Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:08:17 (4472)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort það er verra að hafa ættjarðarskrum eða Evrópuskrum. Varðandi Suðurnesin blasir það við að enn einu sinni er verið að reyna að finna einhverjar patentlausnir í stað þess að leysa vandann. Einu sinni var það herinn, álverið og nú er það EES en á meðan gera stjórnvöld ekkert til að leysa vandann og sveitarstjórnir á Suðurnesjum eru orðnar langþreyttar á að vera bara vísað á EES.
    Samlíkingin um Sambandið var alveg endemis seinheppin því það var einmitt báknið og kerfið sem varð Sambandinu að falli rétt eins og mun verða í því sambandi sem maður sér draumsýnina í Evrópu.
    Varðandi rangfærslu vil ég segja það að þessir 17 þúsund opinberu starfsmenn á Íslandi eru að meðtöldum kennurum og lögregluþjónum og ýmsum fleirum og ég er hrædd um að 16 þúsund manna starfsliðið í Evrópubandalaginu væri orðið dálítið fjölmennara ef við teldum alla kennara og lögregluþjóna Evrópubandalagsins með.