Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:05:42 (4565)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var nú í raun og veru ekki andsvar við minni ræðu þannig að ég sé nú í sjálfu sér ekki ástæðu til að svara því miklu. Ég vil bara nota tækifærið og vekja athygli á því að það var þá aldeilis þegar kom að því að hv. þm. hélt ræðu um þetta EES-mál, að hún var aldeilis stórbrotin og málefnaleg og með miklum rökstuðningi, sérstaklega upphafið. Ég leyfi mér að vekja athygli á þessari miklu snilld þegar hv. 3. þm. Suðurl. loksins geysist hér í ræðustólinn. Hann notaði tíma sinn vel, ( Gripið fram í: Kom hann því ekki fyrir þér?) talaði aðallega um munnvídd, og ferst honum það auðvitað vel, það er ljóst. Enda hefur vinur hans og kunningi í Eyjum, Sigmund, teiknað hann í samræmi við það.
    Nei, ég held það sé ekki ástæða til þess að svara svona löguðu miklu og við getum deilt um það hvert sé viðhorf íslenskrar sjómannastéttar til þessa máls. Hún hefði fengið að segja álit sitt ásamt með öðrum stéttum landsins ef hún hefði fengið að kjósa um málið. Ég er ekkert hræddur um það að íslenskir sjómenn hefðu ekki að lokum metið heildarhagsmunina rétt í þessu máli, og þeir væru jafnvel menn til þess að kjósa samkvæmt sannfæringu sinni út frá heildarhagsmunum Íslands, þó að þeir kynnu að meta sína persónulegu hagsmuni eitthvað öðruvísi. Það gætu menn nefnilega þurft að gera. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að einstakir aðilar græði í máli sem í heildina tekið sé svo óhagstætt fyrir þjóðfélagið að það sé ekki svaravert, borgi sig ekki.
    Þannig eru einmitt aðstæðurnar í þessu máli. Og ég get alveg fullvissað hv. þm. Árna Johnsen um það að ég held að aðilar í sjávarútvegi upp til hópa, hvað sem líður endanlegri afstöðu þeirra, séu a.m.k. það mikið betur á vegi staddir heldur en talsmenn samningsins hér inni á Alþingi, að þeir sjá bæði kost og löst á þessu máli. Hvernig þeir vega það svo upp til endanlegrar niðurstöðu, hver og einn, ég er ekki dómbær á það hvernig hlutföll liggja þar. En hef ég a.m.k. áttað mig á því af samtölum mínum við þessa menn að þeir eru það mikið betur á vegi staddir heldur en stjórnarliðar hér að þeir sjá bæði kost og löst í málinu. Mikið kann ég nú betur við að skiptast á skoðunum við slíka.