mynduðu með sér samtök, Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (The Organization for European Economic Cooperation) OEEC, með aðsetri í París. Ísland gerðist aðili að þessum samtökum og uppfyllti þar með aðalskilyrði Bandaríkjanna fyrir aðstoð. Stofnskrá OEEC var undirrituð í París 16. apríl 1948. Í 1. gr. stofnskrárinnar er tilgangi samtakanna lýst svo:
    „Samningsaðilar eru samþykkir því að hafa með sér nána samvinnu í efnahagsmálum. Þeir munu þegar í stað beita sér fyrir því að semja sameiginlega viðreisnaráætlun og framkvæma hana. Markmið áætlunar þessarar mun verða að ná sem fyrst og viðhalda fullnægjandi efnahagsafköstum án óvenjulegrar utanaðkomandi aðstoðar og mun því í áætluninni sérstaklega tekið tillit til þess að samningsaðilarnir þurfa að auka sem mest útflutning til þeirra ríkja sem ekki taka þátt í henni.“
    Í samræmi við stofnskrá OEEC samdi Ísland framkvæmdaáætlun til fjögurra ára. Í henni var gert ráð fyrir kaupum á togurum, byggingu hraðfrystihúsa og fiskimjölsverksmiðja, byggingu áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og tveggja virkjana, Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar, svo það helsta sé nefnt.

     Hve há upphæð í dollurum kom í Mótvirðissjóðinn og hve há var sú tala í íslenskum krónum?
    Efnahagsaðstoð Bandaríkjanna var þrenns konar: Óafturkræf framlög, lán og skilorðsbundin framlög.
    Á tímabilinu frá 1948 til maí 1953, þegar efnahagsaðstoðinni lauk, létu Bandaríkjamenn Íslendingum í té samtals 38.650.000 dollara en reiknað á núgildandi gengi eru það 2.234,4 millj. kr.
    Þessi upphæð skiptist þannig:

          Dollarar



Óafturkræf framlög     
29.850.000

Lán               
5.300.000

Skilorðsbundin framlög     
3.500.000

Samtals     
38.650.000


    Notkun óafturkræfra framlaga eða gjafa var í stuttu máli með þessum hætti:
    Að beiðni íslensku ríkisstjórnarinnar gáfu Bandaríkjamenn út innkaupaheimildir fyrir þeim vörum og verðmæti sem óskað var eftir að kaupa frá Bandaríkjunum og öðrum dollaralöndum. Samkvæmt þessum innkaupaheimildum fengu innflytjendur pöntunarheimildir hjá viðskiptaráðuneytinu, nokkurs konar ávísanir á Marshall-dollara, sem bandarískir bankar innheimtu gegn afhendingu tilskilinna sönnunargagna fyrir afgreiðslu vörunnar til Íslands. Landsbankinn og Útvegsbankinn seldu innflytjendum sem höfðu pöntunarheimild dollara á venjulegan hátt en jafnvirði þeirra, að frádregnum 5% og síðar 10%, var síðan greitt inn á sérstakan reikning hjá Landsbankanum, hinn svokallaða Mótvirðissjóð.
    Alls voru greiddar inn í Mótvirðissjóð 433,7 millj. kr. eða 26.575.000 dollarar á þágildandi gengi. Á núgildandi gengi er hér um að ræða 1.536,3 millj. kr.

     Hvernig var fjármunum Mótvirðissjóðs ráðstafað?
    Fyrst og fremst var þeim fjármunum varið til þriggja stórframkvæmda: Til Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar.
    Alþingi heimilaði lánveitingu af mótvirðisfé til þessara þriggja stórframkvæmda. Var Framkvæmdabanki Íslands stofnaður árið 1953 til að sjá um þessar lánveitingar. Fé Mótvirðissjóðs skiptist sem hér segir:

         Millj. kr.



Sogsvirkjun     
117
,0
Laxárvirkjun     
43
,0
Áburðarverksmiðjan     
76
,0
Framkvæmdabanki — til útlána     
7
,0
Framkvæmdabanki — innstæða     
128
,7
Landsbanki Íslands — innstæða     
62
,0


     Hver urðu örlög sjóðsins?
    Örlög Mótvirðissjóðs urðu þau að Framkvæmdabankinn tók við fjármunum hans. Bankinn fékk sem stofnfé þau skuldabréf sem höfðu verið gefin út vegna lána til stórframkvæmdanna.