Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:16:32 (4641)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri óskynsamlegt að bjóða þann loðnukvóta til kaups handa útgerðarmönnum á Íslandi undir þeim formerkjum að það ætti að veiða hann innan grænlenskrar lögsögu og undir þeim reglum sem þar um gilda vegna þess að það yrði erfiðara fyrir þá og hentugra að veiða hann innan íslenskrar lögsögu. Þeir mundu ekki geta veitt hann að öllum líkindum. Það er nákvæmlega það sem ég átti við. Þá fengju önnur íslensk skip að veiða þessa loðnu. Menn mundu ekki vilja borga mikið fyrir það.
    Svo var afar merkilegt að heyra þá yfirlýsingu --- það er gott að hún komi sem oftast fram --- að þessi kvóti, 3.000 tonn af karfa sem á að veiða innan íslenskrar lögsögu er ekki til. Það er einhver nýr fiskstofn sem er að synda inn í lögsöguna handa EB til að veiða. Það er ekki gert ráð fyrir því í úthlutun á veiðiheimildum og það er bara hægt að bæta við. Er þá ekki hægt að bæta við einhverju meiru?