Framleiðsla og sala á búvörum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:29:51 (4842)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það er afar sérstakt að í umræðu um mál, sem í sjálfu sér er ekki stórt, skuli einn hv. þm., hv. 2. þm. Norðurl. v., standa upp og lýsa yfir andstöðu sinni við málið sem því miður var að verulegu leyti byggð á vanþekkingu, og stökkva síðan á braut áður en umræðu er lokið.
    Ég ætla ekki að hafa hér mörg orð en ítreka það að hér er ekki nein efnisleg breyting á ferðinni á því lagaákvæði sem hér var samþykkt samhljóða á næstsíðasta degi fyrir jól. Eina breytingin er sú að þetta eina ákvæði um að kalla þurfi saman fulltrúafund er frestað til 1. sept. í ár. Eftir sem áður er reiknað með að haft sé samband við alla fulltrúa um þetta tiltekna mál. Mér sýnist því að afstaða hv. 1. þm. Norðurl. v. byggist á því að ekki sé þá hægt að nota viðkomandi fund til þess að ræða um önnur málefni bændastéttarinnar.
    En aðeins örfá orð um efnisþætti málsins. Það er alveg ljóst að á aðalfundi stéttarsambandsins í haust sem leið var samþykkt einróma heimild til beitingar þessa ákvæðis fyrir sauðfjárræktina að beiðni Landssambands sauðfjárbænda. Það var hins vegar alveg ljóst við lagavinnuna í vetur að þetta ákvæði mundi ekki snerta sauðfjárræktina fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Eftir stóðu þá tvær greinar. Annars vegar hafa hrossabændur í tengslum við sinn útflutning beitt ákveðnu hliðstæðu ákvæði, m.a. í tengslum við afar jákvæða vinnu þeirra við að koma hrossakjöti á markað í Japan, en eins og lögin voru úr garði gerð hjá okkur fyrir áramótin hafa þeir ekki heimild til þess lengur.
    Síðan liggur það líka fyrir, og það hefði ég viljað að hv. 2. þm. Norðurl. v. heyrði, að það náðist algjör samstaða um það meðal sláturleyfishafa, meðal Landssambands kúabænda, að fara fram á það að fá að beita því ákvæði að taka 5% jöfnunargjald til þess að taka ákveðið magn út af markaði vegna offramboðs á nautakjöti. Ég vil að það komi skýrt fram hér að þetta er gert áður en bændur lækkuðu sitt verð um nálægt 20%. Því miður komst það ekki til skila til neytenda í öllum tilfellum þar sem það hvarf einhvers staðar á leiðinni. En bændur voru búnir að lækka sitt verð um 20%.
    Ég bendi líka á það að innlendi kjötmarkaðurinn nýtur orðið nánast engrar verndar ríkisins eins og sauðfjárræktin gerði áður. Þetta er í raun orðinn frjáls og opinn markaður þar sem framboð og eftirspurn ræður verði að verulegu leyti. Þetta er mjög viðkvæmur markaður. Ég bendi líka á það að á síðustu þrem árum hafa bændur tekið á sig einna drýgstan skerf allra aðila í okkar þjóðfélagi til þess að halda niðri vísitölu og lágri verðbólgu. Það sjá menn ef þeir skoða samsetningu vísitölunnar fyrir þrjú síðustu ár. Það eru þess vegna engin rök fyrir því að bændur hafi ekki verið tilbúnir til að taka þátt í þeim leik að fullu.
    Ég bendi einnig á það að ef ekki fást þessar takmörkuðu heimildir til þess að halda utan um markaðinn, hver grein fyrir sig, og þetta fer allt úr böndunum --- ég ítreka að hér er ekki um eingöngu að ræða samkeppni innbyrðis milli kjöteigenda því að kjötið er náttúrlega í samkeppni við alls konar aðrar matvörur og getur ekki á nokkurn hátt skorast undan því, að halda utan um markaðsstarfið --- þá er í mínum huga ekki nokkur vafi hverjir fara verst út úr því. Það eru sauðfjárbændur. Þeir hafa enga burði til þess að taka á slíkum slag. Það eru því raunar ekki stærri hagsmunir nokkurs annars hóps innan bændastéttarinnar en sauðfjárbænda að menn fái þarna mjög takmarkaðar heimildir til þess að halda utan um markaðsstarfið.
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta nema ég ætla að fara örfáum orðum um það hvernig ég sé fyrir mér að beiting þessa ákvæðis fari fram og heimildir til þess. Ég sé það þannig fyrir mér að beiðni um slíkt muni koma frá viðkomandi landshlutasamtökum --- eins og gerðist frá Landssambandi kúabænda í þessu tilfelli --- í samráði við sláturleyfishafa. Síðan staðfesti fulltrúafundur og þá væntanlega aðalfundur stéttarsambandsins slíka beiðni sem heildarsamtök bænda og síðan landbrh. eins og hér hefur komið fram.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en vonast til að okkur auðnist að afgreiða það áður en við förum heim fyrir það hlé sem nú er fram undan.