Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 292 . mál.


497. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á gerð jarðganga á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.

Flm.: Hrafnkell A. Jónsson, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta fara fram könnun á hagkvæmni þess að gerð verði jarðgöng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Við það verði miðað að jarðgöngin verði þáttur í gerð hringvegarins.

Greinargerð.


    Uppbygging vegakerfis landsins er sú byggðastefna sem líklegust er til að skila árangri. Á síðustu mánuðum hefur ríkisvaldið lagt nýjar áherslur í byggðamálum. Í því samhengi er mjög nauðsynlegt að ekki sé eingöngu bent á það sem miður hefur farið heldur sé jafnframt bent á nýjar leiðir til þess að treysta byggð. Flutningur þingsályktunartillögunnar miðar að því að fundin verði hagkvæm lausn við uppbyggingu hringvegarins, lausn sem jafnframt gæti treyst byggð á Mið-Austurlandi.
    Áætlað er að með gerð jarðganga megi stytta vegalengd á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um u.þ.b. 32 km þannig að eftir styttinguna yrði hún um 20 km. Þessi leið er nú 52 km.
    Við þessa framkvæmd mundu skapast gjörbreytt búsetuskilyrði á þessu svæði. Jarðgöng mundu tengja í eitt atvinnu- og þjónustusvæði sex sveitarfélög sem höfðu 1. desember 1991 3.323 íbúa:
         Eskifjörður     
1.038

         Reyðarfjörður     
746

         Búðahreppur     
757

         Fáskrúðsfjarðarhreppur     
92

         Stöðvarhreppur     
340

         Breiðdalshreppur     
350

    Öll samvinna sveitarfélaga á þessu svæði mundi taka miklum stakkaskiptum og þjónusta ríkisins á öllum sviðum hefði möguleika á að verða betri og ódýrari.
    Þegar rætt er um uppbyggingu hringvegarins á þessu svæði hefur lengst af verið rætt um tvær leiðir: annars vegar lagningu vegarins með ströndinni fyrir ystu nes og inn í fjarðarbotna. Þessi leið hefur þá annmarka að vera verulega lengri en jarðgangaleiðin og skapar ekki þá möguleika sem stytting leiðarinnar gerir. Hin leiðin, sem helst er rætt um, er uppbygging vegar yfir Breiðdalsheiði. Þar er á sá annmarki helstur að það þarf að leggja veginn yfir fjallveg, auk þess sem byggðirnar norðan Breiðdals verða afskiptar.
    Á síðustu vikum hefur verið rætt nokkuð um þriðju leiðina sem er lagning vegar upp úr Berufirði og yfir Öxi. Hér er vissulega um að ræða umtalsverða styttingu hringvegarins sem hins vegar mundi nýtast illa fyrir þá sem búa norðan Berufjarðar, auk þess sem um fjallveg er að fara.
    Hér ber allt að sama brunni. Það verður að taka gerð jarðganga á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar inn í myndina þegar línurnar verða lagðar um uppbyggingu hringvegarins. Það fellur að þeim hugmyndum sem eru uppi um skynsamlega byggðastefnu.