Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:45:10 (4410)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Alþingi tekur nú brátt til lokaafgreiðslu stórt mál sem mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir okkar þjóð. Íslenskt þjóðfélag er mjög sérstakt á margan hátt, bæði hvað snertir menningu og atvinnulíf. Við Íslendingar höfum lagt áherslu á að eiga gott samstarf við aðrar lýðræðisþjóðir. Á menningarsviðinu höfum við átt mjög gott samstarf við önnur Norðurlönd og er mikilvægt að svo geti orðið áfram.
    Við byggjum okkar velferð í ríkara mæli á viðskiptum við aðrar þjóðir en gengur og gerist. Allt að 3 / 4 hlutar af okkar útflutningstekjum koma frá þjóðum sem innan örfárra mánaða munu tilheyra hinu Evrópska efnahagssvæði. Þegar önnur EFTA-lönd en Ísland gerast aðilar að Evrópubandalaginu er mikilvægt að okkar samningi verði breytt í tvíhliða samning. Ísland má ekki gerast aðili að Evrópubandalaginu.
    Ég mun sitja hjá við afgreiðslu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á Alþingi. Ástæður þess að ég treysti mér ekki til að styðja málið eru m.a. þær að ég er þeirrar skoðunar að málið hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en því var hafnað af meiri hlutanum á Alþingi. Auk þess er sjávarútvegssamningurinn óhagstæður fyrir Íslendinga og í þriðja lagi tel ég að ekki hafi verið haldið nægilega vel á málum hvað snertir íslenskan landbúnað. Þar hefði verið hægt að koma betri vörnum við ef vilji hefði verið fyrir hendi af hálfu stjórnvalda.
    Síðast en ekki síst leikur mjög mikill vafi á því að samningurinn standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Hæstv. forseti. Ég greiði ekki atkvæði.