Strandferðir

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:18:07 (4964)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég var í hópi þeirra sem gerðu sér fyllilega grein fyrir því og hafa gert um margra ára skeið að endurskipuleggja þyrfti strandsiglingar við Ísland enda hafði lengi verið að því unnið. Ég hafði hins vegar efasemdir um að það væri farsælt skref að leggja niður Skipaútgerð ríkisins sisvona án þess að hafa neinar tryggingar í höndum um að þjónustu yrði eftir sem áður haldið uppi og á viðráðanlegu verði til allra þeirra staða sem slíkar samgöngur þurfa. Mér sýnist því miður vera að koma á daginn að þarna séu að myndast göt í samgöngunetið sem eru mjög bagaleg og kosta íbúa viðkomandi staða mikla fjármuni. Dæmi um slíkt hafa verið nefnd hér.
    Og annað er að gerast sem er ekki síður alvarlegt og það er að sú hringtenging landsins með samgöngum á sjó sem var fyrir hendi er nú rofin. Það bitnar sérstaklega á samskiptum Norðlendinga og Austfirðinga. Norðausturhorn landsins býr við afar slæmar samgöngur hvað þetta snertir og engar reglulegar skipakomur, t.d. staður eins og Raufarhöfn. Þar kemur frystiskip við eftir hendinni þegar þarf að sækja afurðir. Þetta þýðir auðvitað stóraukinn þrýsting á flutninga á landi, þungaflutninga m.a., sem krefjast þess aftur að ekki verði um þungatakmarkanir að ræða á þeim vegum sem í hlut eiga. En svo er, því miður, t.d. með norðausturleiðina.
    Ég held þess vegna að ástæða sé til að skoða þessi mál á nýjan leik í ljósi þróunarinnar, í ljósi erfiðleika skipafélaganna sem bæði hafa strítt við mikinn taprekstur og ekki eigi að fagna fyrr en að leikslokum í þessu máli.