Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 13:41:37 (4558)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar spurningar sem hv. þm. beindi til mín þá er því til að svara að á vegum umhvrn. starfar nú nefnd sem er að gera úttekt á frárennslismálum um land allt. Hún hefur skilað áfangaskýrslu. Hún heldur áfram starfi. Mér sýnist mjög lauslega reiknað, og varnagli sleginn um leið, að þær úrbætur sem reikna má sérstaklega með að gera þurfi vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem eru umfram það sem sveitarfélög hafa þegar ákveðið --- þá er ég að tala sérstaklega um sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem að þessar framkvæmdir eru dýrastar og mestar --- mér sýnist að sá kostnaður gæti hugsanlega, og þá er líka verið að tala um alllangt árabil, numið kannski 700--900 millj. kr. og er þá sennilega heldur rúmt reiknað.