Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:23:27 (4967)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á síðasta Alþingi var samþykkt þál. um athugun á vistfræðilegri þróun landbúnaðar á Íslandi. Það er vaxandi viðurkenning á því að forsenda mannlífs á jörðinni sé jafnvægi í ríki náttúrunnar. Þar er jafnvægi í landbúnaði, eða það sem nefnt hefur verið sjálfbær þróun í landbúnaði, mjög mikilvægt að sjálfsögðu. Þó er sú skoðun vaxandi að hlutverk landbúnaðar sé meira en að hugsa um sjálfan sig. Hann þarf einnig að taka að sér að hjálpa til á stærra sviði.
    Þetta kom m.a. fram í erindi á umhverfisráðstefnu í Stokkhólmi skömmu fyrir áramótin sem haldin var á vegum alþjóðabændasamtakanna og var nokkurs konar framhald af ráðstefnu sem haldin var hér á landi í október 1991. Þar flutti m.a. erindi prófessor frá Uppsalaháskóla. Hann er prófessor í sjálfbærum landbúnaði og sá fyrsti, að hans sögn, sem gegnir slíku starfi. Hann setti fram mjög markvissar ábendingar í sínu erindi eins og það að við greiðum ekki nægjanlega mikið fyrir það sem við göngum á náttúruauðlindir okkar og spillum umhverfi með hinu mikla lífsgæðakapphlaupi síðustu áratuga og að náttúran geti komist af án mannsins en maðurinn ekki af án náttúrunnar.
    Íslenskur landbúnaður er nær því að fylla upp kröfur um sjálfbæran eða vistvænan landabúnað en sennilega víðast hvar annars staðar. Engu að síður er mikilvægt að vita sem best hvar hann stendur til að lagfæra það sem betur kann að mega fara. Einnig er mikilvægt að fá viðurkenningu fyrir því sem hér er gott. Dæmi um það er athugun sem mjólkuriðnaðurinn hefur nýlega látið gera og jákvæð niðurstaða hennar um hreinleika íslenskrar mjólkur. Slíkt er að sjálfsögðu mjög mikilvægt fyrir markaðsöflun á okkar framleiðsluvörum.
    Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 584 til hæstv. landbrh. um það hvenær sé að vænta niðurstöðu athugunar á vistfræðilegri þróun landbúnaðar á Íslandi sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi að fela ríkisstjórninni að gera.