Atvinnuþróun í Mývatnssveit

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 13:44:13 (4909)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um atvinnuþróun í Mývatnssveit sem flutt er af mér ásamt hv. þm. Kristínu Einarsdóttur. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu. Að úttektinni verði unnið samhliða rannsóknum á áhrifum kísilgúrnáms úr Mývatni á lífríki svæðsisins og fyrstu niðurstöðum skilað og þær kynntar Alþingi fyrir febrúarlok 1993.``
    Þetta er tillögutextinn og eins og menn taka eftir er samkvæmt honum gert ráð fyrir því að fyrstu niðurstöður liggi fyrir fyrir lok þess mánaðar sem nú er byrjaður. Ástæðan fyrir því að svo naumur tími er til stefnu er sú að þessi tillaga kom fram snemma á síðasta þingi en það er fyrst í dag sem mælt er fyrir henni.
    Eins og alþjóð veit og hv. þingheimur að sjálfsögðu er Mývatnssveit þjóðgarðsígildi. Í raun mætti kalla hana þjóðgarðssveit. Það hugtak held ég að ég hafi frá fyrrv. þingmanni og forseta Alþingis, Eysteini Jónssyni, sem var í forustu fyrir lagasetningu um sérstaka verndun Mývatns og Laxársvæðisins en þau lög voru sett árið 1974. Mývatnssveit hefur auk þessarar sérstöku stöðu fengið alþjóðlega viðurkenningu og alþjóðlega stöðu í náttúruvernd með því að flokkast undir Ramsar-sáttmálann um votlendisvernd. Sá sáttmáli var upphaflega gerður 1971 að mig minnir og Íslendingar gerðust aðilar að honum með samþykkt Alþingis 4. maí 1977.
    Mývatnssvæðið er einstætt á heimsmælikvarða, bæði sakir lífríkis og jarðmyndana. Mývatn hefur þannig gífurlegt alþjóðlegt aðdráttarafl eins og best sést á þeim mikla fjölda ferðamanna sem þangað leggur leið sína. Íslenska ríkið hefur óvenjumiklar skyldur við þetta sveitarfélag og svæðið meðfram Laxá. Því valda ekki síst ákvarðanir sem teknar hafa verið um lögverndun á náttúru svæðisins eins og ég hef þegar drepið á og aðild ríkisins að uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar síðustu áratugi einkum Kísiliðjunnar hf. og Kröfluvirkjunar.
    Uppbygging og rekstur Kísiliðjunnar hf. í Mývatnssveit frá árinu 1967 að telja hefur haft mikil áhrif á byggðarlagið og verið aðalundirstaðan undir fjölgun íbúa frá því sem áður var. Starfsemi verksmiðjunnar hefur frá upphafi verið umdeild og margir hafa haft áhyggjur af að rekstur hennar hefði neikvæð áhrif á lífríki svæðisins. Þær áhyggjur hafa ýtt undir rannsóknir og með lögunum um verndun Mývatns- og Laxársvæðisins var sett á fót sérstök rannsóknastöð við Mývatn. Vissulega ekki vegna Kísiliðjunnar sérstaklega heldur almennt til að afla þekkingar til þess að unnt væri að standa í ljósi vitneskju að verndun svæðisins.
    Fjölmargar nefndir sérfræðinga hafa starfað á vegum stjórnvalda til að fá sem gleggsta mynd af lífríki Mývatns og til að láta kanna hugsanleg áhrif af starfsemi verksmiðjunnar á það. Í júlí 1991 skilaði sérfræðinganefnd á vegum umhvrn. áliti um ,,áhrif Kísiliðjunnar hf. á lífríki Mývatns`` og í framhaldi af því setti iðnrh. á fót sérfræðingahóp til að móta tillögur um frekari rannsóknir á áhrifum kísilgúrnáms á lífríki svæðisins. Sá hópur skilaði tillögum 25. mars 1992 og í samræmi við þær standa nú yfir rannsóknir á vegum umhvrn. á áhrifum efnistöku af botni Mývatns. Þær rannsóknir, sem gert hafði verið ráð fyrir að lokið væri eða komnar a.m.k. í áfanga um síðustu áramót, eiga að varpa ljósi á þá spurningu hvort og hversu lengi sé ráðlegt að halda áfram kísilgúrtöku af botni Mývatns og þá um leið starfrækslu verksmiðjunnar.
    Hér er um svo afdrifaríkt mál að ræða fyrir samfélagið við Mývatn að óverjandi er annað en stjórnvöld láti samhliða þessum athugunum kanna möguleika á þróun atvinnulífs og nýsköpun til að tryggja byggð og sjálfbæra þróun í Mývatnssveit.
    Hugtakið sjálfbær þróun er að verða þekkt í alþjóðlegri umræðu og einnig hér á landi þó menn kunni að greina á um hversu vel hafi tekist um þýðingu á þessu hugtaki. Ef nauðsyn er á því að standa við yfirlýst markmið um sjálfbæra þróun hér á landi á einstökum svæðum þá eru Mývatn og Mývatnssvæðið þar í forgangsröð. Það er jafnframt orðin viðurkennd regla víða um lönd að fyllstu varúðar beri að

gæta þá mannleg umsvif eru annars vegar og að meta eigi óvissu náttúruverndinni í vil. Þetta hefur verið kallað varúðarreglan í umræðum. Á henni hvílir m.a. Ramsar-sáttmálinn, eða að minnsta kosti er vísað til hennar í umræðum um markmið Ramsar-sáttmálans sem varðar Mývatnssvæðið, og einnig alþjóðasáttmálinn um fjölbreytni lífríkis sem samþykktur var og undirritaður af hæstv. umhvrh. í Rio de Janeiro í júnímánuði sl. í tengslum við alþjóðaráðstefnu um umhverfisvernd og þróun sem þar var haldin.
    Það getur þannig varla orkað tvímælis að slíka reglu um varúð beri að virða þegar lífríki Mývatns er annars vegar. Því leggja flutningsmenn þessarar tillögu áherslu á að stjórnvöld komi til liðs við heimamenn nú þegar með þeirri úttekt sem tillagan gerir ráð fyrir. Tillagan var flutt síðla á 115. löggjafarþingi en komst þá ekki til umræðu. Svipuð tillaga, um áætlun um uppbyggingu og eflingu í Mývatnssveit, var flutt á 110. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Hún er birt sem fylgiskjal með þessari tillögu til þess að menn geti borið það saman sem þar var lagt til. Fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en meðflytjendur aðrir þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra. Var þingmannahópur kjördæmisins sérstaklega hvattur til þess á þeim tíma af sveitarstjórn Skútustaðahrepps að standa saman um málið og sækja fast að við það yrði staðið sem þar var lagt til en því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga þá.
    Einnig er að finna sem fylgiskjal með þessari tillögu fréttatilkynningu frá umhvrn. frá 27. mars 1992 um námaleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn svo og útdrátt úr skýrslu ráðgjafarhóps um könnun á áhrifum kísilgúrnáms á setflutning í Mývatni og mikilvægi þeirra fyrir lífríki vatnsins. Þetta er gert til þess að bæði hv. þm. og þingnefnd geti áttað sig sem best á stöðu þessa máls. Væntanlegt mun vera innan skamms álit frá þeim hópi sem síðastur var tilkvaddur til að stýra rannsóknum um breytingar á setflutningum í vatninu vegna kísilgúrnámsins og áhrif þeirra á lífríki þess.
    Það mun hafa verið 21. apríl sl. sem hæstv. iðnrh. endurnýjaði starfsleyfi Kísiliðjunnar, sem gefið var út árið 1986, og gildir þar nú með þeim takmörkunum sem í því eru m.a. varðandi kísilgúrnám til ársins 2001 að ég hef fengið upplýst frá umhvrn. Þannig er verið að vinna að athugun þessara mála.
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé mjög brýnt að jafnhliða þessum athugunum nýti menn tímann af stjórnvalda hálfu til að fara yfir þróunarforsendur og þróunarmöguleika í Mývatnssveit í samvinnu við heimamenn. Öllum er okkur það auðvitað í huga að ekki verði kippt grundvelli undan því samfélagi sem þar er, horft til langrar framtíðar. En það er auðvitað samþætt umhverfinu meira en nokkurs staðar annars staðar og sérstök löggjöf kveður á um verndun þess. Með vísan til þess og að hér er um að ræða mál sem tengist náttúruvernd á svæðinu og að umhvn. Alþingis hefur til athugunar kísilgúrnám í Mývatni og athugun á þeim skýrslum sem þegar fram hafa komið varðandi það mál og væntanlegar eru, virðulegur forseti, legg ég til að að umræðu þessari lokinni verði tillögunni vísað til hv. umhvn. þingsins.