Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 529 . mál.


896. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/1990, um atvinnuleysistryggingar.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða III hljóði svo:
    Á árunum 1992 og 1993 er Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að greiða þeim sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir. Í reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, skal setja nánari reglur um uppbótina.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Í nýgerðum kjarasamningum er gert ráð fyrir greiðslu launaauka 1. júlí 1992 og 1. febrúar 1993. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að heimilt skuli að greiða sambærilega uppbót til þeirra sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili. Nánari reglur um þetta skal setja í reglugerð sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     Í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins er gert ráð fyrir að frumvarp þetta geti náð afgreiðslu á vorþingi enda þurfa ákvæði þess að koma til framkvæmda að hluta til í sumar.
    Frumvarp þetta er flutt að beiðni heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.