Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:23:17 (4399)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Með því að samþykkja aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri Alþingi í raun að afsala sér löggjafarvaldi í mikilvægum málaflokkum til stofnana Evrópubandalagsins í Brussel. Með myndun Evrópsks efnahagssvæðis eru sjálfstæðar þjóðir ekki að gera viðskiptasamning sín á milli heldur er verið, með sama hætti og innan EB, að mynda pólitísk samtök með yfirþjóðlegum stofnunum sem fara eiga með hluta þess valds sem nú er í höndum ríkisstjórna, þjóðþinga og dómstóla.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni að mati færustu sérfræðinga og þjóðin fékk ekki að segja álit sitt á málinu. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri Ísland að tengjast efnahagssvæði þar sem stöðug hnignun hefur verið í efnahagslífi að undanförnu, atvinnuleysi hefur farið vaxandi og lífskjör almennings hafa versnað. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði þjónar alls ekki hagsmunum kvenna.
    Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri tekið mikið óheillaspor. Í stefnuskrá Kvennalistans segir:
    ,,Kvennalistinn vill að Ísland standi utan Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins.`` Ég segi nei.