Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 19:00:47 (4535)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformaður Alþfl. er afar fundaglaður maður og hann leggur það jafnan til að hér séu fundir öll kvöld og allar nætur ef hann fær því viðkomið en sem betur fer eru flestir aðrir ekki eins fundaglaðir og hann og vilja hafa eðlilegt form á vinnu þingmanna svo menn séu nokkurn veginn með fullu viti þegar þeir eiga að ræða alvarleg mál.

    Samráðsfundur Kvennalistans hefur komið mjög til umræðu og það er svo að þetta eru fundir sem við höldum u.þ.b. 3--4 sinnum á ári og jafngildir kannski miðstjórnarfundum í öðrum stjórnmálaflokkum. Á þá fundi koma konur alls staðar að af landinu og eru boðaðar. Fundirinn er ákveðinn með löngum fyrirvara og auðvitað er ekkert einfalt mál að fresta honum um einn dag.
    Ég skildi það svo í upphafi vikunnar þegar byrjað var að ræða um þinghaldið að menn ætluðu að vera á fundum frá klukkan hálfellefu á morgnana og fram undir sjö á kvöldin, jafnvel aðeins lengur ef á þyrfti að halda til þess að menn lykju ræðum sínum. Enda þótt hv. 17. þm. Reykv. legði alltaf til lengri fundi og forseti neitaði því aldrei að svo gæti orðið að hér yrði fundur á laugardegi þá datt mér einfaldlega ekki í hug að það yrði fundur á laugardegi vegna þess að þegar við ákváðum upphaf 2. umr. kom manni ekki annað til hugar en að EES-málinu mundi ljúka í dag. En þá gerist það að hæstv. utanrrh. heldur þvílíka dómadagsræðu að menn hafa orðið að bregðast við og svara ýmsu því sem hann hefur verið að halda fram og síðan bættist við hv. þm. Karl Steinar Guðnason með sínar yfirlýsingar í þessum mjög svo alvarlegu málum. Sú staða hefur því komið upp að málin eru því miður ekki fullrædd.
    Ég held að flestir hefðu óskað þess að við gætum lokið málinu í dag. En auðvitað eru takmörk fyrir því hvað hægt er að halda fundahöldum lengi áfram og það hefur komið fram að menn eru farnir úr bænum. Af því að ég átti erindi inn í þingflokksherbergi framsóknar þá sá ég einmitt að þar uppi á vegg hékk tafla um dagskrá vikunnar og á henni stóð á vélrituðu blaði ,,Laugardagur, engir fundir``. Menn hafa því ekki gert ráð fyrir því að hér yrðu fundir og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur sjálfum utanrrh. sem ætti að vera það mikið kappsmál að ljúka málinu. Hann talar þannig að menn komast ekki hjá því að svara honum.
    En það er ákvörðun forseta að fundur verði á morgun og við í stjórnarandstöðunni mótmæltum því, þetta er ákvörðun forseta og það hefur komið fram að við erum henni ósammála.