Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 11:56:39 (4623)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er slík málsvörn hjá 17. þm. Reykv. að ég veit ekki hvort hann hafði erindi sem erfiði í ræðustól. Það eru náttúrlega hreinir orðaleikir að taka þannig til orða vegna þess að enn voru eftir tveir eða þrír belgískir síðutogarar frá þessum tíma sem allan tímann hafa verið hér. Að þar með sé ekki verið að brjóta í blað, þar með sé ekki verið að hleypa Evrópubandalagstogurum inn í landhelgina á nýjan leik sem ekki eru hér fyrir, þetta er náttúrlega orðaleikur, hv. þm., þetta er ekki efnisumræða. Allir skilja hvernig þetta mál liggur. Þeir belgísku togarar, sem enn eru eftir, eru á útleið. Ens og sást m.a. af meðaltölunum sem hv. þm. nefndi þá veiddu þeir á síðasta ári ekki nema rétt liðlega helming af því sem þeir hafa veitt að meðaltali yfir tímann sem er ágætis vísbending um það hvernig þróunin er. Þessi afli og þessi skip eru að hverfa út úr landhelginni. Þau voru í þorskastríðinu þegar samningurinn var gerður þannig að þeim var aldrei hleypt á nýjan leik inn í íslensku landhelgina. Þetta er því orðaleikur sem gengur ekki upp hjá hv. þm.
    Ekkert nýtt var varðandi samskiptin við Evrópubandalagið og þá gömlu bókun sem þarna var verið að fara eftir þegar fundur var haldinn í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hefur legið jafnoft fyrir og lá fyrir þá að Evrópubandalagið var ekki tilbúið til samninga á þeim grundvelli sem menn voru tilbúnir til af hálfu Íslands. Þar varð breytingin. Allt í einu var samið við Evrópubandalagið og engin vörn er í því fyrir hv. þm. stjórnarliðsins núna, sem ætla að láta sig hafa það að kokgleypa þennan samning, að vísa til þess

að fundur hafi verið haldinn einhvern tímann fyrr á öldinni. Þeir bera jafnmikla efnislega ábyrgð á þeirri niðustöðu, það er hún sem skiptir máli. Það er um það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson greiðir atkvæði en ekki það þó Halldór Ásgrímsson hafi haldið einn fund. Ekki er verið að greiða atkvæði um það, það er verið að greiða atkvæði um þennan fiskveiðisamning sem opnar landhelgina fyrir Evrópubandalaginu.