Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 58 . mál.


838. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar styður frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum og telur það bæði brýnt og tímabært. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið var aðdragandi að samningu þess samþykkt þingsályktunartillögu þingkvenna Kvennalistans um að setja á stofn nefnd er kannaði hvernig háttað væri rannsókn og meðferð nauðgunarmála og gerði tillögur um úrbætur í þeim efnum. Nefnd var skipuð 12. júlí 1984 og skilaði hún áliti í skýrsluformi í nóvember 1988. Það var gefið út á vegum dómsmálaráðuneytisins árið 1989. Meðal þess sem nefndin lagði til var að gerðar yrðu veigamiklar breytingar á gildandi hegningarlögum. Nefndin lagði fram tillögur um slíkar breytingar. Í þessu frumvarpi er farið að tillögum nefndarinnar að verulegu leyti að því er varðar þá kafla sem nefndin fjallaði um. Tekið er upp heitið: kynferðisbrot í stað orðsins „skírlífisbrot“. Ákvæði, sem áður voru bundin við annað kynið, ná nú til beggja kynja. Nýjar skilgreiningar eru á samræði í samræmi við tillögur nefndarinnar og „önnur kynferðismök“ samkvæmt skilgreiningu í 202. gr. hegningarlaga eru lögð að jöfnu við samræði. Einnig eru í frumvarpinu ákvæði um ýmiss konar aðra kynferðislega áreitni, svo sem káf, þukl o.fl.
    Í umfjöllun nefndarinnar voru gerðar á því allnokkrar efnisbreytingar og eru þær allar mjög til bóta. Í viðbót við breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar leggur minni hlutinn til nokkrar breytingar og er þær að finna á sérstöku þingskjali.
    Minni hlutinn fagnar því að horfið hefur verið frá því að milda refsingar og afnema refsilágmark fyrir alvarleg kynferðisbrot, svo sem nauðgun. Minni hlutinn fagnar einnig þeim breytingum sem gerðar eru á 9. gr. frumvarpsins þar sem viðurkennt er að kjörbörn, stjúpbörn, fósturbörn, sambúðarbörn og ungmenni í fóstri til kennslu og uppeldis njóta sömu réttarverndar gagnvart uppalendum sínum og börn sem alast upp hjá kynforeldrum. Sú réttarbót er einnig í breytingartillögunum að þeir sem eru í hjónabandi og óvígðri sambúð njóta einnig verndar skv. 4. gr. Í þeirri grein er það gert refsivert að notfæra sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manneskju til að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök. Minni hlutinn telur það mikilvæg mannréttindi allra að vera varðir fyrir slíkri misnotkun án tillits til þess hvort þeir eru í sambúð eða ekki. Einnig styður minni hlutinn það að bætt var inn í 6. gr. frumvarpsins ítarlegri ákvæðum um að refsivert sé að misnota aðstöðu sína gagnvart skjólstæðingi í trúnaðarsambandi. Bætt var inn í 4. gr. ákvæðum um að kynferðisleg áreitni sé gerð refsiverð. Styður minni hlutinn þá nýjung heils hugar og telur hana mjög til bóta.
    Minni hlutinn telur að allsherjarnefnd hafi unnið vel í málinu og tekið ábyrga afstöðu til flestra ábendinga um það sem betur mátti fara.
    Minni hlutinn styður þó ekki þær breytingartillögur sem lúta að orðalagi frumvarpsins, þ.e. að í stað orðsins „manneskja“ komi: maður og aðrar breytingar sem af því leiðir. Enda þótt orðið „maður“ sé oft notað bæði um karla og konur er rík hefð fyrir því í íslensku að orðið maður eigi aðeins við um karlmenn. Nægir þar að nefna þá málvenju að tala um „manninn hennar Jónu“ og dettur víst fáum í hug að sá maður heiti Guðrún. Einnig er rétt að benda á eina þekktustu skáldsögu á íslenskri tungu, en hún ber nafnið „Maður og kona“ og blandast engum hugur um hvers kyns sá maður er. Til eru ýmsar leiðir til að sneiða hjá slíkum misskilningi, t.d. að segja „karl og kona“ í stað orðsins „maður“ eða fara leið nefndarinnar, sem samdi frumvarpið sem hér um ræðir, að nota orðið „manneskja“ í stað orðsins „maður“.
    Minni hlutinn er fullkomlega sáttur við þá lausn og telur breytingarnar óþarfar og óheppilegar. Auk þess má benda á að meira jafnvægi mætti ríkja í íslensku málfari en nú er þar sem nánast öll stöðuheiti eru karlkennd svo og flest þau samheiti sem oftast eru notuð um bæði kynin. Ástæðulaust er að fúlsa við notkun hins kvenkennda orðs „manneskja“ þegar átt er við bæði kynin.
    Í efnislegum breytingartillögum, sem minni hlutinn flytur, er reynt að girða fyrir þann möguleika að hægt sé að refsa fórnarlambi kynferðislegs ofbeldis. Slíkt er að mati minni hlutans ótækt. Einnig er mælt með því í breytingartillögu að ákvæði um sifjaspell verndi einnig börn sem tengd eru brotamanni í hliðarlegg. Verður þá núverandi 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins óþörf.
    Fyrsti og annar liður breytingartillagnanna varða orðalag í breytingartillögum meiri hlutans. Notað sé orðið „manneskja“ eins og í öðrum greinum frumvarpsins en ekki orðið „maður“ eins og í breytingartillögum meiri hlutans.
    Þriðji liður breytingartillagnanna varðar 8. gr. frumvarpsins. Á eftir orðunum „annan niðja“ í 1. efnismgr. komi: systkini eða systkinabarn. Á eftir orðunum „öðrum niðja“ í 2. efnismgr. komi: systkini sínu eða systkinabarni.
    Þar með eru óþörf þau ákvæði frumvarpsins sem kveða á um að samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varði fangelsi allt að 4 árum og er því gerð tillaga um að 3. efnismgr. 8. gr. falli brott.
    Minni hlutinn telur að samkvæmt þessu ákvæði sé möguleiki á því að systkini, sem brotið er á, sé refsað ef ekki sannast að um misneytingu sé að ræða. Minni hlutinn telur að með þessu orðalagi sé hagsmunum barns betur borgið og almenn ákvæði um sakhæfi (í 14. gr. laganna) veiti geranda næga vernd sé hann undir 15 ára aldri.
    Í því sambandi vill minni hlutinn vísa til álits sem nefndinni barst frá hópi kvenna er m.a. tengjast Stígamótum, Kvennaráðgjöfinni og Kvennaathvarfinu á einn eða annan hátt. Í áliti þeirra segir:
    „Hegningarlagahópurinn vill gera það að tillögu sinni að 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins um samræði og önnur kynferðismök milli systkina verði felld brott. Engin ástæða er til að hafa sérstakt ákvæði um þetta þar sem kynferðisbrot eldra systkinis (eða yngra ef því er að skipta), sem misnotar trúnaðartraust barns/yngra systkinis, fellur undir 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins nái tillögur hópsins fram að ganga þar eð það ákvæði tekur einnig til brota þeirra sem skyldir eru barninu í hliðarlegg.
    Hópurinn vill koma því á framfæri að reynslan af starfsemi Stígamóta sýnir að fjöldi kynferðisbrota gegn stúlkum er framinn af eldri bræðrum þeirra. Oft er um það að ræða að brotastarfsemin hefst þegar stúlkan er á barnsaldri en kúgunin og ofbeldið heldur áfram eftir að hún hefur náð fullorðinsaldri. Því teljum við að ótækt sé að barn það, sem er í raun þolandi brotsins, skuli sæta refsingu á sama hátt og sá sem hefur beitt það ofbeldi e.t.v. til margra ára.“
    Í breytingartillögum minni hlutans við þessa grein er gert ráð fyrir að breyta orðalagi 8. gr. til samræmis við það sem lagt er til í tillögum hópsins. Verði sú breyting ekki samþykkt er það engu að síður álit minni hlutans að fella beri brott 3. mgr. 8. gr. enda veita önnur ákvæði frumvarpsins, ekki síst 10. gr., þolendum sifjaspella af hálfu systkina vernd án þess að hætta sé á að þolandi hljóti dóm ef misneyting sannast ekki.
    Fjórða breytingartillagan er við 1. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins. Minni hlutinn telur ekki ástæðu til að hafa í íslenskum lögum ákvæði um að vændi sé refsivert eins og lagt er til í 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Á það var bent í umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið að samkvæmt núgildandi lögum og þeim breytingum, sem lagðar eru til með frumvarpinu, væri vændi ekki refsivert nema sá sem það stundaði hefði framfæri sitt af því. Þetta telur minni hlutinn benda til þess að það sé ekki vilji löggjafans að refsa þeim sem búa við þá neyð að framfleyta sér á vændi. Þeir sem stunda vændi eru oftar en ekki fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í æsku og/eða fíkniefnaneytendur. Þeir sem kaupa vændi eru því að notfæra sér neyð þeirra sem selja vændi. Ef það er raunverulega vilji löggjafans að vændi sé refsivert er það í hæsta máta óeðlilegt að refsa einungis öðrum aðilanum en ekki hinum. Á það var bent í umfjöllun nefndarinnar að slíkt refsiákvæði sé sett fremur til varnaðar en til að beita því. Minni hlutinn telur að ef ekki er gert ráð fyrir að beita lagaákvæðum sé lítið hald í þeim og eins gott að sleppa þeim. Almennt siðgæði er varið með öðrum ákvæðum laga svo að ekki er hægt að rökstyðja ákvæði um að refsa megi fyrir vændi með því að almennu siðgæði sé hætta búin með þessum breytingum.
    Í umsögn fyrrnefnds kvennahóps, sem fjallaði um hegningarlögin, er lagt til að þau ákvæði, sem gera vændi refsivert, falli brott. Í umsögninni segir m.a.:
    „Það er sjónarmið okkar að ekki sé rétt að lýsa slíkan verknað refsiverðan og raunar algerlega fráleitt þegar verknaður þess er notfærir sér slíka „þjónustu“ er refsilaus.
    Þeir einstaklingar, sem neyðast til að selja líkama sinn, eru flestir mjög illa staddir félagslega, margir hverjir háðir eiturlyfjum eða öðrum fíkniefnum og fjármagna neyslu sína með þessum aðferðum. Sá sem kaupir „þjónustuna“ er því að misnota sér eymd þess sem neyðist til að selja líkama sinn.
    Þó ekki sé um það að ræða að einhvers konar neyð sé til staðar koma hér til álita sjónarmið um að þegar um er að ræða tvo fullorðna einstaklinga sem gera slík „kaup“ af fúsum og frjálsum vilja þá viljum við að ekki eigi að refsa fyrir slíkt athæfi.
    Einnig teljum við að fyrirmæli um refsingu fyrir vændi verði sjálfsagt til þess að þessi starfsemi fari enn neðar undir yfirborðið en nú er og geri því alla uppljóstrun slíkra mála erfiðari en slíkt er síst æskilegt nú á tímum eyðni þar sem vitað er að ein aðalsmitleið eyðniveirunnar er í gegnum vændi.“
    Minni hlutinn styður ákvæði um að refsivert sé að hafa atvinnu eða viðurværi af lauslæti annarra og stuðla að inn- eða útflutningi einhvers til eða frá landinu vegna vændis.
    Frumvörp um breytingar á lögum um almenn hegningarlög hafa verið lögð fram þrívegis á Alþingi án þess að verða útrædd og er brýnt að málið fái nú afgreiðslu. Minni hlutinn ítrekar því stuðning sinn við öll meginefnisatriði frumvarpsins og mun greiða því atkvæði með þeim fyrirvörum sem settir eru fram í nefndarálitinu.

Alþingi, 4. maí 1992.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.