Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:04:03 (4700)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur margsinnis komið fram hér í þinginu að ég hef sitthvað við hinn formlega þátt þess máls sem við erum að afgreiða hérna að athuga. Vil ég öðru fremur nefna tregðu stjórnvalda til að ganga þannig frá málinu að tryggt væri að það stæðist gagnvart íslenskum stjórnskipunarlögum. Þann 12. des. sl. lýsti ég því yfir sem minni skoðun að þingið ætti að reyna að ná sáttum um að ljúka 2. umr. um málið og atkvæðagreiðslu í kjölfar hennar, en láta staðfestingarfrv. síðan bíða endanlegrar afgreiðslu þar til gengið hafði verið frá þeirri breytingu sem gera þarf á samningnum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss. Enginn vilji virtist til að skoða þessa málsmeðferð þó að þannig hefði kannski mátt spara deilur, tíma og fyrirhöfn, bæði núna og síðar. Afstaða mín til frávísunartillögunnar byggist á óánægju með hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Ég segi já.