Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:55:33 (4655)


     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú orðin satt að segja hálfundarleg þráhyggja. Við höfum allt frá 1972 tjáð okkur reiðubúna til þess að semja um rannsóknir og eftirlit með fiskstofnum. Við höfum alltaf gert það og þótt það væru ekki allir ánægðir með samninginn sem lá fyrir 1981, þá var afar erfitt að neita þeim samningi sem þá lá fyrir en það strandaði á veiðiheimildum. Það strandaði á því að við bentum á kolmunnann eins og við höfum alltaf gert og þeir lýstu ekki áhuga á kolmunnanum. Þetta er bara staðreynd málsins.
    Á árinu 1989 er ákveðið eins og allir vita að skoða hvort megi skipta á veiðiheimildum en við töldum okkur ekki fært að benda á annan fisk en kolmunnann og það var ekki heldur áhugi fyrir því svo að ég held að málið liggi út af fyrir sig algerlega ljóst fyrir. Að sjálfsögðu kom ekki til mála að hafna því að halda áfram þeirri viðleitni sem við höfðum beint eða óbeint gengist undir með samningnum frá 1972--1976 að gera tilraun til þess að ná samningi.