Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 395 . mál.


788. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund utanríkisráðherra, embættismenn utanríkisráðuneytisins og Sigríði Guðmundsdóttur frá Rauða krossi Íslands.
    Grundvöllur tillögunnar er sú staðreynd að vörum frá EFTA-ríkjum og EB-ríkjum er mismunað á tyrkneska markaðinum vörum frá EB-ríkjum í hag. Ástæða þessa er að viðskipti Tyrklands og EB-ríkja byggjast á fríverslunarsamningi sem gerður var árið 1963 og kom til framkvæmda árið 1973. Síðan þá hafa tollar stiglækkað á vörum sem fluttar eru milli Tyrklands og EB-ríkja. Frá og með ársbyrjun 1995 verða allar hindranir á viðskiptum Tyrklands og EB-ríkja, sem enn eru til staðar, afnumdar.
    Vegna þessa ástands voru að frumkvæði Austurríkis, Sviss og Svíþjóðar, sem mestra hagsmuna höfðu að gæta, hafnar viðræður um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.
    Með fríverslunarsamningi við Tyrkland fá EFTA-ríkin sömu meðferð og EB-ríkin á hinum tyrkneska markaði og frá og með 1995 verður einnig komið á tollfrelsi í vöruviðskiptum landanna að frátöldum viðskiptum með landbúnaðarvörur. Þannig hafa EFTA-ríki fengið þeim kröfum, sem lágu til grundvallar samningaviðræðunum, framgengt. Með samningnum er komið á fríverslunarsvæði og innan þess verður öllum hindrunum á viðskiptum með iðnaðarvarning, tilteknar vörur unnar úr landbúnaðarhráefnum og sjávarafurðir, smám saman rutt úr vegi. Þannig verður komið á fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir í viðskiptum við Tyrkland með sama hætti og innan EFTA. Fríverslun með fisk og fiskafurðir verður komið á í áföngum á fjórum árum að því er varðar niðurfellingu tolla í Tyrklandi, en það er sami aðlögunartími og gildir fyrir ýmsar iðnaðarvörur. Samningurinn við Tyrkland er nauðsynlegur til að koma í veg fyrir að íslenskum vörum verði mismunað gagnvart vörum annarra ríkja í Tyrklandi.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 13. apríl 1992.



Ey. Kon. Jónsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Árni R. Árnason.