Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:57:16 (4534)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Herra forseti. Áðan var sagt að Kvennalistinn hefði boðað til samráðsfundar síns með mjög löngum fyrirvara. Vel má vera að svo sé. En gagnvart okkur sem sitjum á fundum þingflokksformanna var fyrirvarinn ekki lengri en svo að þetta var fyrst tilkynnt á fundi á þeim vettvangi nú í dag, þ.e. löngu eftir að farið var að tala um að halda fund á laugardeginum. Þetta vildi ég að kæmi fram.
    Líka er nauðsynlegt að það komi fram að auðvitað er gerður greinarmunur á landsfundum flokkanna, stærstu fundum flokkanna, landsfundum, flokkráðsfundum, aðalfundum, miðstjórnarfundum eða hvað sem þeir heita, og einhverjum öðrum flokksfundum. Það er rétt að tekið er tillit til landsfundar Sjálfstfl. jafnt sem aðalfundar Alþb. þegar svona stendur á, en ekki hefur verið venja að taka tillit til minni háttar fundarhalda enda hafa þeir þá vikið fyrir fundum á Alþingi. Kannski mætti benda á að margir þeir sem óska eftir því að ekki verði fundur á morgun halda því fram að hér sé verið að ræða mikilvægasta mál lýðveldissögunnar, en Alþingi Íslendinga getur beðið og á að bíða eftir því að samráðsfundi Kvennalistans ljúki þó verið sé að ræða mikilvægasta mál lýðveldissögunnar. Væri ekki möguleiki að flytja þann fund fram á sunnudag eða finna einhvern annan tíma fyrir þann fund?
    En ég hlýt að láta það koma fram, virðulegi forseti, að við erum auðvitað í óvenjulegri stöðu. Þess er krafist að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur umræðurnar. Frá því fyrir jól hefur verið vitað að hann er að fara utan um helgina í krafti embættis síns að sinna opinberum erindum. (Gripið fram í.) Vonandi kemur hann aftur, já. Það er ekki samþykkt af hálfu stjórnarandstöðunnar að ljúka málinu meðan hann er í landi. Stjórnarandstaðan heimtar að utanrrh. sé viðstaddur fundina en fellst ekki á að ljúka málinu meðan hann er á landinu. Það kom fram í máli ráðherrans sjálfs hvaða tímafrestir eru vegna funda á vettvangi EFTA og EB. Auðvitað gengur þetta ekki upp og það er skylda forseta þingsins meðan menn eru á mælendaskrá í máli sem þessu að útvega tíma til þess að umræður geti farið fram. Forseti hefur gert það, forseti bauð upp á að fundur yrði í kvöld og fram eftir nóttu ef það mætti vera til þess að komast hjá fundi á laugardeginum. Það þótti mér ágæt tillaga. Þar með var komið til móts við óskir þeirra sem ekki vildu funda á morgun, þá hefði verið hægt að halda hér áfram og ljúka þeirri mælendaskrá sem skyndilega spratt upp í morgun í þessu máli, jafnþrautrætt sem það annars er að flestra dómi.
    Virðulegi forseti, ég tel sjálfsagt að kanna það við forseta hvort hugmynd forseta um að halda fund í kvöld standi ef fólk vill endilega falla frá fundinum á morgun en ella tel ég einboðið að funda eins og boðað hefur verið á morgun.