Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 208 . mál.


868. Nefndarálit



um till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1992–1995.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna en þetta er í fyrsta sinn sem samgöngunefnd hefur flugmálaáætlun til meðferðar. Starfsmenn Flugmálastjórnar hafa aðstoðað nefndina við yfirferð málsins. Á fund nefndarinnar komu Haukur Hauksson aðstoðarflugmálastjóri, Jóhann Jónsson, framkvæmdastjóri flugvalla, Ágúst Valgeirsson, fjármálastjóri Flugmálastjórnar, og Maríanna Jónasdóttir, deildarstjóri á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Erindi bárust frá Flugmálastjórn, Flugfélagi Norðurlands, Stöðvarhreppi og Þórshafnarhreppi.
    Flugmálaáætlun var síðast lögð fram á 112. löggjafarþingi 1989–1990. Hana ber að endurskoða á tveggja ára fresti og jafnframt að gera áætlun til tveggja ára til viðbótar, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Hér er því um reglulega endurskoðun að ræða.
    Í áætlun um fjáröflun, sem fram kemur í I. lið tillögunnar, er gert ráð fyrir að útgjöld til framkvæmda í flugmálum komi eingöngu af mörkuðum tekjustofnum, en áætlun ársins 1992 er í samræmi við fjárlög. Nefndin gerir ekki athugasemdir við þennan lið tillögunnar.
    Nefndin leggur til nokkrar efnisbreytingar á II. og IV. lið tillögunnar. Að auki leggur nefndin til að uppsetningu áætlunarinnar fyrir árin 1994–1995 verði breytt þannig að skipting útgjalda og sundurliðun verkefna til áætlunarflugvalla I–III verði ekki ákveðin heldur einungis tilgreind heildarupphæð óskipt. Nánari grein verður gerð fyrir breytingartillögum í framsögu með nefndaráliti.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 5. maí 1992.



Árni M. Mathiesen,

Sigbjörn Gunnarsson.

Guðni Ágústsson,


form., frsm.

með fyrirvara.



Pálmi Jónsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Árni Johnsen.

Sturla Böðvarsson.

Halldór Ásgrímsson,


með fyrirvara.