Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:18:30 (4982)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða kemur manni nokkuð á óvart. Ég lít svo á að það þurfi alla jafnan nokkuð gildan rökstuðning til ef þingmenn geta ekki unnt flm. máls þess að virða þeirra vilja í sambandi við nefndalega meðferð á málinu. Ég tel að þau rök hafi ekki komið hér fram sem nægi til þess að menn virði ekki vilja flm. um að þingleg meðferð málsins verði sú sem þeir leggja til og byggja málið upp með hliðsjón af. Það liggur í hlutarins eðli ef menn lesa til að mynda greinargerð með tillögunni að hún af þeim sjónarhóli sem gerir það eðlilegt að málinu sé vísað til umhvn. Það er eins og það hafi ekki komist almennilega til skila að um allar framkvæmdir, alla mannvirkjagerð og alla atvinnuþróun á þessu svæði gilda sérstök náttúruverndarlög. Ég á ekki von á að nokkrum manni hefði dottið í hug að leggjast gegn því að tillaga um einhver umsvif í þjóðgörðum til að mynda yrði látin ganga til umhvn. Það er stigsmunur en ekki eðlis á lögunum um verndun Laxár og Mývatns og þeim lagaákvæðum sem gilda um þjóðgarða. Í raun og veru er Mývatnssvæðið byggður þjóðgarður.
    Ég tel þess vegna harla sérkennilegt að menn skuli ekki fallast á þegar svo háttar til sem hér gerir að þingleg meðferð málsins verði sú sem flm. leggja til. Það er býsna merkilegt að upplifa það að hæstv. umhvrh. skuli hafa forgöngu um að vísa málinu frá umhvn. Ég tel miklu eðlilegra að röðin sé sú að málið gangi til umhvn. en eftir atvikum leiti umhvn. eftir umsögn allshn. ef menn vilja það við hafa. Það er út af fyrir sig ágætt að þingnefndirnar tvær sem hér koma helst til greina hafi samstarf um þetta mál.
    Mér finnst alls ekki hafa komið fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að vísa málinu frá umhvn. og mun styðja þá tillögu flm. að hún hafi forustu um vinnu að málinu.