Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:40:56 (4694)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er alveg merkilegt að hæstv. sjútvrh. ætlar að falla í sama pytt og hæstv. utanrrh. að ofmeta hluti. Ræða hans í gær var alveg ótrúleg. Það var alveg ótrúlegt að hlusta á hann. Þó hann hafi töluvert dregið í land í dag var alveg ótrúlegt að hlusta á ræðu hans í gær.
    Hann talaði mikið um reisn í sinni ræðu, en ég verð að segja að það var ekki mikil reisn yfir málflutningi hans. Þetta var ein samfelld varnarræða í stað þess að vera heiðarlegur, standa upp og segja: Því miður, okkur mistókst. Okkur tókst ekki að ná jafnvægi gagnvart veiðiheimildum. Hver einasti maður á Íslandi sem eitthvað þekkir til sjávarútvegs veit að þetta eru ekki jafngildar heimildir. Það er ekki jafngilt að fara á Grænlandsmið og veiða loðnu, sem hæstv. sjútvrh. viðurkenndi í gær að er mjög duttlungakenndur fiskur, og að fara yfir á Íslandsmið og veiða karfa sem er okkar aðalnytjafiskur.
    Það var líka merkilegt að heyra Össur Skarphéðinsson, eða lesa hans ræðu reyndar því að ég átti ekki þess kost að hlusta á hann. Ég las hans ræðu. Hann talar um þrjár tegundir af karfa sem er alveg rétt. Það eru þrjár tegundir af karfa sem við Íslendingar eigum og hann talaði jafnvel um að það sé hægt að beita útlendingum á úthafskarfa. Það má skilja málflutning hans þannig. Hann talaði líka um djúpkarfann sem hann telur mjög verðmæta afurð. Það væri gaman að heyra nánari skýringar á því hvernig hann ætlar að flokka þetta þegar EB-flotinn kemur hérna inn. Í hvaða karfa fer hann? Þeir fara auðvitað í þann verðmætasta og sem er auðveldast að ná. Það er einfalt mál.
    Síðan eru menn að tala fram og til baka með einhverja reiknipunkta í staðinn fyrir að leggja þetta einfalt fyrir fólk. Fólk skilur þetta þannig einfaldlega að hér er um ósambærilega hluti að ræða, því miður. Það er miklu heiðarlegra að viðurkenna það og segja sem svo að eftir ár er þessi samningur endurskoðaður og ef við teljum að áframhaldið sé sambærilegt verðum við mjög óánægð eftir ár ef ekki verður snúið við í þessu máli.
    Það var furðulegt að hlusta á aðra stjórnarsinna sem hafa talað. Guðjón Kristjánsson talaði líka í gær og var að tala um eftirlitsþátt samningsins sem hann taldi mjög viðunanlegan. Það er mjög athyglisvert að hann talaði aðallega um eftirlitsþáttinn. Hann er eflaust mjög viðunanlegur. Ég skal ekkert um það

segja. Alla vega kemur það fram í þessum samningi að eftirlitsmaðurinn sem er íslenskur á að hafa fullt fæði um borð o.s.frv. og fær greitt fyrir sín störf. Ég skal viðurkenna að það er mikið atriði að þegar EB-skipin fara inn í okkar fiskveiðilögsögu fari þeir með hreint skip, þeir komi ekki með afla um borð sem þeir hafi veitt annars staðar. Þá er auðveldara að fylgjast með því. En þetta var það eina jákvæða sem mér fannst hann koma með.
    Árni Johnsen talaði áðan og hann gekk ansi langt í útreikningum sínum, ég verð að segja það. Hann var farinn að tala um að þetta gæti kannski verið jafngilt í verðmætum og ef við værum að tala um þurrkaða loðnu á Japansmarkað. Það var ansi langt seilst.
    En mér finnst að það væri heiðarlegast ef hæstv. sjútvrh. viðurkenndi að við hefðum ekki náð ásættanlegum hlut okkar í þessu samkomulagi.
    Ég veit að það er kannski ekki raunhæft, en mig langar samt að kasta einu fram. Það eru 18 skip sem geta fengið leyfi til að veiða þessi 3.000 tonn og það eru fimm skip sem mega veiða í einu. Þetta eru 3.000 tonn og 3.000 tonn eru ekki mjög mikið magn. Það er afli eins venjulegs togara á ársgrundvelli, sæmilegs togara. Ég vildi bara benda hæstv. sjútvrh. á að það er langbest að við bjóðumst til að veiða þessi 3.000 tonn og deilum þeim síðan á silfurfati á þessi 18 skip. Þá þurfum við ekki að opna okkar landhelgi.