Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 11:24:16 (4275)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég tek eftir því þegar ég hlusta á fjölmiðla um þessi áramót að rætt er um að á Alþingi sé málþóf. Í fjölmiðlum kemur hver fullyrðingin af annarri um að stjórnarandstæðingar hafi skipulagt málþóf á Alþingi um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Einkum og sér í lagi halda oddvitar ríkisstjórnarinnar þessu fram. Hæstv. forsrh. hefur margítrekað þetta í fjölmiðlum og hæstv. utanrrh. hefur ekki látið sinn hlut eftir liggja. Því miður trúir stór hluti þjóðarinnar þessu.
    Ég hlustaði á tvo umræðuþætti í Ríkisútvarpinu sl. laugardag þar sem kallaðir höfðu verið til skrafs og ráðagerða nokkrir einstaklingar úr þjóðlífinu. Í báðum þáttunum var því haldið stíft fram af fleirum en einum þátttakanda í hvorum þætti, án þess að því væri á nokkurn hátt mótmælt, að stjórnarandstaðan væri að skipuleggja málþóf um Evrópska efnahagssvæðið og hefði tafið sérstaklega afgreiðslu þess máls.
    Ég vildi byrja á því að fjalla um þá spurningu hvort þetta sé virkilega rétt. Ég byrja á því að rifja upp að hæstv. utanrrh. kom fram á blaðamannafundi erlendis hinn 11. des. sl. Hann var þá spurður hvernig á því stæði að ekki væri búið að afgreiða samninginn um Evrópskt efnahagssvæði á Íslandi. Þá kom í fyrsta skipti fram þessi fullyrðing um málþófið á Alþingi Íslendinga því að hæstv. utanrrh. kaus að svara spurningu blaðamanna á þann veg að á Íslandi væru í gildi svo sérstæð þingsköp á þjóðþingi landsins að þingið hefði ekki haft ráðrúm þess vegna til að afgreiða málið. Hvernig stóð á afgreiðslu málsins í þinginu á þessum tíma? Málið hafði alls ekki verið tekið til 2. umr. 1. umr. málsins lauk á tilsettum tíma upp úr miðjum septembermánuði en síðan hafði málið alls ekkert komist á dagskrá. Þegar hæstv. utanrrh. er beðinn um að svara þessari spurningu um afgreiðslu Alþingis á þessu máli á erlendum vettvangi kýs hæstv. ráðherra að segja vísvitandi ósatt um stöðu málsins. Hann kýs að halda því fram að eitthvert málþóf á Alþingi Íslendinga valdi því að afgreiðsla málsins hafi tafist þó að hann viti sjálfur að málið er ekki enn komið til 2. umr., hvað þá meira, og hefur alls ekki verið þar til umræðu mánuðum saman. Hvers vegna hafði málið ekki verið til umræðu hér mánuðum saman? Var það vegna þess að stjórnarandstaðan hindraði að málið væri tekið hér fyrir? Nei.
    Auðvitað vita allir hv. þm. hvers vegna það dróst fram í desember að taka málið fyrir á Alþingi til 2. umr. Það var samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að málið skyldi ekki koma til 2. umr., aðalefnisumræðu málsins, fyrr en sjávarútvegssamningurinn lægi fyrir og hefði verið kynntur á Alþingi. Um þetta voru engar deilur. Það stóð ekkert á stjórnarandstöðunni hvað þetta varðaði heldur stóð á að ríkisstjórnin kæmi málinu frá sér í samningaviðræðum við Evrópubandalagið. Þessi samningur varð ekki til fyrr en í byrjun desembermánaðar og var ekki kynntur hér fyrr en 3. des. sl. Þrem dögum síðar var þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss sem breytti töluvert viðhorfum í þessu máli. Upp komu ýmis lagatæknileg álitaefni þannig að ekki var hægt að hefja 2. umr. málsins, m.a. líka vegna fjarveru utanrrh. sem var erlendis dagana eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss.
    Umræðan hófst því 14. des. sl. og stóð í þrjá til fjóra daga. Um 18 þingmenn munu hafa tekið þá til máls. Síðan var umræðu frestað, ekki vegna þess að neitt málþóf væri hér í gangi, t.d. hafði enginn þingmaður talað oftar en einu sinni þó hver þingmaður hafi rétt til að tala tvisvar við hverja umræðu. Það voru einfaldlega það margir þingmenn sem óskuðu eftir því að taka til máls og síðan átti eftir að afgreiða fjöldamörg frv. um efnahagsmál, þar á meðal sjálft fjárlagafrv. og tíminn til jóla var tekinn til þess. Það vannst því ekki tími til að fjalla frekar um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þjóðsagan um það að í þinginu hafi verið eða sé málþóf um Evrópskt efnahagssvæði byggir á beinum blekkingum og ósannindum. Hún var vakin upp af hæstv. utanrrh. áður en umræðan hófst sem sýnir sannleiksgildi þjóðsögunnar. Vissulega var enn frekar reynt að koma fótum undir þessa þjóðsögu af hæstv. forsrh. daginn eftir að umræðan hófst vegna þess að þann dag, 15. des., byrjaði hæstv. forsrh. að tala um að skera þyrfti niður ræðutíma þingmanna. Þá hafði einn stjórnarandstæðingur, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, fengið orðið í þinginu um Evrópska efnahagssvæðið við 2. umr. Aðeins einn þingmaður stjórnarandstæðinga hafði talað þegar hæstv. forsrh. byrjar að tala um það í fjölmiðlum að nú sé þörf á því að skera niður ræðutíma alþingismanna. Var nema von nema þjóðin héldi að hér væri í gangi eitthvert stórkostlegt málþóf?
    Því miður er áróðursaðstaðan í landinu á þann veg að ekki hefur enn tekist að leiðrétta þennan misskilning og því eyði ég nokkru máli í þennan þátt í upphafi að auðvitað er nauðsynlegt að þjóðin átti sig á því að þetta er þjóðsaga sem hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. bjuggu til og það meira að segja áður en umræðan hófst.
    Við vitum öll að þetta er gríðarlega margþætt mál. Þetta er langviðamesta mál sem komið hefur til umfjöllunar á Alþingi áratugum saman. Það er svo viðamikið að því má halda fram með fullum rétti að þetta mál sé hundraðfalt að umfangi á við venjulegt þingmál á hv. Alþingi. Það þarf því engum að koma á óvart að ekki sé hægt að afgreiða mál af þessu tagi í einhverri skyndingu. Fyrir utan að vera svona umfangsmikið mál er þetta þar að auki eitt stærsta og örlagaríkasta mál sem Alþingi hefur fjallað um að dómi allra sem nálægt því hafa komið. 2. umr. málsins er aðalefnisumræða og ég mundi telja það hreina hneisu ef Alþingi Íslendinga teldi sig ekki hafa efni á nokkurra daga umræðu um þetta mál áður en 2. umr. er lokið. Ég tel það beina ögrun við þingræðið hér í landinu hvernig hæstv. forsrh. hefur tekið til máls um Alþingi og um rétt þingmanna í þessu efni með því að draga í efa rétt þeirra til þess að fjalla um þetta langviðamesta og örlagaríkasta mál sem við höfum fjallað um hér með eðlilegum hætti og tala um að hér sé í gangi málþóf þegar einn stjórnarandstæðingur hefur fengið tækifæri til þess að fjalla efnislega um málið við 2. umr. Ég tel það hreinan dónaskap við alþingismenn að draga í efa rétt þeirra til þess að fjalla um þetta mál með eðlilegum og venjulegum hætti og ítreka það sem ég sagði áðan að enn hefur enginn alþingismaður talað nema einu sinni við 2. umr. málsins og margir þeirra eru að tala í fyrsta skipti um þetta mál nú.
    Einn af þeim er t.d. sá sem hér stendur. Ég hef aldrei tekið til máls undir dagskrárliðnum Evrópskt efnahagssvæði í þinginu. Ég hef vissulega skrifað margar greinar um þetta mál í blöð og ég hef komið fram í sjónvarpi og verið á fundum þar sem um þetta hefur verið fjallað. En það stóð þannig á í haust að ég átti þess ekki kost að taka þátt í umræðunni vegna fjarveru og hef ekki komist að enn. Mér finnst mjög ódrengilega að mér vegið þegar því er haldið fram að ég taki þátt í málþófi þegar ég óska eftir því að tala hér um þetta stærsta og örlagaríkasta mál þjóðarinnar með venjulegum hætti.
    Hæstv. utanrrh. hefur komið með þá athugasemd í fjölmiðlum að erlend þjóðþing hafi verið svo fljót að afgreiða þetta mál að það hljóti að vera eitthvað meira en óeðlilegt við okkur alþingismenn að við skulum vera svona lengi að afgreiða málið. Alþingi Íslendinga er að hans dómi ,,abnormalt``, langt á eftir tímanum og þarf að taka því alveg sérstat tak að það skuli gefa sér lengri tíma til að fjalla um þetta mál en verið hefur í þjóðþingum annarra landa. En ég spyr: Er það í raun og veru nokkuð merkilegt að Alþingi Íslendinga skuli taka sér lengri tíma en önnur þjóðþing til að fjalla um þetta mál? Ég tel að svo sé ekki. Ég tel aðstæður á Íslandi algerlega ósambærilegar við það sem er í öðrum löndum hvað þetta mál varðar.
    Í fyrsta lagi er alveg ljóst að andstaðan við aðild að Evrópsku efnahagssvæði er miklu meiri, rótgrónari og útbreiddari á Íslandi en í öðrum þeim löndum sem hafa fjallað um þetta mál að Svisslandi einu undanskildu. Því er eðlilegt úr því að andstaðan er svona miklu útbreiddari og rótgrónari meðal þjóðarinnar að það þurfi lengri tíma til að fjalla um málið. Í skoðanakönnunum hefur hvað eftir annað komið fram að meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Reyndar var seinasta skoðanakönnun á annan veg. Þá virtist vera að meiri hlutinn hefði snúist við og aðeins fleiri væru með en á móti. Það skiptir ekki miklu máli hvað þetta varðar. Andstaðan er mjög mikil meðal þjóðarinnar og greinilegt að þjóðin klofnar í tvo helminga. Það er því fullkomlega eðlilegt að bæði þing og þjóð taki sér góðan tíma til að fjalla um málið og átta sig á öllum hliðum þess.
    Önnur veigamikil ástæða til þess að það tekur okkur tíma að fjalla um málið er sú að allar ríkisstjórnir annarra ríkja sem hér koma að máli hafa boðað að þær hyggist leiða viðkomandi ríki inn í Evrópubandalagið. Frá þeirra sjónarhóli séð er Evrópska efnahagssvæðið eingöngu millilending á leið inn í Evrópubandalagið. Þær vita að þær verða að gleypa þennan mikla lagabálk Evrópubandalagsins hvort eð er ef til þess á að koma að þær gangi í Evrópubandalagið. Þess vegna finnst þeim ekki að aðildin að Evrópsku efnahagssvæði skipti svo miklu máli. Þær séu á þessari leið hvort sem er og þá sé eins gott að gleypa þennan bita hratt. En ég veit að fleiri geta vitnað um það en ég sem rætt hafa við þingmenn á þjóðþingum Svía, Finna eða Norðmanna að vanþekking þeirra á þessum samningi er mjög áberandi. Ég get sagt hér sögur um viðræður mínar t.d. við þingmenn þessara landa þar sem einstök atriði hafa borið á góma og ég verð var við það að þingmenn sem ég hef rætt við hafa sáralítið vitað um þennan samning og hvað hann fæli í sér. Það stafar auðvitað af því að þessi samningur hefur farið nokkuð hratt í gegnum þing annarra landa. En ég spyr: Er víst að það sé þeim til sóma? Ég dreg það í efa. Ég held að það sé engum til sóma að afgreiða svona stórt og viðamikið mál meira og minna blindandi og það sé Alþingi Íslendinga til sóma að hafa tekið sér góðan tíma.
    Hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram að okkur bráðliggi á að afgreiða þennan samning og það sé nánast þjóðarslys að Alþingi Íslendinga hafi ekki verið búið að afgreiða þetta mál fyrir jól vegna þess að íslenskir hagsmunir séu í hættu. Fyrst hélt hann því reyndar fram að við fengjum ekki aðgang að ráðstefnu um hugsanlegar breytingar á samningnum vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss ef við værum ekki búnir að samþykkja málið á Íslandi. Þessu hélt hann fram í sjónvarpi alveg blákalt og varð svo að éta allt ofan í sig daginn eftir þegar honum var sýnt fram á að þetta stæðist ekki út frá sjálfum samningsákvæðunum. Seinna hefur hann haldið því fram, m.a. í viðtölum við stjórnarandstæðinga, að bráðnauðsynlegt sé að við látum hin ríkin, sem hyggjast eiga aðild að Evrópsku efnahagssvæði, vita nú þegar fyrstu dagana í janúar hvað Ísland hyggist fyrir í þessum efnum vegna fundahalda erlendis um þessi mál. En því betur sem þau spil á hendi hæstv. utanrrh. eru skoðuð þeim mun betur kemur í ljós að fyrir þessu eru engin rök. Þetta eru ekkert annað en bláberar fullyrðingar út í bláinn eins og margt annað sem hefur komið frá hæstv. utanrrh. í þessu máli.
    Það er alveg ljóst að það stendur fyrst og fremst á Evrópubandalaginu að ganga frá sínum málum áður en fjallað er frekar um þetta mál á sérstakri alþjóðlegri ráðstefnu. Það er alveg ljóst að það gerist ekkert í þessu máli í þessum mánuði á neinni alþjóðlegri ráðstefnu. Málið er til áframhaldandi undirbúnings og athugunar og það verður ekki fyrr en í næsta mánuði sem það þarf að liggja fyrir hver sé afstaða Íslands í málinu.
    Það hafa borist af því fréttir að þegar sé búið að ráða svo og svo marga starfsmenn Evrópska efnahagssvæðisins. Ég spurði hæstv. utanrrh. að því ekki alls fyrir löngu í umræðum utan dagskrár hvort þetta væri rétt, hver greiddi þessum starfsmönnum laun og hvar heimildir væru til að greiða þeim laun. Ég fékk engin svör við þeirri spurningu og ég vildi leyfa mér að ítreka hana hér og nú. Ég tel að við eigum öll heimtingu á að vita hvort hrokinn og yfirlætið í þeim sem eru að undirbúa Evrópskt efnahagssvæði er virklega svo mikið að menn bíða ekki eftir því að viðkomandi þjóðþing hafa staðfest samninginn, hvort menn ganga að því sem gefnu að þeirra vilji ráði áður en starfsmenn eru ráðnir til starfa. Þessari spurningu var ekki svarað og væri æskilegt að fá henni svarað.
    Ég vék áðan að áróðursaðstöðu talsmanna Evrópska efnahagssvæðisins. Ég viðurkenni að hún er ákaflega sterk en það hefur samt ekki dugað til að sannfæra mikinn meiri hluta þjóðarinnar. Staðreyndin er sú að þjóðinni er áfram skipt til helminga í þessu máli og ekki ljóst hvoru meginn meiri hlutinn liggur þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hefur leyft sér að ausa hundruðum milljóna af almannafé, bæði af fé fylgismanna Evrópska efnahagssvæðisins og andstæðinga Evrópska efnahagssvæðisins, til þess að sannfæra þjóðina um kosti þessa samnings. Ég sé að einn hv. þm. ríkisstjórnarinnar hristir höfuðið en þetta er staðreynd. Það hefur verið ausið af almannafé af hálfu ríkisstjórnarinnar m.a. í útgáfu bæklinga. Ef þessir bæklingar eru skoðaðir, þá einkennir þá einmitt að þar er einungis að finna greinargerð fyrir kostunum við það að við eigum aðild að Evrópsku efnahagssvæði. En þar er að sjálfsögðu ekki minnst einu einasta orði á nokkurn þann ágalla sem á hefur verið bent. Þetta einkennir t.d. bæklinginn sem utanrrn. gaf út á sl. sumri og sendi inn á hvert einasta heimili í landinu.
    Það hafa fleiri komið þar við sögu að reyna að sannfæra þjóðina um kosti þessa samnings. Vinnuveitendur hafa á skipulegan hátt með miklu auglýsingastríði í blöðum ausið fé til þess að reyna að sannfæra þjóðina um ágæti samningsins. Og sjónvarpið hefur ekki látið sinn hlut eftir liggja. Það hefur skipulagt fjölmarga þætti og þeir einkennast allir af því að þar er einungis vikið að kostunum við það að við

gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. En það hefur greinilega verið bannorð að nefna mætti eitt einasta gagnrýnisatriði eða einn einasta ágalla við þennan samning.
    Ég játa það alveg hispurslaust að við stjórnarandstæðingar höfum átt nokkuð undir högg að sækja áróðurslega séð. Þjóðinni er neitað um að fjalla um þetta mál í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu og samtökum sem einbeita sér að því að vekja á því athygli að á þessu máli eru bæði kostir og gallar er algerlega neitað um allan fjárstuðning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég held að ítarlegar umræður á Alþingi séu óhjákvæmilegar, m.a. til þess að okkur, sem sjáum ýmislegt athugavert við þennan samning, gefist betri kostur á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Umræðum á Alþingi er sjónvarpað og menn verða að sjálfsögðu að skoða það af fyllstu sanngirni að þegar við stjórnarandstæðingar tökum til máls, þá er það ekki vegna þess að við viljum tefja málið. Við höfum engan akk í því í sjálfu sér heldur vegna þess að okkur finnst brýn nauðsyn að dregnar séu fram fleiri hliðar á þessu máli en þær einar sem lúta að kostunum.
    Það eru býsna margir ágallar á samningnum. Ég ætla að nefna nokkra ágalla. Fyrst ætla ég að flytja stutt yfirlit yfir það sem ég tel að séu helstu ágallar þessa samnings.
    1. Það er verulegur ágalli á samningnum að meginmarkmið okkar Íslendinga náðist ekki fram. Við fengum ekki fríverslun með fisk. En þegar samningaviðræður hófust var þetta meginmarkmið okkar Íslendinga og við náðum því ekki fram.
    2. Það er verulegur ágalli á þessum samningi að ekki skuli vera beinlínis óheimilt að þjóðríki styrki sjávarútveg sinn. Það var annað aðalmarkmið okkar þegar við gengum til þessara samninga að slík ákvæði yrðu sett í alþjóðlegan samning. Það náðist hins vegar ekki fram og það er mikill ágalli.
    3. Það er ágalli við þennan samning að við skulum verða að veita Evrópubandalaginu verulegar veiðiheimildir í íslenskri landhelgi og að það skuli beint eða óbeint tengjast tollalækkunum á fiski, að við skulum þurfa að kaupa tollalækkanir á sjávarafurðum með veiðiheimildum í íslenskri landhelgi.
    4. Það er verulegur ágalli, fyrir utan það að veiðiheimildir skulu samþykktar, að opnað er fyrir átök við Evrópubandalagið um áframhaldandi veiðar í íslenskri landhelgi. Því það á að endurskoða fiskveiðisamninginn við Evrópubandalagið með stuttu millibili og það er nokkurn veginn gefið að þeir munu halda sókn sinni áfram á hendur okkur og leitast við á komandi árum að fá nýjar og nýjar veiðiheimildir í trausti þess að við treystum okkur ekki til annars en að gefa eftir.
    5. Það er ljóst að gífurlegur kostnaður fylgir þessum samningi og mestar líkur til að hugsanlegur hagnaður okkar Íslendinga af tollalækkunum á fiski étist upp vegna hins gífurlega kostnaðar sem fylgir því að vera þátttakendur í þessu samstarfi.
    6. Það er ágalli að við erum að reisa tollmúra gagnvart öðrum ríkjum um leið og við erum að fara í þetta samstarf. Það er alls ekki sjálfgefið að það henti okkur og íslensku efnahagslífi að afnema viðskiptahindranir gagnvart Evrópulöndum en auka þær gagnvart ríkjum sem eru utan Evrópu. Það getur í mörgum tilvikum leitt til öfugþróunar og ég tel því að það sé hreinn ágalli að slíkt skuli fylgja þessum samningi. Þó að það sé ekki lögfest í þessum samningi verður ekki á móti mælt að það er partur af þeim hliðarráðstöfunum sem gerðar eru af hálfu ríkisstjórnarinnar í tengslum við þennan samning.
    7. Verið er að veita með þessum samningi 350 milljónum manna réttindi sem við Íslendingar höfum áður einir átt og það lýsir sér með margvíslegum hætti.
    8. Ég vil nefna sérstaklega sem áttunda punkt atvinnuréttindi vegna þess að ég tel að sá þáttur málsins muni leiða til þess að hér muni atvinnuleysi aukast. Það er hætt við því að ásókn ófaglærðs verkafólks á íslenskan vinnumarkað muni verulega aukast en aftur á móti muni mjög margir menntamenn leita sér atvinnu erlendis. Sú verður þróunin að við skiptum annars vegar á ófaglærðu fólki frá Evrópu en látum af hendi í staðinn menntamenn sem leita sér vinnu í Evrópu.
    9. Ég vil nefna að það er fylgifiskur þessa samnings að öryggisgirðingar sem settar voru upp í lögum um erlenda fjárfestingu eru rifnar niður. Margt af því sem stjórnmálaflokkar komu sér saman um fyrir tveimur árum að ættu að vera lágmarkskröfur gagnvart fjárfestingu erlendra fyrirtækja þeirra á Íslandi er nú hent út í buskann og nokkur meginákvæði þeirra laga að engu gerð. Þetta er stór ágalli.
  10. Það er alveg ljóst að íslensk fyrirtæki í þjónustu, einkum og sér í lagi bankastarfsemi, tryggingum, hvers konar verslun og viðskiptum, svo og flutningastarfsemi, verða í sérstakri hættu eftir gerð þessa samnings og allt í óvissu um hvernig þeim reiðir af.
  11. Það er alveg ljóst að verði orkufyrirtækin í landinu einkavædd er gífurleg hætta á því að þessar auðlindir hverfi úr eigu Íslendinga í hendur erlendra auðfélaga.
  12. Sá ágalli er á þessum samningi, og kannski er það stærsti og örlagaríkasti ókosturinn, að þeir aðilar í EFTA sem eru að gera með okkur þennan samning eru flestir á leið út úr Evrópska efnahagssvæðinu að nokkrum árum liðnum og við kunnum að sitja ein eftir EFTA-þjóðanna í Evrópska efnahagssvæðinu þótt þessi sami samningur henti okkur bersýnilega verr en öllum hinum.
    Þetta eru þeir 12 meginágallar sem ég tel að séu á þessum samningi og ég ætla að fara um þá nokkrum frekari orðum.
    Ég vil fyrst víkja að spurningunni um fríverslun með fisk. Ég vek athygli á því ef það hefur farið fram hjá einhverjum að við njótum ekki almennra tollalækkana á sjávarafurðum eftir gerð þessa samnings. Þar verða mjög margar undantekningar og það mikilvægar undantekningar. Ég minni á að þegar um

er að ræða niðurlagðan og niðursoðinn ufsa, ferskan karfa og skarkolaflök, lifandi fisk að laxi undanskildum, heilan, ferskan og frosinn fisk, þá er þorskur, ýsa, ufsi, lax, síld og grálúða undanskilin, reyktan urriða, regnbogasilung, þurrkaðan saltfisk, flattan saltfisk, heilan, ferskan og frystan urriða, regnbogasilung, tilreykt, niðurlagt eða niðursoðið fiskmeti, ferska bleikju, íslenskan hörpudisk, heilan ferskan og frystan karfa er tollurinn einungis lækkaður. En það á áfram að vera nokkur tollur á þessum vörutegundum, allt upp í 6% eins og verður á niðurlögðum og niðursoðnum ufsa.
    Svo eru aftur aðrar sjávarafurðir þar sem tollurinn lækkar alls ekki. Ég tel ágætt að fá það fram í umræðunni hvaða sjávarafurðir eiga þar í hlut. Það verða áfram óbreyttir tollar á ferskum síldarflökum, 18%. Það verða áfram 13% tollar á reyktum laxi. Það verða áfram 12%, tollar á heilum íslenskum humar og humarhölum, 12% tollur á heilsaltaðri og hausskorinni síld, á niðurlagðri síld 10%, á niðurlögðum laxi 5,5%, á ferskum laxaflökum 2%, af heilum ferskum og frystum laxi 2%. Á öllum þessum afurðum eru tollarnir óbreyttir. Við verðum sem sagt að sætta okkur við það að við höfum afnumið alla tolla á vörum sem Evrópuþjóðirnar flytja til Íslands, og það eru meira að segja tíu ár síðan við gerðum það, en við eigum að þola það að allar þær sjávarafurðir sem ég hef nú nefnt verði áfram tollaðar og á sumum þeirra lækkar tollurinn alls ekki.
    Þetta er ekki jafnræði í viðskiptum. Þetta eru svik við þær hugsjónir sem við bundum vonir við þegar við hófum þessa samningsgerð. Og það sem verra er er að í ýmsum tilvikum er um að ræða afurðir sem binda má töluverðar vonir við að geti orðið aukning í í útflutningi okkar Íslendinga. T.d. er okkur ljóst að allar sjávarafurðir sem veiði er ekki hafin á í dag en kann að verða veiði á á næstu árum vegna áforma um meiri fjölbreytni í íslensku sjávarfangi verða með fullum tolli. Ýmsir vaxtarmöguleikar í íslenskum þjóðarbúskap lenda því einmitt í því að fullur tollur verði þar á.
    Þetta er ákaflega mikill galli á þessum samningi og bara þetta eina atriði hefði kannski nægt til þess að við stöldruðum og spyrðum okkur sjálf: Eigum við að halda áfram í þessari samningsgerð? Er ekki rétt að setja hnefann í borðið og krefjast þess að útflutningur sjávarafurða njóti nákvæmlega sömu réttinda og útflutningur iðnaðarvara?
    Við settum okkur það markmið að sjávarfurðir yrðu tollfrjálsar og ríkisstyrkir yrðu bannaðir. Á þeim grundvelli ákváðum við alþýðubandalagsmenn að láta gera þá tilraun hvort hægt væri að ná samningi sem hefði svo hagstæð ákvæði. En við verðum að játa eftir á að þessi tilraun mistókst einfaldlega. Þetta náðist ekki fram.
    Og ekki er það atriði síður mikilvægt sem lýtur að ríkisstyrkjunum. Við megum ekki vernda veikan iðnað okkar gagnvart harðri samkeppni frá Evrópu. Við megum t.d. ekki vernda okkar skipasmíðaiðnað --- ég ætla nú að koma að skipasmíðaiðnaðinum sérstaklega á eftir --- en við megum ekki vernda ýmiss konar iðnað sem við höfum verið að byggja upp á liðnum áratugum, heldur höfum við orðið að láta hann í samkeppnina og talsvert af honum hefur einmitt mátt þola það að molast niður og verða að engu vegna þessarar samkeppni. En þegar kemur að því að við eigum að flytja til þeirra vörurnar sem við bindum mestar vonir við mega þeir vernda sínar sjávarafurðir. Þetta er auðvitað bein kjaraskerðing fyrir okkur Íslendinga. Þeir eru beinlínis að halda niðri fiskverðinu erlendis með þessum hætti og því var þjóðarnauðsyn að með þessum samningi yrði komið í veg fyrir að Evrópuþjóðirnar héldu áfram að ausa styrktarfé í sjávarútveg og halda þannig lífskjörum Íslendinga niðri.
    Það er dálítið kaldhæðnislegt að ein grein iðnaðar sleppur. Það er sem sagt leyfilegt á einu sviði iðnaðar að halda styrkjakerfinu áfram og það er einmitt sú iðngrein sem ég nefndi áðan, þ.e. skipasmíðar. Þær má áfram ríkisstyrkja. Við höfðum nefnilega gert okkur vonir um að geta byggt upp mikinn skipasmíðaiðnað í tengslum við okkar sjávarútveg. En auðvitað er það eftir öðru að þá er því komið þannig fyrir að einmitt þennan iðnað áskilja þeir sér allan rétt til þess að halda áfram að ríkisstyrkja og koma þannig í veg fyrir að við Íslendingar getum byggt upp okkar skipasmíðaiðnað.
    Tímans vegna vil ég ekki fjalla um hvert og eitt af þeim atriðum sem ég nefndi áðan sem meginágalla þessa samnings en ég ætla næst að víkja að kostnaðinum við gerð hans. Það er alveg ljóst að allar upplýsingar sem hæstv. utanrrh. hefur látið frá sér fara um fjárhagslegt gildi samningsins eru ákaflega lítils virði. Í útreikningum hæstv. ráðherra tíðkar hann t.d. að meta tollalækkanir á saltfiski okkur Íslendingum að fullu til tekna, 100%. Hið rétta í málinu er að tollalækkanir á saltfiski koma mörgum aðilum til góða, ekki bara okkur Íslendingum. Í fyrsta lagi koma þeir til góða neytendum á viðkomandi markaðssvæði í lækkun vöruverðs og þær geta líka orðið til að auka hagnað milliliða erlendis. Ég tók eftir því að einn ágætur forustumaður Sambands ísl. fiskframleiðenda var spurður að því í sjónvarpi fyrir skemmstu hvort við Íslendingar fengjum ekki meginpartinn af tollalækkunum á saltfiski sem í vændum væru. Hann taldi það af og frá og var auðvitað með þeim orðum að gera lítið úr fullyrðingum hæstv. utanrrh. um þetta efni. Hann taldi kannski hugsanlegt að við fengjum helminginn af þessum lækkunum í okkar hlut.
    Síðan komum við að kostnaðarhliðinni. Það er ljóst að við Íslendingar verðum að taka þátt í tugum ef ekki hundruðum nefnda sem tengjast þessu samstarfi. Öllu þessu nefndastarfi fylgja mjög margar utanlandsferðir, dagpeningar og annar ferðakostnaður. Ég held að það sé ekki ofreiknað að þar séu nokkur hundruð milljónir í auknum kostnaði fyrir okkur Íslendinga vegna þessa samstarfs. ( ÖS: Þetta er atvinnubótavinna.) Það er rétt hjá hv. þingflokksformanni Alþfl. að vissulega má líta á það sem atvinnubótavinnu, eins og hann benti á, fyrir sérstaka tegund manna á vinnumarkaði. Ég vil ekki gera lítið úr þeim mönnum sem þar yrðu ráðnir til starfa. Þar fengju sjálfsagt margir ágætis menn störf við sitt hæfi, prýðilegir menn margir hverjir. En þeir verða ekki ódýrir. Ég er hræddur um að við útreikning á þeirri viðmiðunartölu sem við alþýðubandalagsmenn höfum verið með í þinginu þegar við höfum gert tillögu um að auka atvinnu og áætlað að það mundi kosta 2 millj. kr. á starf --- við höfum gert tillögu um að auka atvinnu fyrir 1.500 manns og höfum áætlað að það mundi kosta í auknum útgjöldum ríkissjóðs 3.000 millj. --- höfum við ekki beinlínis haft erindreka hæstv. utanrrh. í huga því að þar þyrfti áreiðanlega að fimmfalda kostnaðinn við hvert starf í það minnsta.
    Þar við bætist að sjálfsögðu að fjölga þarf verulega í föstu starfsliði sendiráða erlendis. Sá kostnaður hefur enn ekki verið áætlaður en ég hygg að hann telji nokkur hundruð millj. þegar allt er talið saman. Það verður á fleiri en einum stað og býsna margir ráðnir til starfa ef að líkum lætur. Síðan kemur til viðbótar beinn tilkostnaður af okkar hálfu, framlög í sjóði og annað þess háttar. Þegar allt er talið er því ekki ósennilegt að sá kostnaðarauki sem hér yrði á ferðinni yrði einhvers staðar á bilinu 500--1.000 millj. kr. Það er alveg ljóst að þessi kostnaður hefur verið mjög vantalinn en aftur á móti hagnaðurinn af samstarfinu mjög ofáætlaður.
    Ég nefndi hér áðan sem meginágalla á þessum samningi að við værum að veita 350 milljónum manna réttindi á Íslandi sem Íslendingar hefðu einir áður haft. Við erum í raun og veru að veita 350 milljónum manna nokkurs konar aukaríkisborgararétt hér á landi með þeim réttindum sem því geta fylgt. Nánast flest af réttindum sem felast í ríkisborgararétti fylgja með í kaupunum nema helst almennur kosningarréttur. Það er einmitt kjarnapunktur og kemur fram í samningnum aftur og aftur að það er bannað að veita Íslendingum nein sérréttindi umfram aðra þegna á samningssvæðinu. Þeir fá því m.a. sömu réttindi til að kaupa bújarðir eða laxveiðihlunnindi eða eignast útivistarsvæði á Íslandi eins og þegnar þessa lands njóta.
    Frá því að fyrst var farið að tala um Evrópskt efnahagssvæði hefur verið um það rætt að við yrðum að setja skýra fyrirvara í samninginn sem gerði okkur kleift að koma í veg fyrir að 350 milljónir manna fengju sama rétt til íslenskra bújarða og íslensks lands og við Íslendingar núna njótum. Því miður hunsaði hæstv. utanrrh. þessa ósk og engin slíkur fyrirvari var settur. Ráðherrann hélt því hins vegar löngum fram að hægt væri að ákveða slíkt með lögum. Það væri hægt að koma slíkum girðingum að í lögum sem tryggðu okkur Íslendingum þennan rétt. Hins vegar hefur komið á daginn að þetta stenst ekki. Það verður aldrei hægt að setja neinar girðingar í lög sem hindra sérréttindi Íslendinga hvað varðar eignarhald á bújörðum.
    Í þinginu hefur verið flutt frv. þar sem leitast var við að setja upp girðingar af þessu tagi. Gallinn á frv. er hins vegar augljóslega sá að um leið og þar eru sett afar ströng skilyrði um kaup á jörðum gagnvart útlendingum neyðumst við að sjálfsögðu til að setja nákvæmlega jafnströng skilyrði gagnvart Íslendingum sjálfum. Ég er nokkuð sannfærður um að ákvæði af því tagi sem hér hefur verið gerð tillaga um mun aldrei standast einfaldlega vegna þess að þéttbýlisbúar munu aldrei una við að svo ströng skilyrði séu sett. En á sama tíma munu bændur óttast að eignir þeirra verði gerðar verðlausar vegna þess að engin leið sé að selja þær. Það er afar hætt við því að þegar girðingar af þessu tagi eru settar upp, sem verða að vera þannig að þær gildi jafnt um Evrópubúa eins og þéttbýlisbúa á Íslandi og alla Íslendinga, verði afleiðingin sú að jarðirnar falla í verði og hvorki þéttbýlisbúar né bændur vilji við það una. Þess vegna er eins víst að jafnvel þótt slík lög yrðu sett mundu menn gefast upp á öllu saman að fáum árum liðnum og neyðast til þess að opna allar gáttir. Og þá erum við í nákvæmlega sömu sporum og áður. Þá höfum við opnað 350 milljónum manna leið til að kaupa upp íslenskar bújarðir, íslensk útvistarsvæði og íslensk laxveiðihlunnindi.
    Ég nefndi áðan þann ágalla að öryggisgirðingar í lögum um erlenda fjárfestingu hefðu verið rifnar niður og ætla að víkja nokkrum orðum að þeim punkti. Í lögum sem sett voru á árinu 1991 með atfylgi allra stjórnmálaflokka var m.a. kveðið á um að eignarhluti erlendra aðila í flugfélögum á hverjum tíma skyldi ekki fara fram yfir 49% ef um væri að ræða flugfélag sem stundaði flugrekstur hér á landi. Þetta ákvæði var að sjálfsögðu sett til þess að reyna að tryggja það á öruggan hátt til frambúðar að Íslendingar hefðu forræði yfir íslenskum flugmálum, flugfélögum sem störfuðu hér á Íslandi. Þetta var öryggisgirðing sem hafði það hlutverk að vernda íslenskan flugrekstur. Ein af afleiðingunum af samþykkt samnings um Evrópskt efnhagssvæði er einmitt sú að þessa öryggisgirðingu er verið að rífa niður og allt er opnað hvað varðar samkeppni erlendra flugfélaga á íslenskum flugmálamarkaði.
    Ég nefni annað dæmi. Í þessum lögum var ákveðið að heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi á einu almanaksári mætti ekki fara fram úr 250 millj. kr. án sérstaks leyfis. Þetta var öryggisgirðing sem við settum upp fyrir tveimur árum og átti að tryggja að ekki yrði um gífurlegar fjárfestingar erlendra aðila í íslensku atvinnulífi að ræða, t.d. uppkaup á íslenskum fyrirtækjum án þess að stjórnvöld hefðu auga með því og gætu gripið í taumana ef þau teldu ástæðu til og þörf á. En þessi öryggisgirðing er ein þeirra sem núna er verið að rífa niður.
    Ég nefni enn eitt dæmi. Í lögunum um erlenda fjárfestingu stóð, með leyfi forseta: ,,Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskrh.``
    Hér var sett upp öryggisgirðing sem átti að tryggja það að ekki gæti á hljóðlátan hátt og án nokkurs eftirlits opinberra aðila gerst sú veigamikla breyting á íslensku atvinnulífi að erlendir aðilar keyptu sig skyndilega inn í heilan atvinnuveg og næðu þar undirtökum með því að eignast meira en 25% af eigin fé

í ákveðinni atvinnugrein. En þetta er ein af mörgum öryggisgirðingum sem verið er að rífa niður með gerð þessa samnings. Það er grátlegt til þess að vita að lög sem voru sett fyrir aðeins tveimur árum síðan með atfylgi allra stjórnmálaflokka, góðri samstöðu í þinginu, skuli vera tætt í sundur með þeim hætti sem raun ber vitni aðeins tveimur árum síðar.
    Ég vék að því áðan að það væri ágalli á þessum samningi hvernig atvinnumálum yrði háttað og að útlendingar fengju atvinnuréttindi á Íslandi til jafns við Íslendinga með tiltölulega einföldum hætti í svo ríkum mæli sem samningurinn gerir ráð fyrir. Við Íslendingar höfum verið svo hamingjusamir á undanförnum áratugum að hér hefur verið hlutfallslega lítið atvinnuleysi miðað við það sem gerst hefur í nálægum löndum. Í mörgum Evrópulöndum er atvinnuleysið 5--10%. Í sumum Evrópulöndum er atvinnuleysið 10--20% og í einstaka Evrópulöndum er atvinnuleysið þaðan af meira. Þá er ég að tala um löndin sem hugsanlega eiga aðild að væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er vissulega að breytast á Íslandi í tíð þessarar ríkisstjórnar og atvinnuleysi hefur þrefaldast á skömmum tíma. En auðvitað er það ljóst að ef inn á íslenskan vinnumarkað flæðir vinnuafl á komandi missirum og árum í einhverjum mæli verða þessar tölur býsna fljótar að breytast og atvinnuleysi, sem er í dag þrisvar sinnum meira en áður var eða eitthvað í kringum 4%, getur verið komið upp í 14%, jafnvel 24% áður en nokkur veit af. Í Evrópubandalaginu eru nefnilega 13 milljónir manna án atvinnu og þarf ekki nema örlítið brot af þeim fjölda að leita til Íslands til þess að atvinnuleysi hér fari upp úr öllu valdi.
    Ég veit að ýmsir háskólamenntaðir menn renna hýru auga til þessa samnings út frá því sjónarmiði að þeir eigi aukna möguleika á atvinnuréttindum í Vestur-Evrópu eftir gerð samningsins. Þetta hefur verið talið fram sem kostur við samninginn. Þetta er einn af þeim kostum sem hæstv. utanrrh. hefur fjölyrt um og ég ætla ekkert að gera lítið úr að þetta er kostur við samninginn. En það fylgir um leið ágalli og sá ágalli er fólginn í því að ófaglært fólk kann að streyma til Íslands þar á móti í talsvert ríkum mæli. Og það verða vond skipti, ekki vegna þess að fólkið sem þarna á hlut að máli sé neitt verra en við Íslendingar í sjálfu sér, auðvitað ágætisfólk. En við höfum lagt í mikinn kostnað við að mennta okkar háskólafólk og mundum hugsanlega sjá af nokkrum þúsundum þeirra til annarra landa með auknu atvinnuleysi á Íslandi á meðan til okkar streymdi fólk sem hefði enga þekkingu á íslenskri tungu, þekkti ekkert til íslenskrar sögu og væri auðvitað ekki eins hæft að takast á við íslenskan veruleika og þeir sem hér eru bornir og barnfæddir.
    Það er líka ljóst að samningsstaða verkalýðshreyfingarinnar mun verulega versna við gerð þessa samnings. Forgangsréttur heimamanna til vinnu verður ekki tryggður til lengdar eftir gerð samningsins.
    Hæstv. utanrrh. hefur gjarnan minnt á að í þessum samningi felist mikil tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og má stundum skilja af talsmönnum ríkisstjórnarinnar þegar menn láta í ljós viðhorf sín til mála um áramót að þau tækifæri gætu kannski breytt einhverju verulegu varðandi atvinnuástand hér á landi. Auðvitað er þetta ekkert annað en blekking, hin hörmulegasta blekking sem haldið er að landslýð. Því þótt það kunni að vera ákveðin tækifæri fólgin í að tollar lækki á útfluttum sjávarafurðum á vissum sviðum, þá munu fiskarnir sem dregnir eru á land ekki verða neitt fleiri eftir en áður. Þeir verða nákvæmlega jafnmargir og vinnan við sjávarútveginn mun ekkert aukast við það að tollarnir lækki. Hún gæti kannski aukist í vissum tilvikum en hún minnkar sennilega í öðrum tilvikum. T.d. er alveg ljóst að öll þau tækifæri sem verið er að tala um í sambandi við útflutning á ferskum fiski muni hafa í för með sér minni vinnu við sjávaraflann innan lands en áður var.
    Þess vegna er það ekkert annað en blekking að reyna að halda því fram að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði muni einhverju breyta hvað varðar atvinnuástand hér á landi. Svo er ekki. Það er viðurkennt, bæði af mér og öllum öðrum, að hann getur falið í sér bætta rekstrarafkomu fyrirtækja í sjávarútvegi vegna þess að einstaka fyrirtæki fær eitthvað meira í sinn hlut ef tollar eru lækkaðir en það mun því miður ekki hafa í för með sér aukna atvinnu vegna þess einfaldlega að útfluttur sjávarafli mun ekki aukast að magni til.
    Ég nefndi áðan sem einn verulegan ágalla á þessum samningi að ýmiss konar þjónusta og verslun yrði í verulegri hættu og ætla að fara um það örfáum orðum frekar. Ég held að erlend fyrirtæki muni hasla sér völl í bankastarfsemi, fjármagnsþjónustu og á sviði tryggingamála. Ég er sannfærður um að erlend fyrirtæki munu ryðjast inn í verslunargeirann af talsverðu afli þegar fram líða stundir. Ég er ekki að segja að það gerist í einni svipan en ég er alveg sannfærður um að sterkir erlendir verslunaraðilar munu ná undirtökum í vissum geirum viðskipta og verslunar á Íslandi að fáum árum liðnum ef þessi samningur verður gerður. Ég er sannfærður um að erlendir aðilar munu komast inn í flutninga á sjó og í lofti í stórauknum mæli frá því sem hefur verið.
    Ég spyr: Hvaða áhrif mun þetta hafa á þjóðartekjur Íslendinga? Ég minni á að sérfræðingar Verslunarráðsins spáðu því fyrir nokkrum árum að svo kynni að fara að erlend stórfyrirtæki næðu hér undirtökum í verslun og þjónustu allt að 30% á nokkrum árum ef þessi samningur yrði gerður. Ég spyr: Hvaða áhrif hefði það á þjóðarframleiðsluna ef t.d. 30% af viðskiptum og verslun hvers konar í landinu, þar með talin ýmis þjónusta í fjármagnsstarfsemi, bankastarfsemi, tryggingum og í flutningum yrði komin í hendur erlendra aðila? Ég get ekki svarað þessari spurningu, en ég hefði talið að þeir sem hafa undirbúið þennan samning og eru að bera hann fram á Alþingi hefðu átt að gera einhverja grein fyrir þessari hlið málanna. En ég get leyft mér að fullyrða að hæstv. utanrrh., sem á að teljast aðaltalsmaður samningsins á Alþingi, hefur aldrei svo mikið sem vikið að þessari hlið málsins einu einasta orði. Hann hefur ekki haft hugrekki til þess að horfast í augu við þá staðreynd að þarna verða verulegar breytingar á með tíð og tíma og að þetta felur auðvitað í sér ekki bara beint tap Íslendinga hvað þjóðartekjur og landframleiðslu varðar heldur líka eitthvert atvinnuleysi á viðkomandi sviðum vegna þess einfaldlega að störfin flytjast til meginlandsins. Einkum á það við um stöður yfirmanna á viðkomandi sviðum vegna þess að rekstrinum verður í auknum mæli stjórnað frá heimalandinu, frá einhverju Evrópulandinu, en ekki eins og nú er að honum sé stjórnað á Íslandi.
    Ég er alveg sannfærður um að á þennan hátt muni meira tapast bæði í vinnuafli og í gjaldeyri en vinnst með tollalækkunum á sviði sjávarútvegs. Þetta hefði kannski ekki litið alveg eins illa út ef íslenski sjávarútvegurinn hefði notið jafnréttis á við iðnaðarvörurnar þannig að við Íslendingar hefðum haft aukna möguleika til að sækja fram á sviði sjávaútvegs og fullvinnslu sjávarafurða og verið sterkari aðilar í hvers konar þjónustustarfsemi við sjávarútveg. Því miður fór það svo að slíkt jafnrétti er ekki fyrir hendi. Sóknarmöguleikar okkar á sviði sjávarútvegs eru bundnir svo takmörkuðum tegundum að sóknarfærið á sviði sjávarútvegs mun skila okkur sennilega minna en því sem við látum af hendi þar sem útlendingarnir sækja inn á okkar markað.
    Ég nefndi það hér sem meginókost við þennan samning að í raun og veru er engin trygging í samningnum hvað varðar orkulindir Íslendinga, þessa mestu auðlind okkar þegar sjávarútvegurinn er frá talinn. Ég viðurkenni það að vísu að meðan sú stefna er í heiðri höfð að opinberir aðilar hafi orkuvinnsluna á hendi má verja sig og ekki bein hætta á ferðum. En ef þeir menn fá að ráða ferðinni sem einkavæða orkugeirann og gefa allt frjálst hvað varðar eignarhald á orkulindum, þá er veruleg hætta á ferð. Þá er sú hætta á ferð að erlendir aðilar komist yfir þessar auðlindir að fáum árum liðnum. Þá geta þeir keypt sig inn í hlutafélög sem stofnuð yrðu til orkuvinnslu ef hlutabréfin yrðu seld á almennum markaði og þá yrði þróunin sú á skömmum tíma að allt þetta svið yrði gefið frjálst og við Íslendingar hefðum þar ekki neina stjórn á.
    Þetta er veruleg hætta sem ekki er ástæða til að gera lítið úr og lýsir því einmitt í hnotskurn hver aðalágallinn á þessum samningi er. Það sem við hefðum helst viljað vernda alveg örugglega og tryggilega til frambúðar, þ.e. jarðirnar og eignarhald á landi og á auðlindum, er allt í uppnámi ef illa er á haldið.
    Ég nefndi það líka að kannski væri stærsti og örlagaríkasti ókosturinn við þennan samning sá að við erum að fara inn í bandalag sem mestar líkur eru á að leysist upp að fáum árum liðnum vegna þess að við verðum ein eftir í því af hálfu EFTA-ríkjanna.
    Þegar farið var út í þessa samninga var rætt um að um tveggja stoða lausn yrði að ræða. Annars vegar yrðu EFTA-ríkin og svo hins vegar Evrópubandalagsríkin. Þessir tveir aðilar ættu að reyna að koma sér saman um reglur sem tryggðu aukin viðskipti milli þeirra og afnám viðskiptahindrana og að þessar tvær stoðir sem samningurinn byggðist á ætti að verða grundvöllur að samstarfi sem byggt væri á jafnrétti. En það fór á annan veg. Samningurinn felur í sér að við erum að lögtaka stóran hluta af lögbók Evrópubandalagsins og gerum það á einu bretti með því að lögtaka þúsundir síðna úr lagakveri Evrópubandalagsins.
    Það er ekkert ofmælt þegar sagt er að slík lögtaka eigi sér ekkert fordæmi í íslenskri sögu síðan Jónsbók og Járnsíða voru lögteknar á Íslandi fyrir 800 árum. Og það sem meira er. Við eigum síðan á hverju ári að taka við nýjum og nýjum lögum frá Evrópubandalaginu án þess að okkur sé ætlað að breyta þar einu eða neinu. Evrópubandalagið setur lögin, ekki EFTA. Evrópubandalagið tekur hinar endanlegu ákvarðanir og það er EFTA-ríkjanna að taka við því sem að þeim er rétt. Þeim er vissulega ætlaður einhver samráðsréttur á undirbúningsstigi en Evrópuríkin eru ekki skuldbundin til að taka tillit til ábendinga sem frá okkur koma um það hvernig þessi löggjöf eigi að vera. Evrópubandalagsríkin taka hina endanlegu ákvörðun. Þetta samstarf byggist því ekki á tveimur stoðum eins og talað var um í upphafi. Hér er einfaldlega um að ræða höfuðbólið annars vegar og hjáleiguna hins vegar. Á hjáleigunni mun síðan fækka ár frá ári á næstu árum þannig að kannski verðum við Íslendingar ein eftir á hjáleigunni þegar komið er eitthvað fram á þennan áratug.
    Auðvitað er það þannig að ráðamenn Íslendinga eru einu ráðamenn EFTA-ríkja sem ekki vilja viðurkenna það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er fyrst og fremst millilending á leið þjóðanna inn í Evrópubandalagið. Þeir eru að reyna að telja fólki trú um að hér eigi að stansa og stíga ekki lengra skref. Alls staðar annars staðar er það viðurkennt að Evrópskt efnahagssvæði er ekkert annað en biðstöð á leið inn í Evrópubandalagið, undirbúningur að fullri aðild. Svo er að sjálfsögðu á Íslandi eins og í hinum löndunum. Ég efast ekki eitt andartak um það að hljóðið í núverandi ráðamönnum verður orðið töluvert annað einu ári eftir að þessi samningur verður gerður hvað varðar fulla aðild að Evrópubandalaginu en það er núna.
    Ég læt ekki hæstv. forsrh. blekkja mig neitt þegar hann er að gefa það í skyn og reyna að telja þjóðinni trú um að það verði staldrað við og stungið við fótum eftir að þessi samningur verður gerður og ekki haldið áfram yfir í fulla aðild. Ég hef merkt það mjög greinilega af ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið hjá ráðamönnum Alþfl., samþykktum sem sjá má að gerðar eru innan Alþfl., m.a. innan ungliðahreyfingarinnar í þeim flokki, og ýmsu sem til fellur innan Sjálfstfl. Ég hef séð nógu mikið frá þessum aðilum til að vita að núna er ekki talið henta að boða fulla aðild að Evrópubandalaginu. Núna er það

látið liggja í þagnargildi að sú umræða mun hefjast af fullum krafti strax eftir að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er kominn í höfn. Og áreiðanlega hafið þið fleiri en ég tekið eftir saknaðartóninum í hæstv. forsrh. þegar hann hefur verið að ræða um það í fjölmiðlum seinustu dagana að nú séu Íslendingar í raun og veru að missa af strætisvagninum að sækja um fulla aðild að Evrópubandalaginu ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum. Maður heyrir það alveg á því hvernig hann tekur til orða að hann hefði heldur kosið að Íslendingar hefðu orðið samferða hinum Norðurlandaþjóðunum í umsókn um fulla aðild að Evrópubandalaginu. En hann telur það ekki pólitískt raunsætt að tala um það nú eða bera fram neina ósk í þá átt. Ég bið ykkur að minnast þessara orða minna eftir eitt ár, minnast þess sem ég segi nú að það verður talað um fulla aðild Íslands að Evrópubandalaginu á allt annan og ákveðnari hátt af hálfu forustumanna í Alþfl. og Sjálfstfl. að nokkrum mánuðum liðnum, ég tala ekki um eftir svo sem eitt ár, en nú er gert, en nú er talið pólitískt raunsætt eða heppilegt.
    Við alþýðubandalagsmenn erum þeirrar skoðunar að Íslandi eigi ekki að verða aðili að Evrópubandalaginu. Við teljum hins vegar að með aðild að Evrópsku efnahagssvæði sé sporið stigið meira en hálfa leið inn í Evrópubandalagið og því sé brýn nauðsyn að stinga þegar við fótum og stíga ekki þetta skref því ella er verið að flækja okkur í netinu. Við getum nefnilega náð nákvæmlega sama árangri og næst í þessum samningi hvað varðar viðskiptamál með tvíhliða samningi við Evrópubandalagið. Við alþýðubandalagsmenn vorum því eindregið hlynntir að gerður væri samningur við Evrópubandalagið um viðskipti fyrir 20 árum og tókum þátt í því af fullum krafti, enda áttum við þá viðskrh. Þá var samningurinn um sjávarútvegsmál, sem allir þekkja, gerður við Evrópubandalagið gerður og í kjölfar þess bókun 6. Sá samningur, sem er bráðum 20 ára gamall, þarfnast endurskoðunar. Það þarf að taka hann upp og gera hann miklu viðameiri og fjölbreyttari eins og við reyndar höfum gert tillögu um. Út úr slíkum tvíhliða samningi náum við nokkurn veginn alveg því sama og Evrópska efnahagssvæðið gefur okkur. En við sleppum við flesta þá galla, þá ókosti sem ég hef hér verið að rekja og það er auðvitað mergurinn málsins.
    Virðulegi forseti. Nú fer ég að ljúka máli mínu en vil að endingu varpa fram spurningunni: Fyrir hverja er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði? Fyrir hverja er hann góður? Er hann góður fyrir sjávarútveg? Jú. Ég neita því ekki að með þessum samningi fást mikilvægar tollalækkanir sem ég er ekki á nokkurn hátt að vanmeta. En ég vek á því athygli að áfram verða tollar á mjög mörgum mikilvægum útflutningsvörum okkar á sviði sjávarútvegs, bæði þeim sem við flytjum nú út og þeim sem ekki eru á skrá en gætu kannski falið í sér ýmsa möguleika. Jafnhliða er það staðreynd að samkeppnisaðstaða Íslendinga gagnvart Norðmönnum versnar beinlínis við gerð samningsins. Að því leyti væri hann betur ógerður og betur kominn á ruslahaugana og reyndar aldrei að vita nema hann lendi þar á endanum. En það er ekkert verra fyrir Íslendinga að átta sig á því að hvað varðar samkeppnisstöðuna við Norðmenn væri samningurinn betur ógerður en gerður.
    Ég hef nefnt veiðiheimildirnar sem við látum fyrir tollalækkanir. Ég hef nefnt það að við eigum nú fyrir höndum stanslausan slag við Evrópubandalagið um veiðar þeirra í íslenskri landhelgi, sennilega á hverju einasta ári. Því má draga þessa niðurstöðu saman í tvær setningar og segja: Þessi samningur er góður fyrir nokkurn hluta fiskverkenda en hann er vondur fyrir aðra, þar á meðal íslenska sjómenn, enda hygg ég að flestir íslenskir sjómenn séu eindregið andvígir þessum samningi eins og fram hefur komið í ályktunum samtaka þeirra.
    Menn spyrja sig þá að því: Er þessi samningur ekki góður fyrir iðnaðinn? Það er erfitt að sjá að þessi samningur breyti miklu til hins betra fyrir íslenskan iðnað vegna þess að íslenskur iðnaður fékk tollalækkanir vegna útflutnings íslenskra iðnaðarvara fyrir meira en áratug síðan. Þegar maður fer að rýna í gögn frá talsmönnum iðnrekenda og átta sig á því hvað þeir sjá í þessum samningi rekur maður augun í það að þeir telja helst von í því að þeir hagnist á þessum samningi með því að erlendir aðilar komi inn í myndina og bjóði niður þjónustu- og fjármagnsgreinar á Íslandi og við það að þjónustan, fjármagnsiðnaðurinn, bankastarfsemin og flutningastarfsemin lendi í aukinni samkeppni innan lands muni staða þeirra batna. Það er út af fyrir sig ekkert fráleitur hugsunarháttur. Það er ákaflega líklegt að erlendir aðilar kynnu í ýmsum tilvikum að reyna að undirbjóða íslenska þjónustu- og verslunaraðila til að ná fótfestu í íslensku atvinnulífi. Þá mundu íslenskir iðnrekendur hagnast á því. En við skulum þá horfast í augu við bara allt dæmið. Þá er málið þannig að ef erlend stórfyrirtæki ryðja burtu íslenskum fyrirtækjum í þjónustu og verslun og drepa þau með aukinni samkeppni, þá hagnast íslenskur iðnaður. Þannig er rökfræðin í þessu máli. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Er þá endilega víst að hin endanlega niðurstaða sé hagstæð fyrir heildina? Er endanlega víst að það sem er gott fyrir iðnaðinn sé gott fyrir þjóðarheildina? Ég dreg það mjög í efa. Ég óttast að það sem iðnaðurinn græði muni tapast vegna þess að aðrir þættir íslensks atvinnulífs veikist.
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi samningur er hvorki hagstæður fyrir sjómenn né bændur. Það þarf reyndar ekki að eyða frekari orðum að þeim þætti málsins. En hann er heldur ekki hagstæður fyrir íslenskt launafólk að því leyti að hann getur vel átt eftir að hafa í för með sér aukið atvinnuleysi, bæði vegna þess að það er verið að drepa niður íslenska starfsemi á sviði verslunar og viðskipta og líka vegna innflutnings á erlendu vinnuafli. Aftur á móti skal ég vera fyrstur til að viðurkenna að þessi samningur getur verið hagstæður fyrir fjármagnseigendur sem eiga kost á því að flytja fjármagn sitt til annarra landa og ávaxta það þar. En er endilega víst að það sé mjög hagstætt fyrir þjóðarheildina að fjármagnið flytjist úr landi? Það er svo aftur önnur spurning.

    Ég held að þessi samningur sé mjög hagstæður fyrir þá sem vilja flytja úr landi. En er það endilega víst að það sé hagstætt fyrir þjóðarheildina að horfa á eftir menntamönnum flytja af landi brott, háskólafólki sem við höfum kostað miklu til að mennta? Ég held að það sé mjög vafasamt. Og ég held að það geti verið hagstætt fyrir iðnaðinn að erlent fyrirtæki undirbjóði íslensk fyrirtæki á sviði verslunar og viðskipta. En ég óttast að það sé ekki góð niðurstaða fyrir þjóðarheildina.
    Það læt ég vera mín lokaorð að þetta mál verður að sjálfsögðu að skoða frá tveimur hliðum en ekki bara frá einni hlið eins og hæstv. utanrrh. hefur leyft sér að gera og sjónvarpið tekið upp eftir honum með mörgum löngum þáttum um málið án þess að víkja nokkurn tíma að einu einasta gagnrýnisatriði, einum einasta ágalla á þessum samningi en telja eingöngu fram kostina. Það eru bæði kostir og gallar á þessum samningi eins og ég hef verið að rekja. Þegar allt er vegið kemur maður vissulega auga á mikilvæga kosti en ágallarnir eru bara miklu fleiri. Og þegar allt er talið saman, þá er niðurstaða mín: Þetta er óhagstætt fyrir þjóðina. Þetta er óhagstætt fyrir þjóðarheildina.