Samningar við EB um fiskveiðimál

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 18:21:21 (4813)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í næstum 20 ár hafa Evrópubandalagsþjóðirnar sótt það fast að fá að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Jafnlengi höfum við staðfastlega varið forræði okkar yfir fiskimiðunum. Núna allt í einu er lagður fyrir Alþingi mjög vondur fiskveiðisamningur undir því yfirskini að hér sé um að ræða samning um gagnkvæma veiði milli Íslands og EB. Gagnkvæmnin er ekki fyrir hendi. Okkur er boðið að fiska í eigin lögsögu fisk sem að óbreyttu hefði hvort eð er fallið í okkar hlut. Ég sé ekkert sem réttlætir þennan samning og segi nei.