Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 410 . mál.


663. Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning löggjafar um réttindi og skyldur manna sem stunda reikningsskil.

Flm.: Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd er semji drög að frumvarpi til laga um réttindi og skyldur manna sem stunda reikningsskil en eru ekki löggiltir endurskoðendur, svo og að leggja drög að þeim kröfum um menntun og próf sem gera ber til þeirra er hyggjast afla sér slíkra réttinda.

Greinargerð.


    Mikils er um vert fyrir atvinnulíf og stjórnvöld að reikningsskil séu áreiðanleg og að samræmi sé í vinnubrögðum við mat þeirra fjárhagsstærða sem meta þarf, svo og í framsetningu. Mikilvægi þessa er jafnt hvort heldur um ræðir reikningsskil stórra fyrirtækja, almenningshlutafélaga, smærri fyrirtækja, fjölskylduhlutafélags eða annarra rekstrarforma sem hafa umsvif í meðallagi eða meira, og jafnt er mikilvægið hvar á landinu sem umsvifin eru og í hvaða atvinnuvegi sem fyrirtækið hefur haslað sér völl.
    Notendur reikningsskila eru margir, en meðal þeirra má nefna:
    Skattyfirvöld, ríkisbanka, Ríkisábyrgðasjóð, hlutafélagabanka, sparisjóði, fjárfestingarlánasjóði og stofnanir ríkisins, verðbréfasjóði og fjármagnsfyrirtæki, lífeyrissjóði, hluthafa og aðra eigendur fyrirtækjanna og starfsmenn þeirra, sparifjáreigendur, hagrannsókna- og hagstjórnarstofnanir og önnur stjórnvöld og samningsaðila á vinnumarkaði.
    Af þessu má sjá að notendur reikningsskila eru fjölmargir og að notkun þeirra er margvísleg og er þó upptalningin hvergi nærri tæmandi. Til að mynda mundi einhver vilja bæta hér við löggjafarvaldinu sjálfu.
    Stjórnvöld, sem fara með skattheimtu, hafa á eigin höndum bankastarfsemi, starfrækja sjálf lánaumsýslu með ábyrgðum og endurlánum, reka eigin fjárfestingarlánasjóði og stofnanir og fara síðast en ekki síst með stjórn efnahagsmála og ráða hagstjórnartækjum og byggja þá á hagrannsóknum — stjórnvöld hafa ríka þörf fyrir áreiðanleg reikningsskil, ekki aðeins ársskýrslur heldur og skattskil.
    Stofnanir og samtök atvinnulífsins hafa mikla þörf fyrir áreiðanleg reikningsskil til að geta metið afkomu hverrar greinar og atvinnulífsins alls og tekið á aðsteðjandi viðfangsefnum og búið í haginn.
    Frjálsar lánastofnanir, einka- eða hlutafélagabankar og sparisjóðir, frjálsir fjárfestingarlánasjóðir, verðbréfasjóðir og fjármagnsfyrirtæki, áhættusjóðir og hlutabréfasjóðir, allir þessir aðilar, sem starfa í samkeppni ólíkra sparnaðarforma, hafa brýna þörf fyrir áreiðanleg reikningsskil. Má jafnvel halda því fram með nokkrum rétti að þörf þessara fyrirtækja sé brýnust og er því gerð nokkur grein hér á eftir fyrir ástæðum þess.
    Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á fjármálalegu umhverfi fyrirtækja. Á fáum árum hefur fjármagnsmarkaður tekið stökkbreytingum í átt til frjálsræðis og aukinnar samkeppni þar sem lítil var fyrir. Aukið framboð ávöxtunarmöguleika og sparnaðarforma, almenn umræða um fjármagn, ávöxtun og viðskipti verðbréfafyrirtækja og annarra aðila á fjármagnsmarkaði og að lokum vaxandi áhugi sparifjáreigenda og þessara fyrirtækja á ávöxtun í hlutabréfum og á þátttöku í sjóðum, sem leggja áhættufé í atvinnustarfsemi, eru allt nýmæli nokkurra síðustu ára í efnahagsstarfsemi og umræðu um efnahagsmál, hagstjórnartæki og hagkerfi okkar. Á fáum árum hafa stjórnvöld og almenningur kynnst því af eigin raun að frjáls starfsemi banka og annarra fjármálafyrirtækja hefur hvetjandi áhrif á fjármálamarkaðinn og leggur þannig tvímælalaust fram jákvæðan skerf í atvinnulífi og efnahagsstarfsemi landsmanna. Aukin fjölbreytni sparnaðarforma og frelsi til samkeppni um fjármagn og ávöxtun hefur hins vegar í för með sér aukna áhættu og að fleiri en áður taka þá áhættu.
    Af þessum ástæðum er ljóst að sparifjáreigendur og aðrir fjármögnunaraðilar, verðbréfafyrirtæki og áhættusjóðir hafa mjög vaxandi þörf fyrir áreiðanleg reikningsskil, ekki aðeins fyrir stórfyrirtæki og almenningshlutafélög, heldur enn fremur fyrir öll almenn fyrirtæki, venjuleg að stærð og umsvifum, venjuleg að rekstrarformi, þ.e. fjölskyldufyrirtæki eða hlutafélög fárra hluthafa, fyrirtæki með staðbundna starfsemi og á heimamarkaði eingöngu.
    Fram til þessa hafa eingöngu löggiltir endurskoðendur haft stöðu sem réttbærir aðilar til að annast endurskoðun og gerð ársreikninga, reikningsskil og skattskil.
    Um áratugi hafa þó menn, er ekki eru löggiltir endurskoðendur, veitt fyrirtækjum slíka þjónustu og nú eru starfræktar fjölmargar bókhaldsstofur á vegum slíkra einstaklinga víðs vegar um landið. Þjónusta þeirra nær til fyrirtækja í öllum atvinnuvegum landsmanna, að líkindum til flestra eða allra atvinnugreina í atvinnugreinaskrá Hagstofu Íslands, til fyrirtækja í öllum skattumdæmum og landsfjórðungum og til hinna smæstu, meðalstórra og jafnvel til allstórra fyrirtækja. Þjónusta þessara stofa nær í mörgum tilvikum til fleiri þátta reikningshalds en reikningsskilanna sjálfra og sumar stofurnar annast raunar allt bókhald einhverra viðskiptavina sinna.
    Forstöðumenn þessara stofa eru yfirleitt vel fróðir um bókhald og reikningsskil. Flestir þeirra hafa stundað nám og lokið prófi frá skólum sem veita góða kennslu og prófun í bókhaldi, svo sem Verslunarskóla Íslands eða Samvinnuskólanum að Bifröst, og margir hafa stundað nám og lokið prófi frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þeir hafa að jafnaði mikla reynslu af störfum við bókhald en hafa flestir sérhæft sig í fjárhagsmálum og reikningsskilum smærri fyrirtækja og hlutafélaga fremur en hinna stærri eða almenningshlutafélaga.
    Fyrir fáum árum var stofnað félag þessara aðila, Félag bókhalds- og fjárhagsráðgjafa. Innan þess hafa hafist umræður um réttindamál og það hefur fengið Stefán Svavarsson, löggiltan endurskoðanda og lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, til að semja greinargerð þar um á þess vegum. Hann hefur lagt drög að öflun gagna um löggjöf grannþjóða okkar um þetta efni, en ekki fengið og er því greinargerð ekki fyrir hendi. Eins hefur flutningsmaður lagt drög að sams konar gagnaöflun með tilstuðlan þingmálaskrifstofu Alþingis, en ekki heldur fengið. Starf Stefán Svavarssonar og félagsins hefur þó dregið fram upplýsingar um þessi mál meðal nokkurra af grannþjóðum okkar sem hér á eftir er gerð grein fyrir án þess að fylgi gögn um löggjöf þeirra.
—    Í Danmörku hefur nú um árabil verið gerður greinarmunur á tveimur stigum endurskoðenda í löggjöf: ríkisskráðum endurskoðendum (löggiltum endurskoðendum) og skráðum endurskoðendum. Sérstök ákvæði gilda um réttindi, skyldur og kröfur um kunnáttu hvorrar stéttar eða stigs um sig.
—    Í Bandaríkjum Norður-Ameríku geta menn numið og aflað sér réttinda sem skráðir opinberir reikningshaldarar (CPA) (löggiltir endurskoðendur) og á síðari árum hafa komið fram ákvæði og menntunarbrautir með réttindum fyrir lægra stig, en þar hafa enn fremur nýlega komið fram ákvæði og námsbrautir með réttindum fyrir menn er hyggjast taka að sér yfirumsjón með bókhaldi sem unnið er á skrifstofum fyrirtækjanna sjálfra (aðalbókarar). Það er talið að þessi lagasetning hafi breiðst út til Kanada og til Evrópu.
—    Í Noregi eru til löggiltir endurskoðendur og lægra stig endurskoðenda og ákvæði eru um réttindi, skyldur og menntunarkröfur beggja. Stefán Svavarsson hefur óskað upplýsinga um lög þau er eiga við um hið lægra stig, en þær hafa ekki borist honum enn sem komið er.
    Félag bókhalds- og fjárhagsráðgjafa hefur einnig rætt málið við embættismenn skattyfirvalda og hafa þeir tekið því vel og gefið í skyn að þeir telji að skilgreining á réttindum, skyldum og kunnáttukröfum slíkra manna hérlendis muni verða verulegur ávinningur í starfi skattyfirvalda hérlendis.
    Að svo komnu gera stjórnarmenn í Félagi bókhalds- og fjárhagsráðgjafa sér þá hugmynd að unnt muni að semja drög að frumvarpi til laga um réttindi þeirra, skyldur og menntunarkröfur, líkt og orðið hefur um þessi ákvæði varðandi löggilta endurskoðendur, löggilta fasteignasala og löggilta verðbréfasala, og að til álita geti komið heitið „skráðir endurskoðendur“. Það megi skilgreina á þann veg að þeir sem gangast undir tilskilda menntun og prófun fái réttindi til að annast og endurskoða bókhald og reikningsskil fyrir öll fyrirtæki upp að tiltekinni stærð, eftir einhverjum mælikvörðum, og öll rekstrarform upp að almenningshlutafélögum, eða almenningshlutafélög upp að tiltekinni stærð, eftir einhverjum mælikvarða.