Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 11:58:27 (4825)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að leiðrétta þetta með fundinn. Mig minnti að það væru kennarar hjá BHMR, ég man það nú ekki en það er aukaatriði. Varðandi tekjuskatt einstaklinga sem hv. þm. nefndi, þá er náttúrlega nauðsynlegt að hafa það í huga og gleyma því ekki, að menn eru að lækka aðstöðugjöldin á móti þessum hækkunum. Menn verða að hafa jöfnuna alveg heila.
    Hv. þm. las upp úr hinum skrifaða texta að það var sagt að ekki mundi nást að stöðva aukningu atvinnuleysis þannig að það staðfestist að sú hugsun var þegar á borðum og þegar kynnt. Menn voru ekki að gefa til kynna að atvinnuleysi mundi þegar í stað minnka vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti var tekið fram eins og hv. þm. las að ekki mundi nást að stöðva atvinnuleysið og þetta ítrekaði ég síðar í umræðum og hef gert síðar, bæði ég innan þings og utan.
    Varðandi atvinnuleysið að öðru leyti tel ég nauðsynlegt að menn haldi sig við ákveðnar tölur. Ég veit að deilur eru um það með hvaða hætti þetta er mælt. Til að mynda hefur Hagstofan komið með vissar athuganir sem eru ekki jafnreglubundnar eins og aðrar. Það skakkar nokkru. Að vísu hreyfist það til eftir því um hvers konar atvinnuleysi er að ræða. En það er afskaplega áríðandi fyrir samhengið, af því að við eigum nú að stuðla að því öll sem hér erum og nógu er ástandið slæmt, að við eigum að tala um sambærilegar tölur. Ég hygg að menn haldi sig við þær spár sem miða við þá reynslu og þær aðferðir sem við höfum búið við. Það er ekki gert til þess að draga úr þeim háska eða vanda sem við erum í, aðeins í þágu umræðunnar er skynsamlegt að halda sig við þær aðferðir sem hafa hingað til verið notaðar í þessari viðmiðun.