Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 18:01:01 (4762)


     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Það hefur orðið allítarleg umræða um þann þátt samningsins sem menn hafa verið að fjalla um, sjávarútvegssamninginn, og verðmætamat manna þar á. Hæstv. utanrrh. sagði er hann fjallaði um þennan sjávarútvegssamning m.a.: Eitt erfiðasta viðfangsefnið í þessum samningum er að tryggja að raunverulegt jafnvægi ríki í skiptum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Þar höfðum við frá upphafi visst forskot því hvort sem við notum viðmiðanir sjútvrn. eða Evrópubandalagsins eru 30.000 tonn af loðnu verðmeiri en tilsvarandi 3.000 tonn af karfa, 20% verðmætari en hlutur EB. --- Sagði hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson.
    Því miður er það svo að hæstv. utanrrh. hefur talað á þessum nótum allan tímann og fleiri hafa gert það og tekið undir þessa skoðun. (Gripið fram í.) Því miður er það svo. Hv. þingflokksformaður Alþfl. grípur fram í og segir að hann hafi mælt þetta vel og rétt skulum við þá ætla að hann meini einnig formaður þingflokksins. Þá vil ég segja það sem mína skoðun og ábyggilega margra annarra að þessi málflutningur hæstv. utanrrh., að túlka þennan samning þannig að ímyndaður ávinningur okkar Íslendinga af honum sé yfir 20%, er ekki aðeins rangur, þó það sé ekki út af fyrir sig neitt nýtt að hæstv. utanrrh. segi slíka hluti, en það sem verra er er að það er enginn efi að hann stórskaðaði málsókn Íslendinga í þessu máli. Það eru blindir menn sem ekki vilja viðurkenna slíkt og sjá að sá málflutningur að taka slíkt upp og fullyrða að hér sé um 20% ávinning fyrir okkur að ræða í miðjum samningunum er slíkt útspil að það er ófyrirgefanlegt.
    Ef við reynum aðeins að meta sjálfir þetta margrædda atriði, þessa verðstuðla. Menn eru að búa til eitthvert hugtak og hér hafa þeir fundið það upp að kalla þetta verðmætastuðla og það á að gefa okkur hugmynd um annars vegar verð á karfa í þessu tilfelli og hins vegar á loðnu.
    Skoðanir á þessari aðferð til verðmætamats eru trúlega jafnmargar og misjafnar og þeir sem um þær fjalla, enda hefur farið í þessari umræðu alveg ótrúlega langur tími í skoðanaskipti um það atriði. En ég verð að spyrja hvernig það má vera að við nefnum ekki hlutina fremur réttum nöfnum og reynum að glöggva okkur á því hvert raunverulegt verð er á þessum afurðum. Af hverju getur það verið svo flókið mál að fá botn í það þannig að við tölum sama mál í þessu, hv. þm.?
    Ef menn vildu gera það og leita að því rétta í þessu máli og leita til réttra aðila og fá upplýsingar um það sé ég ekki að menn þyrftu að eyða jafnlöngum tíma og raun hefur orðið á til að komast að því sanna í þessu máli.
    Almennt eru menn hins vegar sammála um að verðmæti þessara 30.000 tonna af loðnu sé um 120 millj. kr. Ég held að því hafi ekki verið mikið mótmælt í þessari umræðu. En það er fremur verðgildi karfans sem menn hafa verið að deila um og því hafði ég samband við útgerð sem veiddi á sl. ári um 2.500 tonn af karfa og seldi þann afla erlendis. Meðalverð þess afla, þ.e. skilaverðið heim að frádregnum kostnaði erlendis, losaði um 100 kr. á kíló. Ef við höldum áfram að reikna kemur glögglega í ljós að ef þetta útgerðarfyrirtæki hefði selt 3.000 tonn værum við að tala um verðmæti upp á hvorki meira né minna en um 300 millj. kr. Til þess að gæta réttlætis er eðlilegt og sjálfsagt að taka fram að hér þarf að meta inn í til frádráttar þá kvótaskerðingu sem er þegar menn sigla með karfann sem ef ég man rétt er um 15%. Það þarf að meta hana til frádráttar. Það er spurning hvað menn vilja meta það hátt. Engu að síður sýnir þetta dæmi svo ekki verður um villst að verðmunur er mikill á þessum tegundum.
    Það er ekki bara að ég hafi verið að leita eftir þessum upplýsingum. Þetta staðfestir það sem kom fram í sjónvarpinu fyrir fáum dögum þegar fréttamaður fór og kynnti sér þessi mál hjá starfsmönnum Landssambands ísl. útvegsmanna. Við þurfum ekkert að

velkjast í vafa um þetta atriði. Með þessum aflaskiptum er verulega, þó ekki sé sterkara að orði kveðið, hallað á hlut Íslands svo nemur verulega háum fjárhæðum.
    Ég vildi leyfa mér að draga fram annað dæmi máli mínu til stuðnings þegar ég er að tala um þennan verðsamanburð, en það er samþykkt sem gerð var hjá Vélstjórafélagi Íslands sem um leið birti mótmæli gegn þessum samningum þó hér hafi margsinnis verið sagt í umræðunum að allir aðilar í sjávarútvegi séu þessum samningi fylgjandi. Það er sko aldeilis ekki. Vélstjórafélag Íslands lýsir yfir andstöðu við þennan samning og það segir í bréfi til okkar og samþykkt sem þeir gerðu, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Samkvæmt verðmætastuðlum Þjóðhagsstofnunar allt frá árinu 1986 miðað við heildarverðmæti þessara tveggja fisktegunda upp úr sjó er karfakvótinn að meðaltali um 25% verðmætari en loðnukvótinn. Þessi mismunur er hæstur um 75% en lægstur um 13%. Væri þessi afli aftur á móti allur seldur erlendis, á mörkuðum EB, bendir allt til að karfinn sé a.m.k. 50% verðmætari en loðnan.``
    Ég trúi varla öðru, virðulegur forseti, en að alþingismenn geti ferið sammála því að með þessum þætti samningsins er mjög hallað á hlut okkar Íslendinga þó ekki sé meira sagt. Hæstv. utanrrh. heldur hinu gagnstæða fram og telur loðnuna 20% verðmætari. Ég veit varla hvernig ég á að komast að orði til að lýsa undrun minni á slíkum málflutningi hæstv. utanrrh., að hann skuli ekki enn vera búinn að átta sig á því hvað á okkur hallar í þessum samningum.
    Það væri einnig fróðlegt að fá upplýsingar um hvort það sé alveg ljóst að Evrópubandalagið hafi yfir þeim loðnuheimildum, sem þeir hafa nú verið að semja um til okkar, eitthvað að segja að liðnu þessu ári. Er það sjálfgefið? Ég leyfi mér að draga það í efa.
    Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði um áðan. Það er um hvernig menn ætla að deila út þessari loðnu, hvernig hún á að koma til loðnuskipanna og einnig af hverjum á að taka þennan karfa. Ég held að það væri fróðlegt að fá það upp og ég trúi reyndar ekki öðru en að það liggi fyrir hvernig menn ætla með það að fara.
    Það er margt í þessum samningi sem veldur okkur áhyggjum og áform ríkisstjórnarinnar eru margvísleg þessa dagana og ekki síst hvað viðvíkur sjávarútvegi. Ég hef áhyggjur af þeim áformum ríkisstjórnarinnar að búa svo um að erlend fyrirtæki skuli geta komist inn í íslenskan sjávarútveg í gegnum þriðja aðila. Ég hef áhyggjur af því ekki síst með tilliti til þess hversu útgerðin er veik og rekstrargrundvöllur hennar erfiður. Ég hef einnig áhyggjur af áformum ríkisstjórnarinnar, og meira en áformum, við erum að ræða frv. sem nú liggur fyrir, í sambandi við að gefa erlendum aðilum bæði rétt til að eiga og reka fiskmarkað á Íslandi. Ég hef áhyggjur af því. Ég tel mig sjá nokkuð hvað þar muni gerast. Ég held að það sé enginn vafi að fiskur sem hráefni mun í vaxandi mæli flytjast úr landi. Hann mun í vaxandi mæli flytjast úr landi. Það eru margir aðilar einmitt í greininni og sem eru henni gagnkunnir sem staðfesta einmitt að svo muni verða.
    Ég var að glugga í ummæli manna sem fjölluðu um þessi mál á ráðstefnu sem haldin var í Viðey, mjög fróðlegri ráðstefnu, en þar kemur fram hjá einum aðila sem er að verka flök til útflutnings að hann segir að um mikinn ávinning sé að ræða af samningnum, það er ekki spurning í hans huga, en hann segir líka að mesta ávinning hans af þessum útflutningi sé ekki að finna í Evrópu. Ávinningurinn sé langsamlega mestur í Bandaríkjunum. Þar er ég þessum aðila sammála. Ég held að menn hafi mjög vanrækt að skoða og viðhalda Bandaríkjamarkaðinum.
    Það er einnig fróðlegt að fyrir fáum dögum var fyrirtæki að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til að sinna nýrri markaðsleit í útflutningi á vatni sem við margir hverjir teljum að miklir möguleikar búi í. Og hvar skyldi þessi maður hafa verið staðsettur? Hvar skyldu möguleikarnir hafa verið stærstir í þessari grein? Þessi maður átti að vera staðsettur í Boston í Bandaríkjunum. Þetta segir okkur meira en mörg orð um að möguleikarnir eru margvíslegir og ég held að þeir séu stærstir og mestir einmitt þar en ekki í Evrópu. Það á bæði við iðnaðinn og sjávarútveginn.
    Það var líka í sambandi við þá ráðstefnu sem haldin var í Viðey og við lestur þeirra erinda sem þar voru flutt að það kom fram hjá einum mætum manni sem þar talaði að eftir að hafa rætt um tollabreytingarnar, og hann fór mjög ítarlega yfir í hverju þær mundu felast fyrst og fremst og hver ávinningur okkar af þeim væri, sagði hv. ræðumaður:
    ,,Í öðru lagi eru svo taldar upp nokkrar vörutegundir sem engar tollalækkanir verða á. Þetta eru vörutegundir sem Evrópubandalagið taldi sérstaklega viðkvæmar. Og þeirri afstöðu varð ekki haggað í samningaviðræðunum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.``
    Hvað skyldi hafa legið hér á bak við? Og skyldum við Íslendingar ekki eiga eftir að reka okkur oftar á það í samskiptum við þessa aðila að það verður einmitt vilji þeirra sem mun ráða?
    Síðar í sömu ræðu í Viðey sagði þessi ágæti maður sem í svo mörg ár hefur unnið að þessum málum:
    ,,Á því er engin launung að Evrópubandalagið hefur það á stefnuskrá sinni að fá hráefni erlendis frá til vinnslustöðva innan bandalagsins. ( ÖS: Hárrétt.) Hárrétt, segir fulltrúi Alþfl. Samt var hann að segja áðan með fyrirvara sínum sem hann gerði við atkvæðagreiðslu að með þeim samningum og þessum væri verið að flytja atvinnu inn til landsins --- þveröfugt. ( ÖS: Þetta var skýring við atkvæði um EES-samninginn.)
    ,,Tollalækkanir``, hélt svo ræðumaður áfram, ,,á heilum ferskum fiski voru því jafnan hið fyrsta sem bandalagið bauð í samningaviðræðunum.``
    Það er málið. Ég hef margsinnis þegar ég hef rætt um þessi mál bent á að með þessum samningum værum við einmitt að falla í þessa gryfju, við værum að auka líkur á því að flytja út þessa afurð okkar í vaxandi mæli sem hráefni þannig að við Íslendingar sjálfir gætum ekki notið margfeldiáhrifa vinnslunnar hér heima, það yrðu aðrir aðilar sem hennar mundu njóta.
    Guðjón B. Ólafsson skrifaði grein í blöð um helgina sem hefur mikið verið til umræðu og viðtal við þann ágæta mann um sjávarútvegsmál og að vísu um fleira. Það blandast engum hugur um að Guðjón B. Ólafsson hefur mikla reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á sölu- og markaðsmálum sjávarútvegsins. Hann segir einmitt í nefndu blaðaviðtali, með leyfi forseta:
    ,,Við eigum að vinna okkar hráefni í landi og athuga þarfir markaðarins og vinna hráefnið fyrir hann en ekki senda hráefnið til annarra sem endurvinna eða endurpakka það að þörfum neytendanna. Fyrir tíu árum síðan``, segir Guðjón B. Ólafsson, ,,fluttum við um 70% frystra sjávarafurða okkar til Bandaríkjanna. Þetta er komið í 20% í dag.``
    Er ekki orðið meira en tímabært að fara að skoða af meiri festu og meiri alvöru en fyrr hvert við ætlum að stefna, Íslendingar, í þessu máli? Hvert ætlum við að stefna í endurnýjun skipaflota okkar og vinnslu afurðanna miðað við þær breyttu aðstæður sem nú hafa skapast með samþykkt EES-samningsins?
    Ég trúi því að það sé okkur mjög þarft að gera það og gera okkur grein fyrir því hvert við ætlum að stefna í þessum málum. Mér finnst að það hafi ekki verið gert og það er nánast tilviljun ein sem hafi ráðið um það hvað ofan á hefur orðið. Við sjáum það og það er skemmst til þess að vitna hver uppbygging og endurnýjun togaraflotans er, í hvers konar skipum hún hefur orðið.
    Menn hafa einnig verið að gamna sér við að reikna út að sá ávinningur sem við hefðum af þessum samningum vegna tollalækkana væri um 1,9 milljarðar. Þessi tala er í mínum huga ekki trúverðug og langt því frá að vera það, m.a. vegna þess að þær viðmiðunartölur sem hér er talað um, þessir 1,9 milljarðar, eru fundnar út miðað við árið 1990. En árið 1991 dróst útflutningur okkar á ísuðum fiski saman, ef ég man rétt, um ein 40% og mikill samdráttur varð á þessum útflutningi einnig á síðasta ári. Að taka árið 1990 til viðmiðunar er því algerlega rangt og raunverulega falskt að taka það ár sem viðmiðunarár.
    Ég vildi segja það líka í sambandi við þennan ávinning að menn hafa nefnt að við mundum ná sambærilegum tollum og viðskiptahættir yrðu svipaðir og með öðrum þjóðum. Þetta er vitaskuld alveg fráleitt að nefna það því nafni á meðan við stöndum frammi fyrir því að ríkisstyrkir Evrópubandalagsins til fyrirtækja í sjávarútvegi muni nema hvorki meira né minna en um 150 milljörðum kr. Þetta jafngildir því að það þyrfti að styrkja íslenskan sjávarútveg hvorki meira né minna en um 20 milljarða kr. til að jafnræðis gætti. Hvernig dettur einhverjum í hug að það sé hægt að leggja slíkt að jöfnu? Enda eru nú að rísa víða úti fyrirtæki sem eiga að taka þetta hráefni frá okkur og vinna það og njóta til þess alveg gífurlega mikilla styrkja frá Evrópubandalaginu. Þetta er öllum ljóst og þetta er einn af mörgum annmörkum þessa samnings.
    Ég vil einnig gagnrýna --- og hef gert það --- eftirlitsþátt þessa samnings. Ég finn að því og vil spyrja um það hér hvort menn telji sig ekki geta fundið leið til að fá því breytt í samningnum þannig að Íslendingar geti fylgst með löndun þess afla sem þessi skip koma með, það sé ekki aðeins um það að ræða að við höfum eftirlitsmenn um borð í þessum skipum heldur hitt einnig að við getum fengið rétt til þess að fylgjast með því þegar fiski er landað úr þessum skipum.
    Ég hef eins og fleiri velt því fyrir mér hvort Landhelgisgæslan ætti hugsanlega að koma meira inn í þennan eftirlitsþátt með veiðieftirlitinu. Ég tel að það væri að mörgu leyti kostur að svo væri. Það gæfi kannski þessum þætti málsins meiri vigt ef svo mætti segja. En því miður er það ekki svo. Það er eins með Landhelgisgæsluna að það er kaldhæðni örlaganna að einmitt á þessum tíma, þegar við erum að bjóða hér heim þeirri hættu að erlend fiskiskip muni í stórauknum mæli koma upp að okkar fiskveiðilögsögu, það er engin spurning, og við hefðum þess vegna þurft að auka eftirlitsþátt Landhelgisgæslunnar, þá erum við að skera hann niður alveg stórlega. Við skerum svo niður fé til Landhelgisgæslunnar að hún þarf nú að leggja einu af þremur skipum sínum og raunlækkun á fjárveitingum til Gæslunnar er hvorki meiri né minni en um á milli 18 og 19% frá árinu 1991 og til þeirra fjárlaga sem við vorum að fjalla hér um.
    Eitt atriði er það enn sem ég hefði áhuga á að spyrjast fyrir um. Það stendur í samningnum, fylgiskjali 2, ,,hafa hliðsjón af ákvæðum hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem báðir aðilar hafa undirritað.`` Það er að vísu rétt að EFTA-löndin hafa undirritað hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, það munu vera eitthvað um 130 ríki, en það vekur samt athygli, og ég vék að því þegar ég talaði um EES-samninginn, að 52 lönd hafa ekki enn fullgilt þennan sáttmála. Það er ekkert af löndum EFTA sem hefur fullgilt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna nema Íslendingar, ekkert. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna: Eru þetta þau ríki sem bera hag okkar svo sérstaklega fyrir brjósti og vilja allt á sig leggja, eins og margoft hefur komið fram í máli hæstv. utanrrh., til að fá okkur inn í þetta samfélag sitt? Sýnir þetta okkur það? Ekki mér.
    Virðulegur forseti. Ég gæti sagt miklu fleira, en ég ætla ekki að eyða lengri tíma í þessa umræðu. Mér er ljóst að málið á hefur meirihlutafylgi á Alþingi og mun því verða samþykkt hér. Ég fékk í hendur blaðaútklippu sem mig langar aðeins til að benda á í örfáum atriðum. Það er frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Þar stendur:
    ,,Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vill staðfestingu á samningnum um EES.`` Nú veit ég að við erum að tala um fiskveiðiþáttinn, en allt grípur þetta hvað inn á annað.
    Þar segir, með leyfi, virðulegur forseti: ,,Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem haldinn var í Neskaupstað, samþykkti ályktun þar sem mælt var með að Alþingi staðfesti aðild Íslands að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands gerir sér grein fyrir því að samningurinn um EES hefur í för með sér víðtækar breytingar á fjölmörgum sviðum sem hafa að geyma bæði kosti og galla. Augljós ávinningur er m.a. greiðari aðgangur fyrir Íslendinga að vörum innan Evrópumarkaðar. Sérstaklega á þetta við um sjávarafurðir sem bæði munu skila heim hærra skilaverði og leggja grunn að nýjum sóknarfærum í íslenskum sjávarútvegi``, segir í ályktuninni.
    Og þeir segja meira: ,,Farmanna- og fiskimannasambandið telur þó að innan ramma EES-samningsins sé mikilvægt að tryggja eignarhald og nytjarétt náttúruauðlinda undir forræði Íslendinga. Þetta á sérstaklega við um eignarhald útgerða og fiskvinnslu á stjórn fiskveiða.``
    Erum við að því? Höfum við verið að vinna að því þessa daga með samþykkt

EES-samningsins og þessa sjávarútvegssamnings? Nei, þveröfugt, þveröfugt. Og það vita þeir menn sem hafa setið formannaráðstefnur hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Þess vegna setja þeir þetta á blað.
    Og þeir segja meira: ,,Farmanna- og fiskimannasambandið telur einnig að við frágang á tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins um gagnkvæmar veiðiheimildir þurfi að gæta þess að hagsmunir Íslendinga séu tryggðir á sem bestan hátt, þ.e. skipti á veiðiheimildum milli samningsaðila séu sanngjörn og tryggt sé strangt eftirlit með veiðum útlendinga innan fiskveiðilögsögunnar.``
    Eru þessi skipti sanngjörn? Svo langt því frá. Svo halda menn því hér fram að allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi séu að mæla með þessum samningi. Það er aldeilis ekki svo.
    Því miður höfum við kannski ekki nægjanlega rætt þennan samning og skýrt hann fyrir mönnum og skipst á skoðunum um hann. En ég er sannfærður um að í honum leynast alveg ótrúlega miklar hættur fyrir íslenska fiskvinnslu, enda kemur það fram á margan hátt.     Segir t.d. á títtnefndri ráðstefnu, sem ég var að vitna til og var í Viðey, einn af þeim aðilum sem vinnur að sjávarútvegsmálum:
    ,,Í frystingu mun samkeppnisstaða okkar gagnvart Norðmönnum versna með EES.`` --- Þetta er málið.
    Annar aðili tekur nákvæmlega í sama streng á þessari ráðstefnu. Og sá þriðji tekur einmitt undir það sem ég sagði áðan. Hann varar við því að með þessum samningum munum við verða fyrst og fremst veiðiþjóð og flytja afurðir okkar í stórum stíl úr landi.
    Og að lokum, virðulegur forseti, harma ég hvernig ríkisstjórnin hefur lagt upp bæði þennan sjávarútvegssamning og EES-samninginn, leyft sér að leggja hann þá upp að blekkja fólk á þann hátt að hér verði blóm í haga strax á morgun eftir að þessir samningar hafa verið samþykktir. Hverjum dettur það í hug? Hverjum dettur í hug að segja í alvöru við fólkið suður á Suðurnesjum að með samþykkt þessa samnings muni þar allir fá atvinnu? Hver trúir þessu? Hvernig leyfa þingmenn sér að halda slíku fram? Það er ábyrgðarleysi.