Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:23:29 (4462)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Eitt var rétt í því sem hæstv. umhvrh. sagði. Hann hafði tekið tímann rétt. Ég mun hafa talað í kringum sjö korter. Hann minntist á sjónvarpsþátt sem ég tók þátt í fyrir voðalega mörgum árum. Ég mælti þar ekki gegn litasjónvarpi heldur mælti ég fyrir því að sjónvarpinu yrði dreift um allt land. Það var inntak og erindi mitt í sjónvarpið á þeim tíma að ég vildi koma sjónvarpinu um allt land áður en hætt yrði við að dreifa sjónvarpinu víðar en þá var orðið og snúið að litvæðingu. Ég vildi sem sagt að fyrst hefðu allir þegnar sama rétt til þess að horfa á sjónvarp jafnvel þó í svart/hvítu væri fremur en hluti landsmanna horfði á litasjónvarp, sem ég í sjálfu sér er mjög hlynntur, og aðrir hefðu ekkert.
    Að ræða mín hafi verið málþófsræða þá ætla ég nú bara biðja hæstv. ráðherra að lesa hana þegar hún kemur í Alþingistíðindunum og þá kemst hann á aðra skoðun ef hann verður þá kominn í gott skap. Því miður var hann í ergelsi sem sjaldan hendir þennan hæstv. ráðherra.
    Varðandi starfshætti Alþingis þá áttum við ef ég man rétt báðir hlut að þeim þingsköpum sem við störfum eftir og vorum ágætlega sammála um þau á sínum tíma og ég þakka honum fyrir þá liðveislu sem hann veitti mér á þeim tíma við að koma því frv. fram.