Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:47:26 (4947)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Það sem er nýtt í þeim svörum er að hann hefur skipað starfshóp til þess að samræma framkvæmd laganna og hefur þar með viðurkennt að framkvæmdin er afar mismunandi en mér heyrðist hann skýla sér á bak við það að það væri verkefni lögreglustjóra á hverjum stað að túlka relgugerðina.
    Ég vil út af fyrir sig ekki gera lítið úr því að þessi starfshópur taki til starfa og vænti þess að hann skili fljótt áliti og tillögum til ráðherra um breytingar á reglugerðinni sem þörf er á til þess að tryggja samræmda framkvæmd. Hitt vil ég ítreka að það er á valdi ráðherra ef reglugerðin er óskýr að breyta henni þannig að framkvæmdin verði fyllilega samræmd ef nokkur vafi leikur á því. Að mínu mati er reglugerðin ekki þannig að það þurfi að deila um þetta atriði. Mér finnst fyrirmælin verða það skýr að framkvæmdin ætti ekki að vera mismunandi og það er greinilega ekki ætlast til þess í reglugerðinni að hún verði mismunandi. Þetta mál hvílir því fyrst og fremst á hendi dómsmrh. að tryggja samræmda framkvæmd og hvort og hvenær af því verður lýtur fyrst og fremst vilja ráðherrans til þess að það verði, að sömu lög gildi um allt land. Fram til þessa hefur hæstv. dómsmrh. svarað með mjög undarlegum hætti svo að ekki sé fastar að orði kveðið og greinilega ekki haft mikinn vilja til þess að aflétta mismunun á framkvæmd laganna sem verið hefur í þessu máli fram til þessa.
    Ég geri ekki mikið með það, virðulegi forseti, þótt starfandi séu vínveitingaeftirlitsmenn. Þeir koma ekki í stað lögreglumanna. Það er ekki þeirra hlutverk að halda uppi löggæslu. Við skulum minnast þess að lokum, virðulegi forseti, að við höfum séð og heyrt í fjölmiðlum umræður og ákall manna hér í borginni um aukna löggæslu um helgar. Svar yfirvalda hefur verið það að ekki væri til fé til að verða við því og til að koma í veg fyrir ýmsa hörmulega atburði sem gerst hafa í skjóli nætur í nágrenni skemmtistaða hér í bænum. Ég tel að hæstv. ráðherra ætti, virðulegur forseti, að fyrirskipa lögreglustjóranum í Reykjavík að hafa sömu framkvæmd á þessari reglugerð og er á þeim stöðum á landsbyggðinni sem ég hef tilgreint þannig að úr verði bætt.