Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 10:37:50 (4273)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það var vissulega tímabært að benda á þetta sem hv. 4. þm. Austurl. benti hér á, að við erum í raun og veru að ræða hér mál sem þyrfti ekkert að vera á dagskrá. Það er orðið svo úr takt við raunveruleikann að það er nánast algerlega tilgangslaust að ræða það þó við séum að ræða að sjálfsögðu mjög mikið og stórt mál sem er þessi samningur, að margra dómi það viðamesta sem Alþingi hefur staðið frammi fyrir frá stofnun lýðveldis. Það er því mjög eðlilegt að margir þurfi að tjá sig um það mál. Annað væri óeðlilegt. Það er misjafnt hve mikið mönnum er niðri fyrir og fer þá ræðutími nokkuð eftir því.
    Staðan í málinu er þessi: Í allt haust höfum við verið að vinna að ýmsum málum í nefndum sem tengjast þessu frv. um Evrópskt efnahagssvæði beint eða óbeint. Um frv. sjálft hefur verið fjallað á ótal fundum. Mig minnir að einhver hafi nefnt töluna 90 fundi í utanrmn. Ekki efast ég um það að vel hafi verið farið í málið af hálfu þeirrar nefndar þó að ég sé nú ekki endilega sannfærð um það eins og hæstv. utanrrh. að þeir sem þar sitja viti mest um EB og EES. Það minnir mig raunar á það að hæstv. utanrrh. er ekki hér viðstaddur þessar umræður og ég vildi nú biðja um það að hann sæti fundinn, virðulegi forseti. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að koma boðum til hæstv. utanrrh.)
    Ég held hins vegar að þingmenn, þó að hæstv. utanrrh. telji það ekki, hafi sett sig mjög vel inn í þetta allir sem einn en hafi þeir ekki gert það, þá tel ég það ámælisvert. En nú við 2. umr. erum við hins

vegar í þeirri sérkennilegu stöðu að þetta frv. sem við erum að ræða stenst ekki lengur. Við getum ekki greitt atkvæði um það vegna þess að það er ekki í takt við raunveruleikann. Í 1. gr. frv. um Evrópskt efnahagssvæði er rætt um aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu sem samningsaðila. Í þeim samtökum er Sviss eitt af sjö ríkjum en Sviss hefur fellt samninginn svo sem kunnugt er. Þar af leiðandi er þessi setning ekki lengur gild. Það eru ekki Fríverslunarsamtök Evrópu sem standa að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í öðru lagi er samningur milli EFTA-ríkja um stofnun öryggisstofnunar og dómstóls sem einnig var undirritaður í Óportó 2. maí 1992 og samkvæmt þeim samningi sitja í eftirlitsstofnun EFTA sjö eftirlitsfulltrúar skipaðir af EFTA-ríkjum og í EFTA-dómstólnum eiga að sitja sjö dómarar, einn frá hverju EFTA-ríki. EFTA-ríkin eru sjö. En nú á þessari stundu eru það aðeins sex ríki EFTA sem standa enn að þessum samningi. Eigum við þá að samþykkja að Sviss eigi þarna einn dómara af sjö og gera seinna einhverja bókun í þá átt að þetta eigi ekki lengur við af því að Sviss hafi fellt samninginn? Sama eða svipað má segja um fastanefnd EFTA. Þar er gert ráð fyrir samstarfi EFTA-ríkja um ákvarðanatöku, stjórnun, framkvæmd og samráð vegna samningsins. EFTA-ráðið á hins vegar að starfa áfram samkvæmt stofnsamningi um Fríverslunarsamtök Evrópu og reka skrifstofu sem á einnig að starfa fyrir fastanefndina. Þarna er verið að setja í einn allsherjarhrærigraut nefndastarf allra EFTA-ríkja og svo þeirra EFTA-ríkja sem standa að Evrópsku efnahagssvæði enn þá. Sjá menn virkilega ekki hvílíkur óskapnaður er að verða úr þessu öllu saman? Hann hefur að vísu alltaf verið óskapnaður að mínu áliti þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði en ekki skánar hann við það sem kemur í ljós þegar eitt ríkjanna í EFTA hefur fellt hann.
    Í greinargerð lagaprófessorsins Björns Þ. Guðmundssonar um málsmeðferð þessa frv. segir m.a. að texti 1. gr. frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðissamninginn eins og ætlunin er að samþykkja hann sé meiningarleysa. Hann færir skýr rök fyrir þeirri staðhæfingu í sinni grg. til utanrmn. þann 22. des. sl. og hef ég að nokkru stuðst við þær röksemdir. Ég verð að segja að sú óbilgirni sem hæstv. utanrrh. sýnir í þessu máli er með ólíkindum --- og nú sakna ég aftur hæstv. utanrrh. virðulegi forseti. --- Að halda því fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að afgreiða samninginn eins og hann liggur fyrir. Eftir atkvæðagreiðsluna í Sviss er komin upp ný staða í málinu. Svisslendingar áttu að greiða um þriðjung af kostnaði við Evrópskt efnahagssvæði og nú hefur Spánn neitað að fullgilda samninginn fyrr en það er komið á hreint hvernig með þær skuldbindingar verður farið og vill auðvitað að hin EFTA-ríkin taki á sig þær fjárskuldbindingar sem Sviss var áður ætlað að greiða.
    Samningagerðin um Evrópskt efnahagssvæði er í mikilli óvissu og við ættum að þakka fyrir að vera ekki komin lengra í afgreiðslu hans en raun ber vitni. Það gæti orðið okkur til mikils tjóns að ljúka þessum samningi nú. Fiskveiðisamningurinn sem honum tengist er ónýtt plagg, ekki pappírsins virði, og það er til merkis um flaustursleg vinnubrögð hæstv. utanrrh. að tillögu til þál. um samning milli Íslands, Grænlands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu hér í kring hafði gleymst að leggja fram þar til á síðasta degi þingsins fyrir jól. Á heimildum Grænlendinga samkvæmt þessum samningi byggist þó sú túlkun að þeir geti selt EB veiðiheimildir til loðnuveiða sem EB ætlar síðan að nota sem skiptimynt í staðinn fyrir veiðiheimildir á karfa hjá okkur. Það er ekkert sem rekur á eftir þessu máli nú nema hroki og ráðríki í hæstv. utanrrh. Ég verð reyndar að segja að ég kannast við þá eiginleika hans af kynnum okkar á Ísafirði forðum og hann hefur ekki borið gæfu til að lagfæra þá með árunum. Hann virðist hafa tileinkað sér í pólitísku starfi að fara sínu fram og vaða yfir skoðanir annarra eins og engispretta á akri. Ég hef heyrt margan manninn hafa svipaðar skoðanir á framferði hæstv. utanrrh. í þessu máli og ummæli hans í fjölmiðlum undanfarnar vikur um vinnubrögð Alþingis eru dæmi um hrokagikkshátt. Og í greinargerð Björns Þ. Guðmundssonar sem ég nefndi hér áðan segir hann m.a. í niðurlagsorðum, með leyfi forseta:
    ,,Ég óttast ekki dóm réttarsögunnar um þær lögfræðilegu skoðanir sem ég hef leyft mér að hafa á stjórnarskrárþætti þessa máls, annars vegar og þeirri lögfræðilegu málsmeðferð sem nú er höfð uppi við afgreiðslu margnefnds frv. Ég óttast hins vegar þann valdahroka sem ýmsir embættismenn þjóðarinnar hafa tamið sér í samskiptum við samborgara sína og er engu líkara en sumir ráðherrar telji lýðræði og þingræði beinlínis vera til trafala í þjóðfélagi okkar.``
    Þetta eru niðurlagsorð lagaprófessorsins Björns Þ. Guðmundssonar í þessari greinargerð sem hann sendi utanrmn. Alþingis hinn 22. des. sl. Ég tek undir það að þegar valdamestu menn þjóðarinnar eru farnir að haga sér með þessum hætti, þá er lýðræðinu hætta búin. Og að halda því fram að þetta sé eina málið sem skiptir nokkru fyrir okkur Íslendinga nú á þessari stundu er með eindæmum. Ég hefði haldið að þau væru talsvert fleiri. Ég tel að á næstunni verði það kjaramálin sem verði hér í brennidepli. Ríkisstjórnin hefur rofið þjóðarsáttina og launþegar flestir eru með lausa samninga. Það er ekki víst að þær skattalagabreytingar, sem keyrðar voru í gegnum þingið fyrir jól og tekjuöflun ríkisins byggist á, verði langlífar. Þær lagabreytingar hefðu þurft mun meiri umfjöllun og kannski hefði þá verið hægt að breyta þeim til betri vegar. Svo er því haldið fram, m.a. af hæstv. utanrrh., að stjórnarandstaðan sé að tefja málið, halda langar ræður og tefja fyrir ríkisstjórninni á allan hátt. En það er nefnilega þannig að það hefur verið nægur tími til þess í haust að ræða og afgreiða frv. um Evrópskt efnahagssvæði. Það sem vantaði var að sjávarútvegssamningurinn lægi fyrir. Það var alltaf vitað að frv. yrði ekki afgreitt nema svo væri. Sjávarútvegssamningurinn kom hins vegar ekki á dagskrá fyrr en 3. des. sl. og er aðeins búin þar 1. umr. og nú hefur staðan breyst vegna Sviss. EFTA-ríkin eru ekki lengur sem heild aðili að samningnum. Forsendurnar hafa

breyst. En hæstv. ráðherra utanríkismála neitar að viðurkenna það.
    Evrópskt efnahagssvæði getur ekki orðið að veruleika fyrr en í fyrsta lagi líklega í júlí á þessu ári og mörg EB-ríki eiga enn eftir að samþykkja samninginn. Oft hefur staðan í pólitík breyst á styttri tíma en 6 mánuðum. Það getur því margt breyst enn þá. En ég hef grun um að hæstv. ráðherra vilji ekki eiga slíkt á hættu. Hann verður að geta sagt vinum sínum í Evrópu að málið sé í höfn á Íslandi.
    Ég ætla raunar ekki að eyða tíma í að rekja þetta mál í sögulegu samhengi. Það hafa margir gert á undan mér og ég þarf engu sérstöku við að bæta. En ég ætla hér að lokum að skoða þetta mál út frá sjónarmiði jaðarbyggða.
    Ísland er oft sagt vera á mörkum hins byggilega heims. Í Evrópu er og verður Ísland í jaðarbyggð. Um það eru menn sammála. Og ef við ætlum að reyna að sjá fyrir okkur þróun mála hér í framtíðinni í tengslum við þetta Evrópska efnahagssvæði er best að byrja í smærri einingum og skoða hvernig málin hafa þróast á þessari öld á okkar litla Íslandi. Ef við förum eins og 60 ár aftur í tímann og skoðum byggðina eins og hún var, þá komumst við að raun um að þá var búið í hverjum firði, í hverri vík í landinu eða svo til. En svo hófst tæknivæðingin. Fólkið leitaði til þorpanna, þjappaði sér saman og komst að raun um að hreyfing fjármagnsins var meiri þar sem fólkið var fleira. Margir nýttu sér tækifærin sem buðust og urðu vel efnaðir á því að nota vinnukrafta hinna fátækari sér í hag. Og bæir urðu til og höfuðborg reis úr ösku og varð að stórborg. Sú stórborg sogaði til sín fjármagnið sem var til í frumvinnslunni úti um landið og eftir fjármagninu kom fólkið alveg eins og gerðist í þorpunum áður. En í sameinaðri Evrópu verður höfuðborgin okkar eins og lítið þorp úti á landi. Og þegar frelsi fjármagnsins, þjónustunnar og vinnuaflsins er orðið algert, þá leitar það inn að miðju. Það kemur ekki hingað innlent fjármagn til að rétta við okkar smáu og illa stöddu fyrirtæki. Til hvers ætti það að gera það? Það er ekkert á því að græða. Arðsemissjónarmiðið ræður, markaðurinn ræður og markaðurinn er Evrópa en ekki Ísland. Eru ekki lífeyrissjóðirnir að leita sér ávöxtunar erlendis nú þegar?
    Í Morgunblaðinu föstudaginn 18. des. sl. segir, með leyfi forseta: ,,Lífeyrissjóðir byrjaðir að fjárfesta erlendis. Fjórir íslenskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest í erlendum verðbréfum á þessu ári fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækisins Handsals hf. Nemur fjárfesting þeirra um 15 millj. kr. Að sögn Pálma Sigmarssonar, framkvæmdastjóra hjá Handsali, var settur á stofn deildaskiptur verðbréfasjóður í þessu skyni, Handval hf., og hefur hann fjárfest fyrir 70 millj. kr. í erlendum hlutabréfasjóðum.`` Þetta er aðeins byrjunin og jafnvel talað um að lífeyrissjóðirnir muni fara sér hægt til að byrja með, varlega, en þeir eru byrjaðir og fleiri fylgja á eftir.
    Þegar hringiða fjármagnsins er komin til Evrópu þá mun fólkið ekki lengur telja eftirsóknarvert að búa á Íslandi. Það leitar inn að miðju, miðju Evrópu alveg eins og gerðist í landinu áður. Það sem verður eftir er frumvinnslan. Nokkrir stórir verksmiðjutogarar sem sópa upp þeim fisktegundum sem enn verða veiðanlegar. Landbúnaður leggst af því hann borgar sig ekki, farandverkafólk frá fátækum löndum kemur e.t.v. hingað, en hér verður ekki það gósenland viðskiptanna sem forsvarsmenn Evrópsks efnahagssvæðis halda fram. Evrópskt efnahagssvæði byggist á hagkvæmni stærðarinnar, ekki á kostum smæðarinnar, vegna þess að það skilar sér ekki í beinhörðu gulli. Kostir smæðarinnar eru fólgnir í öðru. Þeir eru fólgnir í því að vera hluti af landinu, hluti af íslenskri náttúru, vera frjáls Íslendingur í fullvalda ríki, en það skilja þeir ekki sem eru blindaðir af Evrópuhyggjunni, sem selja aðgang að fiskimiðunum fyrir pappírsfisk og tollaívilnanir, sem stendur á sama þó þeir samþykki lög sem að áliti hinna mætustu manna brjóta í bága við stjórnarskrána. Og sem senda síðan hluta af löggjafar- og dómsvaldinu í hraðpósti til Brussel.
    Ég held því þó ekki fram að það finnist ekki einhverjir kostir í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þeir eru til, en í mínum huga vega þeir aðeins 25% á móti göllunum sem eru 75%. Ég er engan veginn tilbúinn til að borga þrefalt verð fyrir þá kosti.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér málað e.t.v. í nokkuð dökkum litum framtíðarmyndina innan Evrópsks efnahagssvæðis. Það þarf stundum sterka liti til að ná athygli. Það þarf kannski heldur ekki Evrópskt efnahagssvæði til þess að þróunin verði á þennan veg sem ég hef lýst en samningurinn stefnir að þeirri þróun. Ég óttast það að menn haldi ekki skarpri sjón og horfi til allra átta vegna þess að þeir hafa blindast af Evrópuhyggjunni. Við Íslendingar eigum að móta viðskipti okkar við aðrar þjóðir með tvíhliða samningum en ekki með pólitískum bandalögum. Við höfum líka góða viðskiptamöguleika á grundvelli nýrra GATT-samninga og samstarf okkar við aðrar þjóðir eigum við að rækta á öðrum sviðum, í Norðurlandaráði, í Evrópuráðinu og hjá Sameinuðu þjóðunum sem sjálfstæð þjóð.
    Ég mæli eindregið á móti því að við samþykkjum frv. um Evrópskt efnahagssvæði, m.a. af þessum ástæðum sem ég hef hér rakið. --- Nú sé ég, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. er mættur hér og les blaðið sitt. Ég vænti þess þó að hann hafi hlustað á eitthvað af því sem ég hafði hér að segja.