Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 280 . mál.


930. Nefndarálit



um frv. til l. um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Magnús Jóhannesson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, og Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Búnaðarfélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, Landssambandi slökkviliðsmanna, Landvernd, samtökunum Lífi og landi, lögreglunni í Reykjavík, Náttúruverndarráði, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stéttarsambandi bænda, Sýslumannafélagi Íslands, umhverfisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Einnig bárust frá dómsmálaráðuneytinu bréf frá flestum lögreglustjórum landsins þar sem fram kemur lauslegt mat þeirra á framkvæmd gildandi laga um sinubrennur. Þá hefur nefndin haft til athugunar breytingartillögu við frumvarpið frá Pálma Jónssyni á þskj. 587.
    Umhverfisnefnd telur að skort hafi á að fyrirmælum laga nr. 8/1966, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, væri framfylgt. Nefndin telur þörf á að setja ný lög um efnið. Til þess að tryggja að lögunum verði framfylgt þarf fræðslu og upplýsingar til almennings um skaðsemi sinubruna, en jafnframt um ástæður þess að heimild er til að leyfa að brenna sinu á bújörðum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu og varða sumar þeirra einungis breytingu á framsetningu. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að einungis megi brenna sinu á jörðum sem eru í ábúð eða nýttar eru af ábúendum lögbýla og að til þess þurfi leyfi sýslumanns. Gert er ráð fyrir því að ábúendur jarða geti einir fengið að brenna sinu. Nýti ábúandi lögbýlis hins vegar jörð, sem ekki er byggð, vegna búreksturs síns getur hann einnig fengið leyfi sýslumanns til að brenna sinu á þeirri jörð. Ekki er heimilað að brenna sinu eftir 1. maí ár hvert nema við sérstakar aðstæður og með leyfi sýslumanns sem gefið er í samráði við umhverfisráðuneytið. Verða sérstakar veðurfarslegar ástæður að gefa tilefni til slíks leyfis. Í breytingartillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að þessi ákvæði komi í 1. og 3. gr.
    Þá leggur nefndin til að í sérstakri grein, 2. gr., komi fram nokkur almenn atriði sem valda því að ekki má brenna sinu, t.d. ef almannahætta stafar af eða tjón getur hlotist á náttúruminjum. Varðandi reglugerð, sem umhverfisráðherra setur, leggur nefndin til að leita beri umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Náttúruverndarráðs. Að lokum leggur nefndin til að breytt verði framsetningu á ákvæðum um meðferð elds á víðavangi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson voru fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 1992.



Gunnlaugur Stefánsson,

Tómas Ingi Olrich.

Hjörleifur Guttormsson.


form., frsm.



Valgerður Sverrisdóttir.

Kristín Einarsdóttir.

Árni R. Árnason.



Björn Bjarnason.