Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 481 . mál.


799. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um sameiginlega fiskstofna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staða samninga við aðrar þjóðir um helstu sameiginlega fiskstofna okkar?

    Helstu fiskstofnar, sem sameiginlegir eru Íslandi og öðrum þjóðum, eru: úthafsrækja á Dohrnbanka, karfi (gullkarfi og djúpkarfi), grálúða, loðna, úthafskarfi, kolmunni og íslensk-norski síldarstofninn.
    Úthafsrækja, karfi og grálúða eru stofnar sem veiðast í lögsögu Grænlands og Íslands. Enn fremur er talið líklegt að karfi, sem veiðist við Færeyjar, sé úr sameiginlegum stofni. Á undanförnum árum hafa farið fram viðræður milli Íslands og Grænlands um nýtingu þessara sameiginlegu stofna án þess að þær hafi leitt til niðurstöðu. Hins vegar hefur fiskifræðingum landanna verið falið að auka rannsóknir á þessum stofnum en nauðsynlegt þykir að afla frekari vitneskju um útbreiðslu og stærð stofnanna því að henni er í ýmsu áfátt. Af Íslands hálfu er lögð á það áhersla að eiginlegar samningaviðræður um nýtingu þessara stofna hefjist hið fyrsta.
    Á árinu 1989 tókust samningar um nýtingu loðnustofnsins milli Íslands, Grænlands og Noregs. Í samningi þessum eru ákvæði um skiptingu heildaraflans milli þjóðanna auk ákvæða um gagnkvæmar veiðiheimildir og fleiri atriði. Samningur þessi gilti til þriggja vertíða og fellur úr gildi 1. maí 1992. Haldinn hefur verið einn samningafundur um gerð nýs samnings en ekki náðist samkomulag á þeim fundi. Noregur og Grænland hafa lýst yfir vilja til að framlengja samninginn án breytinga en Ísland hefur lagt til að takmarkaðar verði heimildir erlendra skipa til veiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Stefnt er að því að halda nýjan samningafund um loðnu á næstu vikum.
    Úthafskarfi og kolmunni veiðast í lögsögu Íslands og fleiri ríkja auk þess sem þessir stofnar veiðast á alþjóðlegu hafsvæði. Um nýtingu þessara stofna hefur nokkuð verið rætt innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) en engin ákvörðun tekin um nýtingu þeirra. Stofnar þessir hafa síðustu ár verið vannýttir og því hefur ekki verið knýjandi að skipta aflaheimildum eða takmarka veiðar úr þeim. Hefur Alþjóðahafrannsóknaráðinu verið falið að fylgjast með stærð stofnanna og útbreiðslu þeirra.
    Eftir hrun íslensk-norska síldarstofnsins hefur hann haldið sig innan norskrar fiskveiðilögsögu. Árgangurinn frá 1984 var mjög sterkur en síðan hafa allir árgangar verið lélegir og stofninn því ekki vaxið. Stækki stofninn hins vegar og taki upp fyrri göngur gæti hann orðið veiðanlegur í lögsögu ýmissa landa og að auki á alþjóðlegu hafsvæði. Norðmenn hafa stundað takmarkaðar veiðar úr þessum stofni og lýst yfir að þeir væru ekki tilbúnir til að ræða um nýtingu hans fyrr en stofninn hæfi göngur út fyrir norska fiskveiðilögsögu. Ef svo fer væri eðlilegt að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin fjallaði um nýtingu þessa stofns en ástand hans og nýting hefur nokkuð verið rædd á ársfundum nefndarinnar.
    Eftirtaldar fisktegundir veiðast bæði innan og utan fiskveiðilandhelgi Íslands: snarpi langhali, langhali, búrfiskur, blálanga og gulllax. Vitneskju um þessar tegundir er mjög ábótavant. Ekki er ljóst hvort um einn eða fleiri stofna er að ræða og því ekki hvort eða í hvaða mæli þeir eru sameiginlegir.
    Matsatriði er hvort telja beri þorskstofninn sameiginlegan með Íslandi og Grænlandi. Vitað er að þorskseiði geta borist með straumum til Grænlands, alist þar upp og komið síðan sem ungþorskar til hrygningar við Ísland. Þetta gerðist síðast í verulegum mæli varðandi 1984-árganginn. Hann óx við V-Grænland en gekk síðan suður fyrir Hvarf og veiddist bæði þar og við Grænland áður en hann gekk til hrygningar við Ísland, einkum árin 1990 og 1991. Líklegt er að sama gerist í minna mæli af og til og að sá þorskur blandist staðbundnum þorskstofni við Grænland. Af Íslands hálfu hefur ekki verið óskað viðræðna um samvinnu við Grænland varðandi nýtingu þorskstofnsins.