Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 10:34:28 (4611)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá forseta í upphafi fundar eru allmargir þingmenn fjarstaddir og eru að reyna að komast til þingfundar. Af þeim sökum hefur þegar verið frestað atkvæðagreiðslu um 1. dagskrármál þessa fundar. Ég vil láta það koma fram hér af minni hálfu og míns þingflokks að við teljum óeðlilegt að halda áfram umræðu um 2. dagskrármálið þegar svo margir þingmenn eru fjarstaddir. Ég tel að umræða um sjávarútvegssamninginn sé ekki ómerkilegra mál en um 1. dagskrármálið og bendi m.a. á að annar af okkar sjávarútvegsnefndarmönnum er á leið til þingfundar en sú leið hefur tafist vegna ófærðar eins og kunnugt er. Ég fer því fram á það við virðulegan forseta að umræðu verði frestað hér fram eftir degi þar til ljóst er hvenær þingmenn komast til þingfundar.