Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:44:15 (4759)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. spurði hvort ég hefði heyrt ræður hæstv. sjútvrh. Ég hef hlustað á þær með athygli. Kannski hef ég misst eitthvað úr vegna þess að ég hef orðið að hverfa frá umræðunum öðru hverju, en ég hef hlustað á þær með athygli og verð að segja eins og er að þar var aðdáanlega vel á málum haldið út frá bæjardyrum ríkisstjórnarinnar.
    Til þess að menn misskilji nú ekki þetta mál því tilgangurinn er væntanlega fremur að skýra en afflytja verð ég að leggja höfuðáherslu á eitt. Það sem ég sagði í svari við fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf. átti við um EES-samninginn. ( KHG: Báða.) Nei. Það átti við um EES-samninginn og tilefnið var beinlínis það að þar var Evrópustefnunefnd að ræða við Henning Christophersen um þann samning. Þar var meginatriðið að við af hálfu EFTA-þjóðanna allra lögðum áherslu á að við vildum meta EES-samninginn út frá því hvort hann væri sem heild í jafnvægi og það átti ekki við um tvíhliða samninga einstakra ríkja.
    Að því er varðar þann samning sem hér er til umræðu, þ.e. samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum milli Íslands og Evrópubandalagsins, er hann sérstakur samningur. Við Íslendingar höfum lagt á það megináherslu frá upphafi að hann sé aðskilið mál og sjálfstætt mál vegna þess að við höfum aldrei fallist á nein tengsl milli EES-samningsins um markaðsaðgang og þessa tvíhliða samnings. Það er grundvallarsjónarmið sem þessi ríkisstjórn hefur haldið í heiðri eins og allar aðrar ríkisstjórnir á undan henni.
    Um tvíhliða samninginn gildir því það sem sagt hefur verið. Um hann var fjallað út frá því sjónarmiði að hann væri sjálfur í jafnvægi, að við létum ekkert af hendi annað en það sem við fengjum á móti og það væri kaup kaups, það væru slétt skipti. Það er

innan marka 3.000 tonna af karfaígildum og ekkert meir. Það er rammasamningur til tíu ára. Síðan eru árlegir samningar sem eru innan þessara marka. Evrópubandalagið á þess engan kost að hækka þau mörk. Þessi samningur á að vera í jafnvægi.
    Að því er varðar það margfræga langhalamál sem menn hafa verið að skemmta sér hér við er rétt að það komi fram að það var að tillögu franska sjávarútvegsráðherrans sem það mál var skoðað á sínum tíma og eina ástæðan fyrir því að samningar tókust ekki um það var sú að af Íslands hálfu var ekki unnt að sýna fram á að sá fiskstofn væri til í neinu veiðanlegu magni á grundvelli rannsókna sem fram hefðu farið af okkar hálfu.