Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:09:30 (4256)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson er annar þingmaður Framsfl. sem opinberar það við 2. umr. málsins hvernig hann hyggist ráðstafa atkvæði sínu, þ.e. hann ætli sér að sitja hjá við afgreiðslu þess. Ég hef a.m.k. tekið svo eftir. Hv. þm. var hins vegar að boða það að margir þingmenn flokksins mundu hafa svipaða afstöðu. Það kemur þá í ljós ef það er rétt. Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að það skuli vera að fjölga í hópi þeirra sem lýsa yfir efnislegum stuðningi við þetta mál og hjásetu við afgreiðslu þess af hálfu þingmanna. Framsfl.
    Ég vil spyrja hv. þm. Finn Ingólfsson sérstaklega í sambandi við þetta mál hvernig hann getur réttlætt það fyrir sinni samvisku ef hann er sammála þeirri niðurstöðu sem flokksþing Framsfl. komst að varðandi stjórnarskrárþátt málsins að stjórnarskráin ætti að eiga vafann sem væri tengdur þessu máli að því er

stjórnarskrána varðar. Hvernig getur hann réttlætt það fyrir samvisku sinni að sitja hjá við afgreiðslu máls sem sterkar líkur eru á að brjóti gegn stjórnarskrá landsins?
    Í öðru lagi vildi ég heyra eitthvað nánar um það frá hv. þm. hvernig hann sjái þá leið fyrir sér að ef EFTA-ríkjunum sem gerast aðilar að Evrópubandalaginu fjölgar og eftir yrðu kannski Ísland og Liechtenstein eða Ísland eitt þá gengi þetta í rauninni sjálfkrafa upp sem tvíhliða samningur. Ég tel mikla skammsýni að ímynda sér að málin gangi þannig fyrir sig. Stofnanaþáttur samningsins er auðvitað samofinn samningnum í heild sinni og það gerist ekki með einföldum hætti að samningurinn breytist í tvíhliða samning með þeim hætti sem þarna er gefin í skyn og ætli staða Evrópubandalagsins verði ekki býsna sterk þegar þar væri komið máli gagnvart Íslandi? Það held ég að menn ættu að hafa í huga og ekki síst þeir sem hafa haft hvað hæst um það að Ísland skuli aldrei ganga í EB sem ég tek auðvitað undir og við eigum að sjá til að aldrei verði. En Framsfl. fjallaði sérstaklega um það mál í sambandi við síðustu kosningar eins og við munum.