Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:37:10 (4854)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. vitnaði í orð mín frá 20. jan. í fyrra þar sem ég gerði athugasemdir við þann málflutning sem uppi var hafður varðandi þessar aðhaldsaðgerðir okkar þar sem talað var um að það jafngilti að kennslu sex ára barna yrði hætt. Það yrði hætt kennslu í einstökum tungumálum. Það væri verið að leggja niður 200 stöðugildi, eða hver talan var nú. Ég fann að þessum málflutningi vegna þess að það var látið að því liggja að eitthvað svona væri að gerast og það gerðist ekkert svona. Það var einmitt þetta sem hv. þm. Björn Bjarnason var að ræða í þessari grein, sem þingmaðurinn vitnaði einnig til, og þar sem hann hvatti til þess að tekin yrði ákvörðun um það sem allra fyrst með hvaða hætti þessar aðhaldsaðgerðir yrðu framkvæmdar. Það var einmitt gert með ákvörðuninni um hinn skerta kennslutíma sem ég hef rakið.
    Síðan kemur ítrekað fram krafa um að menntmrn. stýri því nákvæmlega hvernig þessar aðhaldsaðgerðir verði framkvæmdar. Það er alltaf sama þversögnin hjá þessum ágætu þingmönnum. Það er krafist sjálfstæðis fyrir hina einstöku skóla en þegar kemur að einhverjum óþægilegum ákvörðunum þá eiga þær að koma í smáatriðum frá menntmrn. Það er þessu sem ég er að mótmæla.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir tók ekki svo til orða eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að

þetta væri bara sent til einhverra manna úti í bæ eins og hann orðið það. Hverjir eru þessir menn úti í bæ? Það eru stjórnendur skólanna sem talað er til með þessum hætti á hv. Alþingi af einstökum þingmönnum. Þessu mótmæli ég alfarið. Skólastjórnendunum er fyllilega treystandi til að koma því til skila með sem hagkvæmustum hætti að nýta fjármagnið sem þeir hafa til ráðstöfunar.