Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 427 . mál.


685. Tillaga til þingsályktunar



um sveigjanlegan vinnutíma.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga um sveigjanlegan vinnutíma. Í frumvarpinu verði gengið út frá sveigjanlegum vinnutíma sem meginreglu á vinnumarkaði þar sem því verður við komið. Frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en á haustþingi 1993.

Greinargerð.


    Kostir og gallar sveigjanlegs vinnutíma hafa ekki fengið mikla umfjöllun. Leiða má rök að því að það sé bæði launþegum og vinnuveitendum í hag að skipulag vinnutíma komi sem best til móts við þarfir beggja.
    Með sveigjanlegum vinnutíma er átt við að vinnutími byggist á samkomulagi starfsmanns og vinnuveitanda. Atvinnurekandi og starfsmaður geri samning um vinnutíma eftir þörfum starfsmannsins innan þess ramma sem fyrirtæki vinnuveitanda eða stofnanir hafa svigrúm til. Mikilvægt er að starfsmaður verði ekki þvingaður til að vinna á óeðlilegum vinnutíma í skjóli ákvæða um sveigjanlegan vinnutíma.
    Á einstaka vinnustað hefur verið boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma og hafa þær tilraunir þótt gefast vel. Kostir sveigjanlegs vinnutíma eru einkum þessir: Starfsmaður vinnur á þeim tíma sem hentar honum best vegna fjölskylduaðstæðna og annars sem hann telur mikilvægt. Það leiðir yfirleitt til þess að starfsmaður er ánægðari í vinnu. Það dregur að líkindum úr fjarvistum og einnig hafa verið leiddar líkur að því að heilsufar sé betra hjá þeim sem ráða vinnutíma sínum.
    Helstu vandkvæði við að lögbinda sveigjanlegan vinnutíma er sennilega smæð margra íslenskra fyrirtækja, einkum þeirra sem hafa fastan opnunartíma. Við samningu frumvarpsins yrði að leita lausna á því máli sem tryggði hagsmuni launþega og vinnuveitenda.
    Í ritinu „Streita, vinna og heilsa í velferðarþjóðfélagi“, eftir Ólaf Ólafsson landlækni segir m.a.:
    „Streita er flókið vandamál og á engan hátt fullrannsakað fyrirbæri. Úr niðurstöðum ýmissa erlendra rannsókna má lesa að eðli vinnu skiptir oft meira máli en atvinnugrein. Hröð og tilbreytingarlaus vinna, samfara lítilli stjórn starfsmanna á vinnutilhögun er meiri streituvaldur en vinna sem gefur starfsmönnum nokkurt sjálfstæði.
    Þessu virðist öðruvísi farið hér á landi þar sem atvinnurekendur og háskólamenntaðir virðast þjást mest allra stétta af streitu þó að þeir ráði að öllu jöfnu meira um vinnutilhögun en aðrir. Skýringin á þessu fyrirbæri gæti m.a. verið miklar kröfur sem gerðar eru til viðkomandi innan og utan fyrirtækis. Þegar nálgast 50 ára aldurinn virðast menn komnir á lygnan sjó.“ (Ólafur Ólafsson: Streita, vinna og heilsa í velferðarþjóðfélagi. Heilbrigðisskýrslur, fylgirit 4, 1989. Landlæknisembættið 1989.)
    Samkvæmt þessum upplýsingum er álagið mest á yngsta fólkið sem er oft með börn og að koma yfir sig þaki. Þessum hópi væri mestur akkur í sveigjanlegum vinnutíma og auk þess þyrfti að koma til stytting vinnutíma.
    Langur vinnudagur er hlutskipti flestra Íslendinga. Jafnframt er ýmis félagsleg þjónusta, svo og barnagæsla og umönnun aldraðra í heimahúsum, af skornum skammti. Skóladagur grunnskólabarna er stuttur og sundurslitinn. Samverustundir fjölskyldunnar eru af skornum skammti í þeirri vinnuánauð sem barnafjölskyldur búa oftast við. Það er hlutskipti flestra fjölskyldna að þurfa að festa kaup á húsnæði á fyrstu búskaparárunum þar sem leigumarkaður er takmarkaður og mjög ótryggur.
    Því fer fjarri að foreldrar séu sáttir við þetta. Í könnun um hagi foreldra forskólabarna segir t.d.:
    „Tvennir af hverjum þrennum foreldrum forskólabarna telja að stjórnvöld styðji frekar illa eða mjög illa við bakið á foreldrum með forskólabörn. Innan við einir af hverjum fimmtán telja að stjórnvöld styðji vel við bakið á foreldrum með forskólabörn . . .
    Foreldrar með forskólabörn virðast almennt óánægðir með hvernig stjórnvöld taka á þeim málaflokkum sem mest brenna á þeim. Hvað veldur skal ósagt látið. Margt bendir til að kjör, dagvistunarmál og húsnæðismál vegi þungt í þessu sambandi.“ (Baldur Kristjánsson: Dagvistun barna á forskólaaldri og lífskjör foreldra. Háskóli Íslands — Félagsvísindastofnun, október 1989.)
    Úr þessu ástandi verður að bæta. Efla þarf leikskóla, koma á samfelldum, lengdum skóladegi nú þegar og bjóða upp á meiri þjónustu fyrir aldraða í heimahúsum en jafnframt þarf að huga að því að gefa sem flestum kost á að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar er þeir skipuleggja vinnutíma sinn. Fjarvistir foreldra frá börnum eru meiri en góðu hófi gegnir og það getur haft alvarleg vandamál í för með sér í framtíðinni ef foreldrum verður ekki gert kleift að taka meira tillit til fjölskyldna sinna en nú er gert.
    Nokkuð algengt er að fólk reyni að laga vinnutíma sinn að fjölskyldunni en svigrúm til þess er mjög lítið miðað við núverandi aðstæður. Oftast eru það konur sem þurfa að vinna sundurslitinn vinnudag vegna fjölskylduaðstæðna. Nokkuð algengt er að konur þurfi að taka á sig aukavinnu um kvöld og helgar til að geta jafnframt sinnt ungum og öldnum í fjölskyldunni. Það er hins vegar fátíðara að karlmenn reyni að laga vinnutíma sinn að þörfum fjölskyldunnar. Oft er skilningur vinnuveitenda lítill á því að karlmenn þurfi að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar er þeir skipuleggja vinnutíma sinn. Karlmenn virðast heldur ekki hafa þrýst á að úr því verði bætt.
    Rétt er að geta þess að í umræðu á Alþingi 20. febrúar 1992 kom fram að unnið er að því að Íslendingar staðfesti samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu — starfsfólk með fjölskylduábyrgð — frá árinu 1981. (Alþingistíðindi, 15. hefti 1991–92.)
    Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á vinnutíma Íslendinga. Í þessum könnunum hefur fyrst og fremst verið spurt um afstöðu fólks til lengdar vinnutíma en sjaldan um sveigjanlegan vinnutíma. Á þessu eru þó til undantekningar. Í jafnréttiskönnun Bandalags háskólamanna frá því í desember 1989 eru könnuð viðhorf til sveigjanlegs vinnutíma. Flestir (62,4% karla og 63,6% kvenna) telja vinnutíma sinn of langan fyrir fólk með börn og fjölskyldu. En það er þó athyglisvert að sjá hve margir, einkum konur, telja að sveigjanlegur vinnutími vegi einnig þungt með tilliti til fjölskyldumála. 34,6% kvenna og 25,5% karla segjast sammála eða frekar sammála fullyrðingunni. „Það er frekar ósveigjanlegur vinnutími heldur en langur vinnudagur í sjálfu sér sem skapar óþægindi við að samræma fjölskyldu og heimilislíf.“ Rétt er að geta þess að fólki gafst ekki kostur á að svara því hvort langur vinnudagur og ósveigjanlegur vinnudagur bitnuðu jafnt á fjölskyldulífi. (Jafnréttiskönnun Bandalags háskólamanna, desember 1989.)
    Væri sveigjanlegur vinnutími lögleiddur á Íslandi mundi það geta stuðlað að því að jafna foreldraábyrgð. Almennt er skilningur sýndur á því að mæður þurfi að laga vinnutíma sinn að þörfum barna sinna en mjög skortir á að hið sama gildi um karla.     
    Sveigjanlegur vinnutími gæti jafnframt aukið vellíðan í starfi sem hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál launþega og atvinnurekenda.


Úr Lífskjör og lífshættir á Íslandi.


(Eftir Stefán Ólafsson, júní 1990.)





Repró




Úr jafnréttiskönnun Bandalags háskólamanna.


(Desember 1989.)





Repró