Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:36:49 (4375)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda gripu stjórnvöld í Ísrael til þeirra aðgerða að vísa brott um 400 manns, flytja þá nauðungarflutningum yfir á

landsvæði Líbanons nokkrum dögum fyrir jól. Málið var tekið fyrir, eins og fram kom einnig í ræðu hv. ræðumanns, af öryggisráðinu þann 18. des. og í ályktun þess, sem samþykkt var samhljóða, kom fram m.a. að þessar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda væru ótvírætt brot á 4. Genfarsáttmálanum um skyldur stjórnvalda á hernumdum svæðum um að framfylgja þar settum reglum. Í annan stað var aðgerðin fordæmd og þess krafist að þessu fólki væri tryggt öryggi við heimkomu, og loks að sérstakur fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna yrði sendur á vettvang til þess að reyna að fá fram lausn á þessu máli.
    Að því er varðar ísraelsk stjórnvöld þá hafa þau tíundað sér til málsbóta einna helst eftirfarandi. Þeir segja að umrætt fólk séu í forustu tveggja hryðjuverkasamtaka, annars vegar svokallaðra Hamas-samtaka, sem þau halda fram að sé stýrt af stjórnvöldum í Íran, og hins vegar hryðjuverkasamtaka sem kenna sig við Islamic Jihad. Því er haldið fram að þessi samtök hafi á samviskunni margvísleg hryðjuverk, m.a. morð á mörgum hundruðum Palestínumanna sem og hryðjuverk innan Ísraels og á hernumdu svæðunum, aftökur án dóms og laga, árásir á skóla o.s.frv. Því var yfirlýst að Hamas lýsti á hendur sér vígi á löggæslumanni, Toli Danof, þann 13. des., sem ísraelsk stjórnvöld gefa sem beina átyllu fyrir þessum aðgerðum.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur þetta mál verið tekið fyrir og skoðað, í fyrsta lagi ákveðið að styðja fordæmingu á þessum aðgerum ísraelskra stjórnvalda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Og það er einkum tvennt, þrátt fyrir málsbætur fram bornar af stjórnvöldum í Ísrael, sem veldur því. Og það er í fyrsta lagi að hér er um að ræða brot á Genfarsáttmálanum svo óyggjandi er talið, og í annan stað er þá krafa um það að þetta fólk eigi rétt á opnum réttarhöldum og það eru þær kröfur sem settar hafa verið fram af hálfu íslenskra stjórnvalda, fyrir utan það að taka þátt í stuðningi við þá ályktun sem þarna er vísað til á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
    Mér barst síðan bréf frá forsrh. Ísraels um þetta mál og svaraði því samstundis. Í bréfi mínu er sett fram af hálfu íslenskra stjórnvalda í fyrsta lagi sú krafa að ísraelsk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að umræddum Palestínumönnum verði séð fyrir nauðþurftum. Og einnig áskorun á hendur stjórnvalda í Ísrael að afturkalla þessa ákvörðun og að tryggja að mál þeirra fái eðlilega meðferð fyrir opnum dómstólum.
    Þessu til viðbótar hefur mér nýlega borist bréf frá utanríkisráðherra Ísraels, sem er út af fyrir sig svipaðs efnis, en þar er lögð á það áhersla að þessi samtök sem hér eiga hlut að máli séu bæði yfirlýstir andstæðingar friðarferilsins, hafi á stefnuskrá sinni að viðurkenna ekki tilverurétt Ísraels, en sér í lagi er lögð á það áhersla að þau hafi með aðgerðum sínum reynt að koma í veg fyrir stuðning við friðarferilinn, bæði innan Ísraels og á hernumdu svæðunum, og það borið fram sem sérstök réttlæting á aðgerðum Ísraels.
    Af minni hálfu er það ljóst að ég stend við það sem við höfum sagt fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, að þessar málsbætur duga ekki og kröfurnar eru á hendur Ísraels um hvort tveggja, annars vegar það mannúðarsjónarmið að tryggja, meðan þetta fólk er ekki aftur komið til heimkynna sinna, að það njóti öryggis og því sé séð fyrir nauðþurftum, og hins vegar að ákvörðunin verði afturkölluð og að þessu fólki verði gefinn kostur á opinni meðferð sinna mála fyrir dómstólum.