Samningar við EB um fiskveiðimál

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:36:54 (4365)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta utanrmn. sem birt er á þskj. 549 og

fjallar um till. til þál. um staðfestingu samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins.
    Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd:
    1. Samning í formi erindaskipta milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um fiskveiðimál sem gerður var í Óportó 2. maí 1992.
    2. Samning um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu sem gerður var í Brussel 27. nóvember 1992.``
    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um samninga þessa og leggur meiri hluti nefndarinnar til að þeir verði staðfestir af Alþingi eins og færð eru rök fyrir í nefndarálitinu sem ég les nú, með leyfi forseta:
    ,,Allt frá því að viðræður hófust 1976 milli Íslands og Evrópubandalagsins (EB) um samstarfssamning um fiskveiðimál hefur utanríkismálanefnd fylgst með þessum viðræðum á ýmsum stigum málsins. Umfjöllun nefndarinnar um hugsanleg samskipti Íslands og EB á sviði fiskveiðimála hefur þó verið mest á sl. tveimur árum og tengist því að í samningaviðræðum EFTA og EB um Evrópska efnahagssvæðið lagði Evrópubandalagið mikla áherslu á að Ísland og EB gengju frá tvíhliða fiskveiðisamningi og leystu þannig jafnframt gamalt ágreiningsmál sitt.
    Á fundi utanríkismálanefndar 20. júní 1991 kynntu utanríkis- og sjávarútvegsráðherra tillögur sem ræddar höfðu verið af fulltrúum Íslands og EB í tengslum við ráðherrafund EFTA og EB í Lúxemborg og fólu í sér gerð almenns rammasamnings um fiskveiðimál og samnings um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Á fundi nefndarinnar 22. október skýrðu utanríkis- og sjávarútvegsráðherra frá því að samkomulag hefði náðst við EB um að auk EES-samningsins yrðu gerðir tvíhliða samningar milli Íslands og EB um fiskveiðimál og gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Utanríkisráðherra skýrði nefndinni frá því 14. febrúar 1992 að fyrr þann sama dag hefðu fulltrúar Íslands og EB skipst á yfirlýsingum (erindaskiptum) um gerð samnings um fiskveiðimál er m.a. fæli í sér skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Á fundi nefndarinnar 16. nóvember 1992 kynnti utanríkisráðherra drög að samningum um fiskveiðimál milli Íslands og EB. Annars vegar var um að ræða samning í formi erindaskipta um fiskveiðimál (gagnkvæm skipti á veiðiheimildum) og hins vegar rammasamning um fiskveiðimál og lífríki hafsins. Þingsályktunartillaga um staðfestingu þessara samninga var síðan lögð fyrir Alþingi 30. nóvember 1992 og vísað formlega til utanríkismálanefndar 4. desember 1992. Á fundi sínum 7. desember 1992 ákvað utanríkismálanefnd að óska eftir umsögn sjávarútvegsnefndar þingsins um samningana. Í umsögn meiri hluta sjávarútvegsnefndar er mælt með því að fiskveiðisamningarnir taki gildi sem fyrst. Umsögn meiri hluta sjávarútvegsnefndar er birt sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.``
    Í álitinu segir enn fremur, virðulegur forseti:
    ,,Auk þeirra funda utanríkismálanefndar, sem nefndir hafa verið hér á undan, hefur gerð fiskveiðisamninga milli Íslands og EB oft komið til umfjöllunar á fundum nefndarinnar síðustu mánuði og enn fremur hefur nefndin átt tvo sameiginlega fundi um málið með sjávarútvegsnefnd þingsins, þann fyrri 24. nóvember sl. og þann síðari 19. desember sl. Þá hefur nefndin einnig fengið á sinn fund til viðræðna um málið Jakob Jakobsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Magnús Gunnarsson, forstjóra SÍF, Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóra LÍÚ, Guðjón A. Kristjánsson, formann FFSÍ, Benedikt Valsson, hagfræðing FFSÍ, Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins, Þorstein Ingólfsson, ráðuneytisisstjóra utanríkisráðuneytisins, og Gunnar Snorra Gunnarsson, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
    Sögu samningaviðræðna Íslands við Evrópubandalagið um fiskveiðimál má rekja allt aftur til ársins 1972 þegar Íslendingar gerðu fríverslunarsamning við bandalagið. Þáverandi viðskiptaráðherra, Lúðvík Jósepsson, kynnti fríverslunarsamninginn á Alþingi 13. febrúar 1973, m.a með þessum orðum:

    ,,Annað meginvandamálið, sem við var að glíma í samningagerðinni, var krafa bandalagsins um að binda saman fiskveiðiréttindi bandalagslandanna hér á Íslandsmiðum og almenn viðskiptaréttindi á milli samningsaðila. Lengst af var það bein krafa bandalagsins að ekki yrðu skert fiskveiðiréttindi bandalagslandanna við Ísland frá því sem þau voru fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. september 1972 ef tollfríðindi ætti að veita fyrir íslenskar sjávarafurðir í löndum bandalagsins. Þessum kröfum bandalagsins tókst þó að fá breytt í verulegum atriðum þó að því miður tækist ekki að hnekkja þeim kröfum að fullu. Eins og gengið var frá samningunum að lokum getur bandalagið ákveðið að Ísland njóti ekki þeirra tollfríðinda fyrir útfluttar sjávarafurðir, sem ráðgerð eru í samningunum, telji bandalagið að lönd þess hafi ekki fengið viðunandi lausn á efnahagserfiðleikum sínum vegna ráðstafana Íslands í fiskveiðiréttarmálum. Þessi fyrirvari bandalagsins er auðvitað mjög andstæður hagsmunum okkar þar sem meginhluti okkar útflutnings til bandalagsins er sjávarafurðir. Við undirskrift samningsins í Brussel 22. júlí sl. var það skýrt tekið fram af Íslands hálfu að ef þessi fyrirvari yrði látinn koma til framkvæmda væri framtíð samningsins í hættu.```` Lýkur hér tilvitnun í áliti meiri hlutans í ræðu Lúðvíks Jósepssonar frá 13. febr. 1973. Enn heldur álitið áfram:
    ,,Svo sem rakið er í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samningsins við EB hófust samningaviðræður Íslands og EB um samstarfssamning um sjávarútvegsmál eftir lausn landhelgisdeilnanna við Bretland og Þýskaland og gildistöku bókunar 6 við fríverslunarsamning Íslands og EB árið 1976. Þær stóðu yfir með hléum fram til 1981 og lágu þá fyrir drög að svonefndum rammasamningi. Hins vegar var ágreiningur um skiptingarhlutföll sameiginlegra fiskstofna. Í skýrslu Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra til Alþingis 1982 um utanríkismál er sagt frá samningnum við EB í júlí 1981 með þessum hætti: ,,Þar náðist bráðabirgðasamkomulag um efnisatriði rammasamnings um samstarf, en endanlegt samþykki var háð samkomulagi um kvóta á helstu fisktegundum, loðnu, karfa, og rækju, og skiptingu kvótans. Svo mikið bar í milli í þeim málum að frekari viðræðum var frestað um óákveðinn tíma.``
    Á fundi utanríkismálanefndar 2. desember 1991 var lögð fram frásögn þar sem segir að 7. mars 1989 hafi hugmyndinni um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum verið hreyft á fundi sjávarútvegsráðherra Íslands með framkvæmdastjóra EB sem fer með sjávarútvegsmál. Sama hugmynd var síðan reifuð við framkvæmdastjórn EB á fundum sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands áttu með framkvæmdastjórnarmönnum EB í Brussel 18. apríl 1990.
    Allt frá 1972 hafa Íslendingar lagt áherslu á að þeir geti ekki samþykkt kröfu EB um aðgang að fiskveiðilögsögu Íslands í skiptum fyrir tollaívilnanir fyrir sjávarafurðir á EB-markaðinum. Málið tók nýja stefnu með hugmyndinni um gagnkvæmar veiðiheimildir og nú hefur verið samið um þá lausn að Íslendingar fái hlutdeild í þeirri loðnu sem EB kaupir af Grænlendingum.
    Áhersla skal á það lögð að veiðiheimildum ber að úthluta árlega. Í 4. gr. samningsins um fiskveiðimál og lífríki hafsins segir í 1. tölul.: ,,Aðilar skulu árlega hafa samráð um úthlutanir á veiðiheimildum til hvors aðila með það í huga að ná ásættanlegu jafnvægi í samskiptum sínum á sviði fiskveiða.`` Einnig er vakin athygli á því ákvæði í viðauka A við niðurstöður fiskimálaviðræðna milli Íslands og EB frá 27. nóvember 1992 þar sem segir að beri svo undir að lækka verði aflaheimild annars samningsaðilans, vegna ófyrirsjáanlegra líffræðilegra ástæðna, skuli samningsaðilar tafarlaust ræðast við í þeim tilgangi að koma aftur á jafnvægi. Er mikilvægt að halda þessu tvennu á loft til að minna á þá staðreynd að með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, er hvorki verið að rígbinda aflategundir til langs tíma né útiloka viðræður vegna ófyrirsjáanlegra líffræðilegra ástæðna.
    Minnt er á hugmyndir sem fram hafa komið í umræðum um þetta mál á Alþingi varðandi þann hátt á framkvæmd samkomulags Íslands og EB að unnt verði að nota veiðiheimildirnar til skipta við ríki sem standa utan samningsins. Hljóta slík skipti að koma til álita eins og allt er stuðlar að sanngjarnri og hagkvæmri lausn á þessu langvinna ágreiningsmáli.

    Eins og áður segir vísaði utanríkismálanefnd þingsályktunartillögunni um staðfestingu fiskveiðisamninganna við EB til umsagnar sjávarútvegsnefndar Alþingis og fór hún yfir faglega þætti málsins. Það er hlutverk utanríkismálanefndar að meta hinn stjórnmálalega þátt. Að mati meiri hluta nefndarinnar er hag Íslands best borgið með því að Alþingi veiti ríkisstjórninni tafarlaust heimild til að staðfesta þá samninga sem getið er í tillögunni. Ástæðulaust er nú á lokastigi málsins að tengja ákvörðun Alþingis í málinu við gildistöku EES-samningsins. Með því væri í raun brotið gegn þeirri 20 ára gömlu meginstefnu Íslendinga að ekki skuli blandað saman tollaívilnunum og fiskveiðiheimildum í samskiptum EB og Íslands um viðskiptamál. Niðurstaðan, sem liggur fyrir í samningaviðræðum Íslands og EB um fiskveiðimál og lífríki hafsins, er í samræmi við íslenska hagsmuni.
    Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til við Alþingi að án tafar verði samþykkt heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta þessa samninga fyrir Íslands hönd.
    Undir þetta álit skrifa auk mín, Össur Skarphéðinsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Árni Á. Árnason og Geir H. Haarde.
    Síðan fylgir áliti meiri hluta utanrmn. álit meiri hluta sjútvn. sem ég ætla ekki að reifa sérstaklega að þessu sinni. Það mun verða gert síðar væntanlega af talsmanni meiri hlutans. En ég get þó ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að lesa það sem segir hér, með leyfi forseta, á bls. 10 í þessu áliti. Þar er vikið að því sem snertir deilur sem orðið hafa varðandi svokallað jafngildi því menn hafa deilt um það hvort í samningnum um gagnkvæmar veiðiheimildir sé um jafngildi í veiðiheimildum að ræða. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa það sem hér segir:
    ,,Í upphafi fiskveiðiárs gefur sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð um verðmætastuðla sem notaðir eru til að umreikna aflamagn veiddra tegunda yfir í þorskígildi. Stuðlarnir byggjast á innlendu markaðsverði síðustu 12 mánuðina á undan. Á yfirstandandi ári er verðmætastuðull þorsks 1,00, loðnu 0,05 og karfa 0,41. Samkvæmt því eru því 30 þús. tonn af loðnu ígildi 1.500 tonna af þorski, en 3 þús. tonn af karfa ígildi 1.230 tonna af þorski.
    Evrópubandalagið styðst við svipaðar umreiknireglur. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórnar þess í Brussel er verðmætastuðull þorsks 1,00, loðnu 0,10 og karfa 0,87. Á þeim grunni eru 30 þús. tonn af loðnu ígildi 3 þús. tonna af þorski og 3 þús. tonn af karfa jafngilda 2.610 tonnum af þorski.
    Það er athyglisvert að í báðum tilvikum reiknast hlutur Íslendinga ívið betri en EB, snúið í ígildi þorska. Aftur á móti er varhugavert að staðhæfa að annar aðilinn fari betur út úr skiptunum en hinn því erfitt er að meta með óyggjandi vissu raunverulegt innbyrðis vægi tegundanna tveggja.``
    Ég vil einnig, virðulegi forseti, vekja athygli á eftirfarandi málsgrein úr áliti meiri hluta sjútvn. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Staðhæfingar um að samningurinn [þ.e. samningurinn um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum] stefni yfirráðum Íslendinga yfir eigin lögsögu í hættu þarf að skoða í ljósi eftirfarandi: Skiptin á veiðiheimildum eru afar takmörkuð. Magnið, sem EB má taka, er samkvæmt verðmætastuðlum sjávarútvegsráðuneytisins ígildi 1.230 tonna af þorski. Samkvæmt upplýsingum sjávarútvegsráðuneytisins nam heildarafli Íslendinga ígildi 473 þúsunda tonna af þorski á síðasta ári. Veiðiheimildirnar, sem Íslendingar láta í skiptum við EB, eru því aðeins um fjórðungur prósents, eða 0,26% af heildarafla síðasta árs.``
    Ég tel, virðulegi forseti, að þessi dæmi, sem ég hef hér tekið um þau verðmæti sem hér eru í húfi, sýni að það sé rétt mat hjá meiri hluta utanrmn. að þessir samningar séu þess eðlis að það sé eðlilegt að Alþingi samþykki að heimila ríkisstjórninni að staðfesta þá fyrir Íslands hönd. Ég tel einnig að með þessum samningum hafi tekist samkomulag um langvinnt deilumál á þeim grundvelli að Íslendingar geti vel við unað. Þessar viðræður hafa staðið yfir lengi og þar vísa ég til þeirra pólitísku þátta sem þetta mál snertir sérstaklega. Þessar deilur hafa staðið yfir eins og ég las úr áliti meiri hlutans allt frá árinu 1972 og viðræður með hléum allt frá 1976. Og það sem við okkur hefur blasað sem hér erum nýir á Alþingi og sitjum nú okkar fyrsta kjörtímabil er að við komum raunverulega að þessu

máli þegar það var komið í mjög fastar skorður. Það liggur fyrir að efni hins svokallaða rammasamnings, þ.e. samningsins um fiskveiðimál og lífríki hafsins, er sambærilegt við efni samnings sem fyrir lá þegar á árinu 1981 og eins og segir í skýrslu utanrrh. Ólafs Jóhannessonar frá árinu 1982 þá hafði náðst bráðabirgðasamkomulag um efnisatriði rammasamnings um samstarf en hið endanlega samþykki hafi síðan verið háð samkomulagi um kvóta. Þessi efnisatriði lágu fyrir þegar á árinu 1981. Og ef menn bera textann í þessum samningi um fiskveiðimál og lífríki hafsins saman við þann texta sem lá fyrir árið 1981 þá sjá menn að það hefur raunverulega ekki verið gert annað en að dusta rykið af þeim samningi.
    Varðandi síðan hitt atriðið, hinn samninginn sem hér um ræðir, þ.e. samninginn um gagnkvæmar veiðiheimildir sem gilda til eins árs og byggjast á þessum grundvallarforsendum, annars vegar 30.000 lestum af loðnu og hins vegar 3.000 lestum af karfa, þar komum við einnig, sem erum hér nýir og sitjum okkar fyrsta kjörtímabil á Alþingi, að máli sem hafði verið opnað og lagður grunnur að áður. Eins og ég greindi frá þá var þegar í mars árið 1989 tekið til við að hreyfa því við Evrópubandalagið að til þess að samkomulag mætti við það takast þá kæmi til álita að skiptast á gagnkvæmum veiðiheimildum. Þetta mál hefur verið mjög viðkvæmt og eins og rakið hefur verið hér í ræðum manna sem að þessu máli stóðu í tíð fyrrv. ríkisstjórnar þá hafa sjónarmið varðandi þetta valdið miklum deilum og ágreiningi. En hitt er ekki umdeilt að þetta gerðist á fundi 7. mars 1989. Í áliti minni hluta utanrmn. kemur hins vegar fram að þá hafi menn rætt við Evrópubandalagið um skipti á kolmunna en kolmunni er sameiginlegur stofn og á honum er tekið í hinum tvíhliða samningi um fiskveiðimál og lífríki hafsins. Ég hef því aldrei getað áttað mig á því hvernig menn hafa getað talað um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum og ætlað að benda á kolmunnan sem fisk frá Íslands hálfu þar sem þar er um sameiginlegan stofn að ræða sem gengur á milli svæða og Evrópubandalagið gæti í því efni vísað sérstaklega til Hafréttarsáttmálans eins og kemur raunar fram í minnihlutaáliti utanrmn. Þannig að ég leyfi mér að draga í efa að menn hafi gengið svo blindir, ef ég má orða það svo, til þeirra viðræðna við Evrópubandalagið á árinu 1989 að halda að með því að taka upp viðræður um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum þá hafi þeir verið að taka upp viðræður um skipti á veiðiheimildum er tengjast kolmunna. Ég held að það hafi alltaf legið ljóst fyrir að Evrópubandalagið mundi ekki sætta sig við kolmunna í skiptum fyrir afla á Íslandsmiðum og menn hafi fljótlega rekið sig á að það gengi ekki upp. Þess vegna vík ég nú að þessu að það kemur hér fram í minnihlutaálitinu að það sé kolmunninn sem menn hafi rætt um þegar viðræðurnar hófust um þessa hugmynd að skiptast á gagnkvæmum veiðiheimildum.
    Ég vil einnig láta þá skoðun koma í ljós, virðulegi forseti, að hér er um lausn á þessu gamla deilumáli að ræða. Lausn sem að sjálfsögðu er þess eðlis að í hvert sinn sem sá hluti þessa samnings sem kemur til árlegrar endurskoðunar verður að skoða hana. Að sjálfsögðu verður að skoða það ár hvert hvernig framkvæmd hins árlega samkomulags hefur verið háttað, hvernig skiptin á þessum veiðiheimildum hafa reynst í raun og taka mið af því við framhald málsins. Og það er alveg ljóst að þessi samningur byggist á þeirri grunndvallarhugsun að um sé að ræða veiði á loðnu við Ísland og karfa innan Evrópubandalagsins en um það atriði sé samið árlega og jafnframt einnig hugsanlega um aðra skipan á þessum gagnkvæmu skiptum. Og að því er einmitt vikið hér í meirihlutaálitinu þar sem er vakin athygli á hugmyndum um að menn geti skipst á veiðiheimildum með öðrum hætti en þeim að skip frá Evrópubandalaginu komi og veiði í okkar lögsögu. Mér finnast þær hugmyndir allar hinar athyglisverðustu og hljóta að koma til skoðunar þegar fram líða stundir.
    En meginatriðið málsins í þessu þegar menn líta á hina pólitísku hlið er það að í ræðum allra sem hér hafa talað í hinum gífurlega löngu umræðum um Evrópska efnahagssvæðið --- ég segi allra, að vísu kannski með tveimur eða þremur undantekningum --- hefur komið fram vilji hjá hv. þm. til þess að ná samkomulagi við Evrópubandalagið um greiðari aðgang fyrir íslenskar afurðir inn á markað bandalagsins. Og þó að við Íslendingar viljum ekki tengja saman tollaívilnanir og fiskveiðiheimildir, og gerum það ekki nú og höfum ekki gert það, þá er alveg ljóst að þessari gömlu deilu við Evrópubandalagið frá 1972 verðum við að ýta til hliðar. Við verðum að ýta þessari gömlu deilu til hliðar til þess að eðlileg samskipti verði á milli okkar og Evrópubandalagsins. Þessi samningur á þess vegna ekki beint rætur að rekja til þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu en hann er leifar af gömlum ágreiningi okkar við Evrópubandalagið og það höfum við viðurkennt með þátttöku í viðræðum við bandalagið allt frá árinu 1976 og við erum að leysa það mál með þessu. Það greiðir síðan fyrir því að við tökum þátt í Evrópska efnahagssvæðinu, sama hvort yrði farin sú leið sem Alþb. hefur talað um hér að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópubandalagið og ýmsir aðrir þingmenn hafa tekið undir. Engu að síður þyrfti að leysa þetta gamla deilumál og greiða úr þeim vanda sem var óleystur frá því að fríverslunarsamningurinn var gerður árið 1972. Þannig að við þingmenn komumst ekki fram hjá þessu og mikill meiri hluti manna hér er þeirrar skoðunar að við eigum að treysta tengsl okkar við Evrópubandalagið þótt okkur greini kannski á um leiðir. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við lítum á þennan samning í þessu pólitíska ljósi og áttum okkur á því að það er verið að gera rammasamning um sameiginlega veiðistofna til langs tíma, samning sem raunverulega hafði verið sæst á af okkar hálfu árið 1981. Síðan er til eins árs samið um skipti veiðiheimildum og unnt að taka það mál upp á nýjum forsendum ef þessar forsendur sem við leggjum nú til grundvallar reynast ekki haldgóðar. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, segja hér við upphaf þessara umræðna þannig að mín sjónarmið lægju ljós fyrir um leið og ég hef kynnt hér sjónarmarmið meiri hluta utanrmn.