Strandferðir

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:12:35 (4959)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að ræða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hafi komið mér á óvart. Eins og þingheimi er ugglaust kunnugt standa sakir þannig í sambandi við flóabáta að á fjárlögum fyrir árið 1991 voru framlög til þeirra 150 millj. kr. Það má búast við því að á næstu 2--3 árum, ef ekkert verður að gert, fari slík framlög upp í 570 millj. kr. Ef við til viðbótar þessu hefðum ætlað okkur að halda uppi óbreyttum hallarekstri á Skipaútgerð ríkisins --- óbreyttum, eins og hv. þm. vildi --- þá værum við að tala um 400 millj. til viðbótar miðað við reksturinn á strandsiglingum eins og hann var á síðasta ári. Við værum því að tala um svona 1 milljarð til þessara þarfa. Það gefur auðvitað auga leið að það gengur ekki upp. Ríkissjóður og íslenska þjóðin hefur ekki efni á því.
    Ég vil líka láta þess getið að ég hef ekki fengið kvartanir frá Súgandafirði um það að þörf væri þar á sérstökum aðgerðum. Hins vegar hefur ævinlega verið brugðist vel við í hvert skipti sem sveitarstjórnarmenn hafa haft samband vegna þess að rekstur Skipaútgerðarinnar hefur lagst niður, eins og hv. þm. er kunnugt. Þannig hafa verið teknir upp samningar milli Vegagerðar ríkisins og Samskipa um að þjónusta Norðurfjörð og ég veit ekki betur en sú þjónusta sé fullnægjandi.
    Um Fagranesið er það að segja að það hefur skroppið til nærliggjandi hafna ef á hefur þurft að halda. Stundum hefur það farið til Súgandafjarðar, stundum til Bíldudals. Það er því alls ekki rétt hjá hv. þm. að þessir staðir séu í algjörri einangrun að þessu leyti. Þvert á móti veit ég ekki betur en Vegagerð ríkisins eftir að hún tók við þessum málum í haust hafi lagt sig fram um að greiða úr öllum vandkvæðum sem upp hafa komið. Ef þar skortir eitthvað á skal ég góðfúslega vera milliliður og færa það í tal við embættismenn Vegagerðarinnar.