Karl Steinar Guðnason :
    Hæstv. forseti. Í löngum umræðum sem átt hafa sér stað hér í sölum Alþingis hefur að mínu mati því miður lítið verið rætt um ástæðuna fyrir Evrópuferlinu, tilganginn með auknu samstarfi Evrópuþjóðanna, hugsjónina á bak við myndun Evrópubandalagsins. Hér hefur umræðan öll snúist um formsatriði og oft smáatriði. Hér hefur umræðan einkennst af ættjarðarskrumi og einangrunartilhneigingum, án nokkurra tengsla við þá hugsun, sem bærist með öðru fólki hjá Evrópuþjóðunum.
    Vissulega má til sanns vegar færa að við Íslendingar búum við annan reynsluheim en bræður okkar í Evrópu. Við Íslendingar höfum blessunarlega verið lausir við þau átök, þær ógnir, sem sífellt hafa hrjáð alþýðufólk í Evrópu, hvar styrjaldir, skærur og ofbeldi morðóðra einræðisherra hefur verið fylgifiskur álfunnar.
    Lífskjör okkar Íslendinga og tilvera hefur hins vegar ætíð verið mjög tengd þróuninni í Evrópu. Auðvitað geta menn rifist um það, svo er hægt að gera í öllum málum. Það er hins vegar handhægast að fletta í sögubókum, mannkynssögunni, og sjá staðreyndirnar til að sannfærast um það hve íslenska þjóðin hefur ávallt verið háð þeim lífsstraumum, sem farið hafa um Evrópu. Við höfum nærst á menningararfleifð Evrópuþjóðanna, við höfum líka skapað og aukið við menningarverðmæti Evrópu. Við höfum sótt og gefið.
    Það er sjálfsagt öllum ljóst, sem vilja vita, að Evrópa hefur í aldanna rás verið einn samfelldur blóðvöllur, hvar þjóðir, þjóðabrot og stórveldi hafa att kappi hvert við annað. Hvar furstar, kóngar og keisarar hafa metið það mest að skara eld að sinni köku án tillits til fólksins, án tillits til alþýðunnar sem byggt hefur löndin.
    Á þessari öld hefur Evrópa verið upphafsstaður tveggja heimsstyrjalda. Annars vegar hafa ráðvilltir og spilltir stjórnmálamenn hrundið þjóðum sínum í styrjaldarátök og hins vegar hafa óbilgjarnir, valdasjúkir einræðisherrar vaðið yfir aðrar þjóðir, sem framkallað hefur varnir þeirra, sem ekki hafa viljað láta undan ofbeldinu.
    Hugmyndin um sameinaða Evrópu kemur víða fram. Strax í hildarleik fyrri heimsstyrjaldar og reyndar fyrr komu fram sterkar raddir um samstarf, samvinnu og sameiningu Evrópu.
    Þá má í þessu sambandi minnast á nóbelsverðlaunahafann Stefán Zweig, sem á sínum tíma var víðlesnasti rithöfundur Evrópu. Hann var Austurríkismaður sem ferðaðist mikið, hann var gyðingur sem nasistarnir þýsku flæmdu frá Þýskalandi. Hann mátti þola ofsóknir og bókabrennur þessara ofbeldismanna sem í krafti ættjarðarskvaldurs óðu yfir allt og alla. Stefán Zweig var óþreytandi í að boða sameiningu Evrópu. Hann benti á að eina leiðin til að útrýma tortryggni, úlfúð og nágrannakryt væri sú að þjóðir Evrópu sameinuðust.
    Í skrifum Stefáns Zweig kemur fram að það var fyrst eftir hina villimannlegu styrjöld, sem við köllum heimsstyrjöldina fyrri að þjóðir Evrópu tóku upp vegabréfaskyldu. Það var árið 1918, sem sú landamæragirðing milli fólks í Evrópu var sett upp. Þá var tekið upp á því að umgangast ferðamenn líkt og glæpamenn með hvers konar skriffinnsku og tortryggni.
    Það er alkunna að hreyfingar þær er upp úr aldamótunum kenndu sig við jafnaðarstefnu ásamt ört vaxandi verkalýðshreyfingu boðuðu alþjóðahyggju, samstarf yfir landamæri, samstarf um að breyta ríkjandi þjóðfélagsskipan, samstarf um að færa þungamiðju valdsins frá kóngum, keisurum og spilltu valdakerfi yfir til almennings.
    Þessar hugmyndir hafa allt frá þeirri tíð átt verulegan grundvöll meðal þessara hreyfinga og hefur verkalýðshreyfingin í Evrópu verið mjög virk í þeim efnum.
    Samstarf verkalýðshreyfinga í Evrópulöndum hefur í áranna rás sífellt orðið viðameira. Samstarf sem ekki hefur spurt um landamæri, miklu fremur um hugsjónina um samvinnu, samstarf og afl til að

breyta og bæta, til að vernda friðinn og efla hag fólksins.
    En hugmyndin um sameinaða Evrópu var engin einkahugmynd jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar. Stórbrotnir frjálslyndir hægri menn áttu þessa hugsjón líka. Í frægri ræðu sem Winston Churchill hélt í Zürich í septembermánuði árið 1946 setti hann fram tillögu um bandaríki Evrópu, eins konar sameiningu ríkja álfunnar, sem gera mundi þeim kleift að búa í friði, öryggi og frelsi um ókomin ár.
    Fyrsta skrefið átti að vera að hans dómi, bandalag hinna fornu fjandríkja Þýskalands og Frakklands. Jafnframt lagði hann til að stofnuð yrðu samtök ríkja í Evrópu, Evrópuráðið, sem síðar varð að veruleika. Þessar tillögur hins mikilhæfa breska þjóðarleiðtoga vöktu mikla athygli og urðu kveikjan að nýskipan álfunnar, sem m.a. leiddi síðar til stofnunar Evrópubandalagsins.
    Hugmyndagrundvöllur Evrópubandalagsins er hugsjónin um sameinaða Evrópu. Hugmyndir sem spruttu fram að loknum hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar hvar milljónir og aftur milljónir barna og gamalmenna, ásamt unga fólkinu var brytjað niður á altari haturs, tortryggni og ættjarðarskrums. Það fólk sem eftir lifði í rústum Evrópu, fátækt, allslaust, harmi slegið, þráði frið. Evrópubúar þráðu frið, réttlæti og mannréttindi. Fólkið gerði sér grein fyrir því að eyðileggjandi hatur og mannfyrirlitning gæti ekki og mætti ekki verða framtíðarsýn Evrópu Það var við þessar aðstæður að hafist var handa.
    Árið 1951 höfðu Frakkar og Vestur-Þjóðverjar, fyrrum höfuðféndur, forgöngu um stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu. Nokkru síðar eða árið 1957 stofnuðu þessi tvö ríki og fjögur önnur Efnahagsbandalag Evrópu og Kjarnorkubandalag Evrópu. Stofnanir þessara bandalaga voru síðar sameinaðar árið 1967 og mynda nú Evrópubandalagið. Nú telur Evrópubandalagið 12 þjóðir.
    Höfuðmarkmið þess er að koma á markaðsbandalagi, einum og óskiptum heimsmarkaði þessara þjóða með afnámi allra hindrana í viðskiptum, þjónustu og flutningi fólks og fjármagns þeirra á milli. Þannig var stefnt að efnahagslegri heild þessara tólf ríkja. Nú um áramótin gerðist sá merki áfangi að landamæri ríkjanna voru í reynd afnumin, landamæragæslan var afnumin. Þau eru nú líkt og eitt ríki væri þótt hvert þeirra haldi sjálfstæði sínu á öðrum sviðum. Hugsunin sem að baki liggur er sú að í slíkri samvinnu geti þjóðirnar aukið hagsæld sína, hagvöxt og almennar framfarir í þágu þegnanna.
    En þótt meginaflið í störfum og stefnu bandalagsins beinist að efnahagslegri samvinnu þátttökuríkjanna, myndun eins 340 milljóna manna markaðar á sér önnur markmið.
    Ríkin hafa með sér náið pólitískt samráð og samhæfa utanríkisstefnu sína eftir föngum. Markmiðið er að tryggja frið í álfunni og náin tengsl og vinsamleg samskipti aðildarríkjanna, en meðal þeirra eru hinar fornu fjandþjóðir Frakkar og Þjóðverjar.
    Á mörgum fleiri sviðum stefnir Evrópubandalagið að náinni samvinnu og samhæfingu ríkja sinna. Má í þeim efnum minnast á Maastricht-samkomulagið sem hefur reyndar mátt þola smávægilegar fæðingarhríðir. Þær hríðir munu enda með fæðingu á velhraustu afkvæmi.
    Í umræðum hér á hv. Alþingi hefur margur leyft sér að tala um Evrópubandalagið sem einhvers konar risa eða jötun sem væri tákn þess illa. Þaðan mætti einskis góðs vænta, öðru nær. Hér er um skelfilegan misskilning að ræða eða öfugmæli. Þá hefur hvað eftir annað verið rætt um meint skrifræði og fjölda embættismanna hjá Evrópubandalaginu. Staðreyndin er hins vegar sú að Evrópubandalagið hefur markvisst unnið gegn skrifræði og orðið mjög ágengt í því.
    Þá er rétt að fram komi að þetta bandalag 340 milljóna manna telur 16.300 starfsmenn. Það er allsherjarfjöldi þeirra, sem starfa fyrir framkvæmdastjórnina. Til samanburðar er rétt að geta þess að á meðan Evrópubandalagið og það hræðilega skrifræði sem menn tala um að þar sé fyrir hendi, er ástæða til að líta okkur nær. Opinberir starfsmenn hér á Íslandi eru í ársverkum talið 17.165 á sama tíma og starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins eru 16.300 talsins.
    Í þessari umræðu hafa hv. þm. rætt Evrópumál á breiðum grundvelli þótt dagskrárefnið sé samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er eins konar viðskiptasamningur Íslendinga og annarra EFTA-ríkja við Evrópubandalagið.
    Eftir þá samrunaþróun Evrópu sem ég hef hér að framan rakið er svo komið að hugsjónin um sameiningu Evrópu kemst sífellt nær því að verða að veruleika. Með samstarfi og samvinnu hefur tekist að gera bandalagið sífellt sterkara og myndugra.
    Í styrjaldarlok stóðu þjóðir Evrópu frammi fyrir þeirri staðreynd að þungamiðja heimsins var ekki lengur þar. Þá höfðu tvö ný risaveldi, Sovétríkin og Bandaríkin, tekið það rúm, þá forustu, sem hvíldi áður á Þjóðverjum og Frökkum.
    Nú í dag með hruni Sovétríkjanna, hruni kommúnismans er þungamiðjan að færast á ný til Vestur-Evrópu, Evrópubandalagsins. Það er athyglisvert að helstu talsmenn samrunaferilsins hafa verið verkalýðshreyfingar viðkomandi landa, ásamt jafnaðarmönnum og frjálslyndum hægri mönnum. Helstu andstæðingar hafa verið flokkar yst til vinstri og yst til hægri, t.d. þýskir hægri menn, sem eru svo langt til hægri við Kohl kanslara að oft vill hvorugur af öðrum vita.
    Margrét Thatcher var einnig svarinn andstæðingur samrunaferilsins. Hún sagði í lok ferils síns að hún hefði ekki tekið fyrir kverkarnar á sósíalismanum í Bretlandi til þess að fá hann í gegnum bakdyrnar í Evrópubandalaginu.
    Auðvitað hefur samrunaferlið oft verið erfitt. En það er að takast og það mun takast. Einn stærsti þátturinn hefur verið í því fólginn að afnema viðskiptahindranir innbyrðis. Jafnframt því hafa tollar á varningi þjóða utan bandalagsins verið háir. Það þekkjum við Íslendingar sem þrátt fyrir bókun 6 höfum þurft að sæta býsna miklum viðskiptahindrunum.
    EFTA var á sínum tíma stofnað í framhaldi af stofnun Efnahagsbandalagsins. EFTA-þjóðirnar mynduðu þær þjóðir sem ekki treystu sér til að ganga sömu götu og Efnahagsbandalagsþjóðirnar. Það er laustengdara bandalag sem náð hefur árangri á ýmsum sviðum. Það er hins vegar flestum EFTA-þjóðum ljóst í dag að stakkur þess bandalags er of þröngur. Það er m.a. þess vegna sem flestar EFTA-þjóðirnar hafa sótt um inngöngu í Evrópubandalagið.
    Það er engin tilviljun að bæði Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa sótt um aðild. Þessar þjóðir telja hagsmunum sínum betur komið inni í bandalaginu en utan þess. Með aðild eru þessar þjóðir að tryggja hagsmuni sína, vaxtarmöguleika atvinnuveganna, kjör launþega og að forðast þá einangrun sem annars bíður þeirra. Þessar þjóðir hafa ásamt Íslendingum gert samning um hið Evrópska efnahagssvæði. Það samkomulag er í raun eins og ég sagði áðan eins konar viðskiptasamningur, þar sem EFTA-ríkjunum eru tryggð ýmis réttindi innan bandalagsins, sérstaklega á viðskiptasviðinu, en skuldbindingar fáar.
    Það er ekki enn ljóst hvenær eða með hvaða kjörum áðurgreind ríki fá aðild að Evrópubandalaginu. Því verður það að teljast skynsamlegt að mynda hið Evrópska efnahagssvæði. Ég tel það mjög misráðið af Íslendingum að sækja ekki um aðild að Evrópubandalaginu samhliða hinum Norðurlandaþjóðunum. Ég tel að það sé nauðsynlegt að við könnum með aðildarumsókn kosti og galla aðildar til hlítar.
    Við skulum ekki gleyma því að Evrópa er helsti vettvangur viðskipta okkar og verður það án nokkurs efa í náinni framtíð. Við erum viðskiptalega og menningarlega mjög háðir Evrópubandalaginu. Einmitt það hvað við erum viðskiptalega háðir bandalaginu og tengdir því á annan hátt gerir það að verkum að við verðum að lúta þeim reglum, þeim ákvörðunum, sem Evrópubandalagið tekur. Það að vera einangraðir án tengsla við bandalagið, það að vera áhrifalausir getur reynst sjálfstæði þjóðarinnar hættulegra en nokkuð annað. Ég tel sjálfur skynsamlegra að vera þátttakandi í mótun stefnunnar fremur en að vera áhorfandi. Það er sterkari staða að sitja við borðið með atkvæðisrétt og áhrif fremur en vera utan gátta. Það skilja allir sem tekið hafa þátt í gerð kjarasamninga eða verið trúnaðarmenn á vinnustað.
    Það eru ótvíræðir kostir sem fylgja því að vera samstiga Norðurlandaþjóðunum með aðildarumsókn. Í fyrsta lagi er líklegt að þegar þau verða komin í Evrópubandalagið minnki eða hverfi að mestu áhugi þessara ríkja á sérstakri Norðurlandasamvinnu utan Evrópubandalagsins. Þau munu hins vegar efla Norðurlandasamvinnu sín á milli innan bandalagsins, mynda þar afl sem tekið verður eftir. Norðurlandasamstarfið hefur vissulega gefið okkur Íslendingum mikið. Þar höfum við verið í samstarfi á jafnréttisgrundvelli og notið mikillar velvildar frænda okkar.
    Í dag má sjá merki þess að áhugi Norðurlanda á hefðbundnu samstarfi hefur minnkað. Þeir frændur okkar horfa og tala meira í suður. Þar eru framtíðarhagsmunir þeirra. Ég tel að í samvinnu við hin Norðurlöndin með náinni samvinnu við samninga um aðild muni þeir hins vegar leggja sig fram um að fylgja eftir og sækja hagsmuni með okkar. Í samfylgd munu þeir jafnvel taka á sig byrðar til að fá okkur með. Sú góðvild mun breytast þegar við höfum einangrast, þá er vægi okkar lokið. Eins og ég sagði áðan tel ég skynsamlegt sem næstbesta kost að Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í þingflokki Alþýðuflokksins er ég einn um þá skoðun að okkur beri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Ég er hins vegar þakklátur ungum jafnaðarmönnum að hafa gert ályktun um þetta efni. Unga fólkið er greinilega fordómalausara en hinir eldri, skynjar greinilega vel hvar hagsmunir okkar Íslendinga liggja. Unga fólkið sem hefur ferðast, kynnst því að útlendingar eru fólk með sömu langanir og þrár og við sjálf, skilur æ betur hve styrkur samstöðunnar er mikill fyrir friðinn, fyrir efnahagslegar framfarir, fyrir nýja framsækna og betri Evrópu, hvar þeir smæstu sitja við sama borð og þeir stærstu. Ég trúi því að sá tími komi, að Íslendingar sjái að það hafi verið röng ákvörðun að sækja ekki um aðild nú. Líklega á það fyrir okkur að liggja enn einu sinni að vera 10 árum of seinir að taka réttar ákvarðanir, bregðast rétt við aðstæðum.
    Með viðreisnarstjórninni árið 1960 ákváðum við Íslendingar að afnema höft og skammtanir á öllum sköpuðum hlutum. Það var 10 árum seinna en stríðshrjáðar Evrópuþjóðir gerðu. EFTA var stofnað 1960. Við Íslendingar gengum í EFTA 10 árum seinna, 10 árum of seint. Olíukreppan skall á um 1973. Það var ekki fyrr en 10 árum seinna að við brugðumst við þeim vanda. Vonandi líða ekki 10 ár þar til Íslendingar átta sig á hvers virði Evrópubandalagið er hagsmunum okkar.
    Hér hafa ræðumenn rætt um sjálfstæði þjóðarinnar og lýst áhyggjum sínum af því að með því að tengjast öðrum þjóðum skerði það sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Það er eðlilegt að velta þessum þáttum fyrir sér. Það er hins vegar að mínu mati mikill misskilningur sem fram kemur hjá mörgum að sjálfstæðið sé einhver afmörkuð og ákveðin stærð. Sjálfstæði þjóðarinnar hlýtur að markast af mörgum þáttum og vera viðfangsefni íbúanna að sækja og verja það, hvar og hvenær sem er. Það er hins vegar ótækt að háttvirtir þingmenn verði svo pipraðir í hugsunarhætti að ekkert geti breyst. Allt verði að vera sem fyrr, án nokkurrar hreyfingar, í kyrrstöðu. Orð og yfirlýsingar tryggja ekki sjálfstæðið. Stóryrði og bægslagangur enn síður. Sjálfstæði þjóðarinnar byggist á innri styrk íbúanna, að ég tali ekki um vopnlausrar þjóðar.
    Það hefur verið óskemmtilegt að hlusta á og lesa sumar ræður hv. þm. sem hafa barið sér á brjóst eins og faríseinn forðum og hrópað: ,,Guð minn. Guð minn. Ég þakka þér fyrir að vera ekki eins og aðrir menn.`` Er það greinilega gert í því skyni að ætla öðrum hv. þm. að þeir vilji fórna sjálfstæði þjóðarinnar, bera mönnum á brýn óþjóðhollustu og jafnframt að upphefja sjálfan sig. Slíkur málflutningur er auðvitað í hæsta máta ómerkilegur. Slíkan málflutning leyfi ég mér að nefna ættjarðarskrum.
    Sjálfstæði þjóðarinnar hlýtur jafnframt að fylgja sjálfsákvörðunarréttur. Hvernig hefur sá þáttur breyst á liðnum árum? Á örfáum árum hafa t.d peninga- og gengismál þjóðanna þróast mjög hratt. Í síminnkandi heimi eru þjóðirnar sífellt háðari hver annarri. Tökum sem dæmi hvað sjálfsákvörðunarrétturinn dugði Svíum og fleiri þjóðum lengi eftir að þýski seðlabankinn hafði ákveðið að hækka vexti. Sjálfsákvörðunarrétturinn dugði Svíum aðeins í 17 sekúndur, þ.e þann tíma, sem tekur að senda fax á milli staða. Í þessu tilfelli riðlaðist allt peningakerfi Svía og sænska krónan féll.
    Tökum annað dæmi. Albanía er ríki sem um áraraðir lokaði á samskipti við erlendar þjóðir. Það var svo lokað að þegnarnir voru sem fangar í búri. Vissulega gátu Albanir haldið því fram að þeir væru sjálfstæðir en íbúarnir voru ekki frjálsir. Þeir voru fangar í eigin landi. Fátækt og kúgun afturhaldsseminnar réði ríkjum. Þeir gátu þó alltaf sagt að þeir væru sjálfstæð þjóð. Án afskipta erlendra manna, án samskipta við önnur ríki. Einangruð þjóð. Einangrunarsinnar eru mjög gjarnir á að hafa uppi ómengað ættjarðarskvaldur.
    Þegar Keflavíkursamningurinn var gerður fullyrtu andstæðingar hans að tilkoma hans mundi útrýma íslenskri tungu, eyðileggja menninguna, rústa sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar EFTA-samningurinn var gerður fullyrtu fulltrúar afturhaldsins og vanmetakenndarinnar að Ísland yrði fyrst og fremst útibú erlendra auðhringa og veiðistöð fyrir samevrópskan markað.
    Allt hefur þetta reynst rangt. Þessi hugsunarháttur ber fyrst og fremst vitni um vanmetakennd og ótrú á íslensku þjóðinni. Aldrei hefur íslensk tunga verið jafnsterk og nú. Aldrei hefur íslensk menningin blómstrað eins og einmitt nú. Það er athyglisvert að þeir sem mest slá um sig með ættjarðarskrumi láta sér í léttu rúmi liggja hvernig efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar reiðir af. Í þeim efnum viðurkenni ég að við erum í hættu. Þeir sömu og tala hæst um sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi láta sér skuldastöðu hennar í léttu rúmi liggja. Bera jafnvel fram tillögur um aukna eyðslu, auknar lántökur. Hættan af að missa efnahagslegt sjálfstæði er eina hættan sem við þurfum að óttast. Við höfum sjálf án nokkurrar aðstoðar útlendinga komið okkur í þann vanda, reyndar einkum þeir sem nú taka sér orðið sjálfstæði og fullveldi í munn.
    Samstarf og samvinna við erlendar þjóðir styrkir sjálfstæðið og reisn þjóðarinnar miklu fremur en nokkuð annað. Traust og gott samstarf við skyldar þjóðir mun einmitt reynast okkur betur en nokkuð annað til að tryggja sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Svo hefur reynst hjá öðrum þjóðum. Hverjum dettur í hug að efast um að Danir séu sjálfstæð þjóð? Þeir hafa þó verið meðlimir Evrópubandalagsins um áraraðir.
    Minnast má á annað smáríki, Lúxemborg. Fyrir um 30 árum var Lúxemborg sem eins konar sveitahérað, þar sem kyrrlát íhaldssemi réði ríkjum. Lífskjör voru fremur kröpp. Þeir Lúxemborgarmenn ákváðu að taka fullan þátt í sameiningu Evrópu. Þeir töldu sig best geta verndað og sótt sjálfstæði sitt og fullveldi með því að sitja við borð með öðrum sjálfstæðum þjóðum, hafa áhrif, vera þátttakendur í mótun eigin örlaga. Og hvað hefur gerst? Lúxemborg hefur eflst og vaxið að þrótti. Þar er allt iðandi af lífi í dag. Þeir njóta þess trúnaðar að fara með forustu Evrópubandalagsins öðru hverju. Til þeirra er tekið tillit. Sjálfstæði þeirra er traustara og sterkara en nokkru sinni fyrr.
    Evrópubandalagsþjóðirnar hafa að sönnu tekið á sig ýmsar skyldur hver við aðra. Það liggur í hlutarins eðli. Það á hins vegar ekki vel við að tala um fullveldisafsal í þessu viðfangi. Evrópuþjóðirnar hafa ekki afsalað sér fullveldi sínu í eiginlegum skilningi heldur hafa þær kosið að deila því hver með annarri til að efla hag almennings. Þeim er ljóst að mörg brýn verkefni á vettvangi efnahagsmála og stjórnmála eru þannig vaxin á okkar tímum að þjóðirnar eru betur í stakk búnar að leysa þau í sameiningu en hver í sínu lagi. Það má því segja að Evrópubandalagið sé samvinnuhreyfing í besta skilningi þess orðs.
    Hæstv. forseti. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er sá kostur sem við nú stöndum frammi fyrir. Samningurinn snýst í aðalatriðum um að draga úr viðskiptahindrunum og tryggja aukið frjálsræði í viðskiptum með vörur, þjónustu, fjármagn og frjálsa för vinnuafls þótt í honum séu jafnframt ákvæði um aukið samstarf á sviði mennta, umhverfismála auk fleiri svokallaðra jaðarmálefna.
    Að því er okkur Íslendinga varðar beint mun ávinningurinn einkum koma fram strax í sjávarútvegi þar sem um umtalsverðar tollalækkanir er að ræða á Evrópumarkaði. Þegar á þessu ári og einnig síðar þegar atvinnulífið hefur til fulls fært sér í nyt þá möguleika sem þau tækifæri til aukins útflutnings sem í samningnum felast.
    Reyndar er svo komið að mér er kunnugt um fjölda fyrirtækja sem þegar hafa hafið undirbúning að breyttri og aukinni starfsemi með tilkomu hinna nýju tækifæra. Þar sem ég þekki best til, á Suðurnesjum, er mér kunnugt um að uppi eru væntingar um að geta flutt atvinnuna í auknum mæli inn í landið. Það hefur t.d. verið mikið áhyggjuefni Verkamannasambandsins hve útflutningur á hráefni, óunnum fiski, hefur verið mikill. Helstu hafnarbæir eins og Hull, Grimsby og Bremerhaven hafa hagnast gífurlega á þessum útflutningi. Ísland hefur verið eins konar nýlenda þessara hafnarbæja sem útvegað hefur ódýrt hráefni. Fjöldi verkamanna og verkakvenna í þessum hafnarbæjum hafa fengið atvinnu við vinnslu á íslenskum fiski. Hundruð, líklega nálægt 2 þúsund, störf hafa tapast frá Íslandi vegna þessa útflutnings.
    Nú hafa fjölmörg fyrirtæki, smá og stór, möguleika á að flytja þessa atvinnu heim til Íslands á ný.

Fyrirtæki í sjávarútvegi, hvar ég þekki til, eru á fullu í undirbúningi og aðlögun að breyttum tíma. Nefna má líka fyrirtæki t.d. í Grindavík, sem höfðu búið sig undir gildistöku EES-samningsins um áramót og eiga nú í miklum erfiðleikum vegna frestunar gildistöku.
    Útreikningar á beinum hagnaði okkar Íslendinga vegna tollalækkana segja lítið um hvað fram undan er. Þær tölur segja þó að hagnaðurinn nemi um 2 milljörðum kr. miðað við óbreytta markaðsvöru. Það er aðeins brot af þeim margfeldisáhrifum sem skapast við að flytja atvinnuna heim. Nú verður það nefnilega hagkvæmt að vinna fiskinn heima.
    Þeir sem eru á móti þessum samningi eru að greiða því atkvæði að Ísland verði áfram eins konar nýlenda áðurnefndra hafnarbæja íslensku verkafólki til tjóns. Ég nefni einkum þrennt sem kemur fyrirtækjum í sjávarútvegi vel:
    1. Sömu samkeppnisreglur á öllu svæðinu.
    2. Samræmdir staðlar á öllu svæðinu.
    3. Komið er í veg fyrir tæknilegar viðskiptahindranir.
    Allt skiptir þetta gífurlega miklu máli fyrir smáþjóð sem lifir á útflutningi. Sameiginlegar og samræmdar reglur koma í veg fyrir að stórir aðilar geti mismunað smærri aðilum, t.d. hvað varðar ýmsar sérreglur sem kalla má tæknilegar viðskiptahindranir. Upp úr standa lægri tollar á þeim afurðum okkar sem ættu að geta gefið okkur auknar tekjur og bætta markaðsmöguleika. Bættir markaðsmöguleikar skipta þarna kannski mestu máli því að í sumum mikilvægum vöruflokkum, eins og saltfiskflökum og ferskum flökum, höfum við alls ekki verið samkeppnishæfir. En auðvitað kemur þetta ekki af sjálfu sér. Evrópska efnahagssvæðið hefur ákveðna möguleika sem vinna þarf ötullega að til þess að fá út úr þeim ávinning.
    Þarna skiptir staða Norðmanna líka miklu máli. Nú njótum við betri kjara en þeir á Evrópumarkaði vegna bókunar 6. Fari þeir inn á Evrópska efnahagssvæðið ásamt okkur standa þjóðirnar jafnar. En fari Norðmenn inn og ekki við, þá njóta þeir mun betri kjara en við.
    Því hefur verið haldið fram að bókun 6 og tvíhliða samningur okkar við EB falli niður ef við förum inn á EES og síðan út aftur. Það er ekki rétt. Frá því var tryggilega gengið að allir fyrri samningar við EB stæðu ef einhverjar EFTA-þjóðir færu út úr EES vegna eigin óska. Eins og kunnugt er er samningurinn uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara. Fullyrðingar um erfiðleika við að framkvæma slíkt eru gersamlega úr lausu lofti gripnar.
    Það eru fullyrðingar stjórnarandstöðuleiðtoganna, sem vita að þegar við höfum gerst aðilar að EES muni þeir, ef svo ógæfulega skyldi fara að þeir kæmust einhverju sinni aftur í ráðherrastólana, aldrei láta sér detta í hug að hlaupa aftur inn í forneskjuna og segja samningnum upp. Dæmigert er að þeir, sem töluðu um landráð, svik og landsölu við inngöngu í EFTA minntust aldrei á að segja þeim samningi upp eftir að þeir komust í valdaaðstöðu.
    Mikil gagnrýni hefur komið fram hér á hv. Alþingi á tvíhliða fiskveiðisamning Íslands og EB og hann talinn óhagstæður Íslendingum. Athyglisvert er að það eru einkum stjórnmálamenn sem eru þessarar skoðunar. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru annarrar skoðunar. Má þar t.d. nefna ummæli formanns samtaka fiskvinnslustöðva í Morgunblaðinu á gamlársdag.
    Rétt er að fram komi að Norðmenn borga mun meira fyrir markaðsaðgang en við vegna EES-samningsins og eru í raun að borga fyrir okkur líka. Hvernig væri staða okkar að þessu leyti í tvíhliða samningaviðræðum? Karfinn sem EB fær að veiða hér við land verður eflaust einhver dýrasti fiskur sem veiddur verður á jarðkringlunni.
    Félagi minn ræddi við nokkra aðila úr samninganefnd EB í sumar og voru þeir allir á þessari skoðun. Þeir töluðu m.a. um heimsmet í eftirliti með þessum veiðum og sögðu að þeir hefðu aldrei kynnst annarri eins þvermóðsku og hjá samninganefnd Íslands í þessum samningum. Þessi fiskveiðisamningur er eflaust EB einhver sá óhagstæðasti sem þeir hafa gert.
    EES er fyrst og fremst viðskiptasamningur. Það er verið að koma á efnahagssvæði með sameiginlegum reglum og eftirliti. Slíkt kemur auðvitað minnstu aðilunum mest til góða. Svo virðist sem atvinnulífið skilji um hvað málið snýst fyrst og fremst. Gagnrýni ASÍ snýst heldur ekki lengur um það mikilvægasta að þeirra dómi, þ.e. opnun vinnumarkaðarins. Svo virðist sem fólk sé nokkuð sátt við lausn þeirra mála ef marka má ályktanir síðasta ASÍ-þings, þar sem m.a. segir að með starfi sambandsins að Evrópumálum hafi verkalýðshreyfingin náð verulegum árangri. Gagnrýni innan raða ASÍ á EES-málið snýst mikið um önnur atriði, fyrst og fremst um þjóðaratkvæðagreiðsluna, en einnig er um mikla hræðslu að ræða gagnvart öllu erlendu sem stjórnmálamenn hafa mjög spilað á. Ég vil sérstaklega geta þess að á þingi ASÍ á Akureyri kom ekki fram tillaga um að leggjast gegn samningnum um EES.
    Mér finnst margir hv. alþm. hafa tekið nokkuð létt á málinu. Þeir þykjast vita meira um afleiðingar fiskveiðisamningsins en útgerðarmenn og sjómenn. Þeir láta sér í léttu rúmi liggja hvort og hvenær málið nær fram að ganga.
    Þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa ekki sýnilegar áhyggjur af vandamálum sumra fyrirtækja á Suðurnesjum vegna þess að gildistaka samningsins hefur tafist og þeim atvinnutækifærum sem kunna að vera í hættu vegna þess.
    Hv. alþm. spá mikið í ýmis smáatriði og útúrsnúninga og hafa í rauninni lítið rætt um kjarna málsins, sem eru viðskiptahagsmunir. Alla vega hefur það ekki komið neins staðar fram að þeim hafi tekist að

greina kjarnann frá hisminu.
    Sumar yfirlýsingar eru hreint út í hött eins og t.d. ummæli Steingríms Hermannssonar á gamlársdag í Ríkisútvarpinu um veðhæfi fiskiskipa og eiginfjárkröfu bankanna. Þar talaði hann um eftiröpunarhátt okkar hvað varðar reglur frá EB og tók reglur um veðhæfi sem dæmi. En hvernig á að vera hægt að hafa sérstakar reglur hér á landi um þessi mál þegar fjármagnsmarkaðurinn er orðinn opinn í allar áttir?
    Stærsta skrefið í þá átt var reyndar tekið í mars 1991 af ríkisstjórn hans sjálfs. Það gefur auga leið að ef við ætlum að tengjast öðrum þjóðum viðskiptalega séð, t.d. með opnum fjármagnsmarkaði, þá getum við ekki haft allt aðrar reglur á því sviði en aðrar þjóðir sem við eigum í samvinnu við. Hvaða stöðu hefðu t.d. íslenskar lánastofnanir á erlendum fjármagnsmörkuðum ef hér giltu einhverjar allt aðrar reglur en þar? Í þessu sambandi skiptir líka miklu máli að stærstu skrefin varðandi opnun fjármagnsmarkaðarins voru stigin vorið 1991, af fyrrverandi ríkisstjórn, með lögunum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Þau lög breytast ekki með aðild Íslands að EES en margir virðast hafa gleymt því eða kjósa að horfa fram hjá því í dag.
    Hæstv. forseti. Ég ræddi um það fyrr í ræðu minni að hugsjónir verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmanna í upphafi aldar voru mjög markaðar þrá hins vinnandi manns eftir friði, mannréttindum og réttlátara þjóðfélagi. Verkalýðshreyfingin, verkafólk um alla álfuna, hóf samstarf og samvinnu. Í þeim efnum voru engin landamæri. Verkalýðshreyfing Evrópulanda hefur aldrei látið sig landamæri miklu skipta heldur unnið saman.
    Helgreipar kommúnista og leppa þeirra á Vesturlöndum klufu verkalýðshreyfinguna að vísu í herðar niður en meðal frjálsra þjóða í Evrópu var hugsjónin meira virði en landamæri.
    Við upphaf Evrópusamrunans heyrðust raddir innan Evrópskrar verkalýðshreyfingar um að Efnahagsbandalagið væri bandalag kapítalistanna fremur en annað. Sú tortryggni eyddist fljótt því helstu stjórnmálaforingjar jafnaðarmanna og aðrir frjálslyndir menn í samvinnu við verkalýðshreyfinguna ákváðu að breyta myndinni, láta til sín taka og móta framtíðina. Síðan hefur verkalýðshreyfingin verið mjög sterkur stuðningsaðili Evrópusamrunans.
    Evrópubandalagið er ekki lengur bandalag stórfyrirtækja hafi það nokkurn tíma verið það. Bandalagið er nú lifandi afl sem er meira og minna mótað af nútíma velferðarhugsun og ber félagsmálasáttmáli Evrópu þess glöggt vitni. Því til staðfestingar er rétt að hafa í huga að verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum hefur verið mjög virk í baráttunni fyrir stækkun Evrópubandalagsins og þátttöku Norðurlandanna. Andstæðingar Evrópusamningsins hafa hins vegar birst í gervi þýskra heittrúarmanna til hægri og Margréti Thatcher.
    Hér í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið hefur það fallið í hlut hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, Hjörleifs Guttormssonar, Steingríms Hermannssonar og fleiri að vera lagsbræður Thatcher og þýskra hægri manna. Látum vera þótt menn með kommúníska fortíð spili þá rullu. Kommúnistar í Evrópu gegndu því hlutverki á sínum tíma.
    Þáttur hv. þm. Steingríms Hermannssonar og Ólafs Ragnars er sýnu verri. Þegar þeir gegndu ráðherraembættum voru þeir miklir stuðningsmenn Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir skipta hins vegar um skoðun líkt og þeir skipta um stóla. Hringekjumenn. Það er mér hins vegar ráðgáta hvers vegna þeir leggjast gegn ótvíræðum þjóðarhagsmunum í því skyni að koma höggi á ríkisstjórnina. Mér er það líka ráðgáta hvers vegna þessir þingmenn Reykjaneskjördæmis leggjast gegn þessum samningi sem mun skapa fjölda nýrra atvinnutækifæra og veita vinnufúsu atvinnulausu fólki nýja von, ný tækifæri og bjartari framtíð. Verkafólk á Suðurnesjum sem er atvinnulaust í hundraðatali á þessa tvöfeldni, þessa köldu kveðju, ekki skilið. Atvinnulaust fólk hrópar á skýringar.
    Hæstv. forseti. Sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar verður ekki varið með því að einangra hana og forðast skynsamlegt samstarf og samninga við aðrar þjóðir.
    Bók hins virta stjórnmálamanns, Knuts Frydenlund, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, ber nafnið ,,En bedre oragnisert verden`` eða Betri skipan heimsins. Titillinn lætur ekki mikið yfir sér en í bókinni eru margar dýrmætar perlur.
    Hver er boðskapurinn? Lítil og fátæk lönd eru því vön að teknar séu ákvarðanir þvert ofan í vilja þeirra. Þess vegna hafa þau alltaf unnið að alþjóðlegum samningum og reglugerðum og barist fyrir traustum og sterkum alþjóðastofnunum. Stór lönd hafa ekki þessar þarfir. Þau geta tekið sínar eigin ákvarðanir án þess að spyrja okkur.
    Evrópska efnahagssvæðið er einmitt samningur sem tryggir stöðu þeirra smáu gagnvart þeim stóru. Fátt tryggir betur stöðu smáþjóðar sem okkar Íslendinga betur í dag.
    Margir hafa lesið Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness. Þar segir frá tugthúsvist þeirra Jóns Hreggviðssonar og Ásbjörns Jóakimssonar. Þar var líka Hólmfastur Guðmundsson frá Vatnsleysuströnd, sem var dæmdur til húðláts fyrir að hafa selt fjóra fiska fyrir snærisspotta í Hafnarfirði í stað þess að leggja fiska þessa inn hjá Keflavíkurkaupmanni, en því verslunarumdæmi var bær hans talinn heyra samkvæmt nýskipan konungs að skipta versluninni í umdæmi.
    Þeir sem leggjast gegn þessum samningi eru að andmæla frelsi í viðskiptum, frelsi til athafna. Þeir eru í raun fulltrúar kaupmannavaldsins sem fangelsaði Hólmfast Guðmundsson. Hugsunarhátturinn er sá sami. Viljinn til að hindra framfarir og frelsi.

    Á dögum Hólmfasts Guðmundssonar voru meira að segja snærisspottar mikils virði. Stjórnarandstaðan hefur í málflutningi sínum vikið þjóðarhagsmunum frá. Þeir telja flokkspólitískan áróður, rangfærslur og þjóðhverfu meira virði en nokkur snærisspotti var Hólmfasti á sínum tíma. Þeir félagar héldu uppi samræðum í tugthúsinu á Bessastöðum og að því kom að Hólmfastur sagði: ,,Já. Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.`` ,,Þú hefðir betur hengt þig í spottanum``, sagði Jón Hreggviðsson. Það verður líka dómur sögunnar um stjórnarandstöðuna.